23.02.1982
Sameinað þing: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2588 í B-deild Alþingistíðinda. (2209)

356. mál, endurskoðun á lögum um fuglafriðun

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Fsp. er í tveimur liðum. Fyrri liðurinn er þannig: „Hvenær er þess að vænta, að frv. til laga um fuglafriðun verði lagt fram á Alþingi?“

Það kom fram í ræðu hv. fyrirspyrjanda, að það væri búið að leggja frv. til l. um fuglaveiðar og fuglafriðun oft fram á síðustu árum, ég held fimm sinnum eftir þeim upplýsingum sem ég hef um það. Þetta mál hefur aldrei orðið útrætt og sýnilegt að ýmsir ágallar eru á þessu frv. eins og það var unnið á sinni tíð. Það er brýnt að endurskoða þetta frv., en því miður verð ég að játa að ég hef ekki í hyggju að leggja frv. um þetta efni fram á þessu þingi. Ég tel að það þurfi að vinna það betur. Það er að sjálfsögðu til athugunar í rn. Hitt er líka ljóst, eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi hér, það er vafalaust rétt, að setja þarf í þetta nefnd að nýju og skipa hana sennilega talsvert öðruvísi en gert hefur verið til þessa. Þau mál eru enn í athugun hjá mér. Ég verð hreinlega að játa að ég hef verið dálítið þreyttur á meðferð þessa máls og því miður hefur allt of lítið komið út úr umr. um málið hér á hv. Alþingi þó að það hafi verið lagt fram fimm sinnum.

Hins vegar get ég svarað síðari lið fsp. játandi. Það er unnið að því á vegum ríkisstj. að endurskoða sektarákvæði, bæði í almennum hegningarlögum og sérlögum, og dómsmrh. fer með þessa endurskoðun í heild í samvinnu við einstaka ráðh. Ég hef haft um það samráð við dómsmrh., að í þessari endurskoðun verði sektarákvæði í þeim lögum sem heyra undir menntmrn. Þess er vænst, að unnt verði að leggja fyrir Alþingi það sem nú situr lagafrv. um hækkun sekta fyrir brot á þeim lagaákvæðum sem hv. fyrirspyrjandi nefnir, þ.e. lög um fuglafriðun, friðun hreindýra og náttúruvernd. Ég held, eins og hv. fyrirspyrjandi, að þarna sé um mjög brýnt mál að ræða, hvað sem líða kann heildarendurskoðun allyfirgripsmikils lagabálks eins og laga um fuglaveiðar og fuglafriðun. Þess er sem sagt að vænta, að frv. komi fram með ákvæðum sem fara í þá átt sem hv. fyrirspyrjandi er að spyrja um.