23.02.1982
Sameinað þing: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2589 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

356. mál, endurskoðun á lögum um fuglafriðun

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Með þakklæti bæði til fyrirspyrjanda, hv. þm. Halldórs Blöndals, og til hæstv. menntmrh. fyrir svör hans vil ég aðeins vekja athygli á því, að þótt rétt sé að frv. um það fuglafriðun og fuglavernd, sem hæstv. ráðh. drap á, hafi verið lagt fram fimm sinnum strandaði það í öll skiptin á hinu sama. Það var alltaf jafnvitlaust. Ég hygg að gegnumgangandi hafi þess verið getið í grg. með frv. í öll skiptin, að stokköndin héldi sig yfirleitt á sömu slóðum og rjúpan að vetrinum, þ.e. til fjalla, og þess vegna væri nauðsynlegt að lengja friðunartíma andarinnar til þess að rjúpan yrði ekki skotin í blóra við öndina til fjalla.

Þetta frv. var, svo sem hv. þm. er kunnugt, samið að forgöngu æðarræktarmanna og bera allar breytingar, sem þar voru ráðgerðar, svip af því, þ. á m. hið skefjalausa mávahatur sem fram kemur í frv. og hv. þm. Halldór Blöndal gerði að vissu leyti að sínu í ræðu sinni áðan. Sannleikurinn er náttúrlega sá, að offjölgun máva á Íslandi og það jafnvægisleysi, sem þessi fjölgun hefur valdið í íslensku dýraríki, stafar fyrst og fremst af sóðaskap við fiskiðjuver og á fiskiskipunum. Þessar fuglategundir hafa verið ofaldar. Ef rétt væri og nokkur skynsamleg hugsun á bak við afstöðuna ætti beinlínis að verðlauna mávinn fyrir að halda uppi sorpeyðingu sem er trössuð að öðru leyti á landi hér.

Mér er það minnistætt þegar dreift var hér í þingsölunum riti frá æðarræktarbændum með yfirskriftinni „Flugvargur“ og hv. þm. Steinþór Gestsson fletti upp í þessu riti og las eina mgr., sem byrjar svona: „Bændur sem stunda varp.“ Þá sagði hv. þm. Steinþór Gestsson: Það eru ekki bændur sem stunda varp. Það er mávurinn sem stundar varpið. — Ef við tökum ekki á þessum málum á allt annan hátt en tíðkast hefur fram að þessu munum við fá enn inn á þingið frv. um fuglafriðun og fuglavernd samið af þess háttar sinnuleysi eða endurskoðað af þess háttar sinnuleysi sem lesa má í fyrrgreindu fimmþingafrv., þar sem lögð er áhersla á að bannað verði með lögum að þeyta eimpípu í nánd við fuglabjörg.