23.02.1982
Sameinað þing: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2592 í B-deild Alþingistíðinda. (2215)

355. mál, réttarstaða fólks í óvígðri sambúð

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans, þó að ég verði að segja að ég sé litlu nær eftir að hann hefur svarað þessari fsp. Mér þykir nokkuð ljóst að lítið hafi verið gert til að framkvæma það sem fram kemur í þessari þál.

Hæstv. dómsmrh. talaði um að fyrir liggi greinargerð frá sifjalaganefndinni um hvernig henni þætti rétt að taka á þessu máli. Ég vil nú mælast til þess við hæstv. dómsmrh., að þm. fái að sjá þessa greinargerð sem liggur fyrir og hefur verið send ýmsum hagsmunaaðilum, þannig að þm. gefist færi á að kynna sér þessa greinargerð og þær tillögur sem ég geri ráð fyrir að komi fram í henni frá sifjalaganefndinni. Ég vil því ítreka það, að ég legg til við dómsmrh. að hann leggi þessa greinargerð fram hér á Alþingi þannig að þm. geti kynnt sér hana.

Ég ítreka einnig að það er ljóst, að réttarstaða fólks í óvígðri sambúð er hvað ótryggust að því er varðar eignarréttinn og erfðaréttinn, og ég vil enn og aftur undirstrika nauðsyn þess, að þau mál sérstaklega hljóti réttarstöðu í lögum hið allra fyrsta til þess að komið verði í veg fyrir það óréttlæti og erfiðleika sem tvímælalaust rík ja vegna þess að það hefur vantað alla stoð í lögum að því er það varðar. Þetta sambúðarform er orðið svo algengt að það er löngu orðið tímabært að ráðstafanir verði gerðar til að tryggja efnahagslega réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð.

Tilmæli mín til hæstv. dómsmrh. eru að þm. fái að kynna sér greinargerðina. Ég hafði vonast til þess, að tillögur yrðu lagðar fram á þessu þingi um úrbót í þessum málum, en ég vil þá vænta þess, að hæstv. dómsmrh. beiti sér fyrir því, að þegar á næsta þingi n. k. haust verði lagðar fram tillögur um úrbætur.