23.02.1982
Sameinað þing: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2594 í B-deild Alþingistíðinda. (2219)

355. mál, réttarstaða fólks í óvígðri sambúð

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég hef fengið frá siglingamálastjóra svar við þeim tveimur spurningum sem felast í fsp. hv. þm.

Sú fyrri er þannig: „Hverjar eru þær samþykktir Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar sem Ísland hefur gerst aðili að?“

Hér er listi yfir 10 slíkar samþykktir, sem Ísland hefur gerst aðili að, og það er rétt að ég lesi hann. Þó vil ég taka það fram, að það er sjálfsagt að hv. fyrirspyrjandi fái þennan lista og kannske auðveldara, en ég skal engu að síður fara hratt yfir hann.

1. Alþjóðasamþykkt um öryggi mannslífa á hafinu frá 1960, svokölluð SOLAS- 1960 samþykkt.

2. Alþjóðasiglingareglur 1972.

3. Alþjóðasamþykkt um varnir gegn óhreinkun sjávar af völdum olíu frá 1954 ásamt breytingum frá 1962 og 1969.

4. Alþjóðasamningur um varnir gegn mengun hafsins vegna losunar úrgangsefna og annarra efna í það frá 1972.

5. Alþjóðasamþykkt um auðveldun flutninga á sjó frá 1965 ásamt breytingum frá 1969, 1973 og 1977.

6. Alþjóðahleðslumerkjasamþykkin frá 1966.

7. Alþjóðasamþykkt um mælingu skipa frá 1969.

8. Samþykkt sem ekki er í íslenskri þýðingu. Það er alþjóðasamþykkt frá 1969 um að koma í veg fyrir olíumengun eða skaða af olíumengun, Intervention-1969 er hún nefnd.

9. Alþjóðasamningur um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns af völdum olíumengunar frá 1969.

10. Alþjóðasamningur um stofnun alþjóðasjóðs til að bæta tjón af völdum olíumengunar frá 1971.

Þetta eru þær samþykktir sem staðfestar hafa verið af Íslands hálfu og eru í gildi. Á þessum lista eru ekki alþjóðasamþykktir um Alþjóðasiglingamálastofnunina sjálfa og breytingar á henni, enda hygg ég að ekki sé leitað eftir því, og á þessum lista eru ekki heldur alþjóðasamþykktir sem stofnunin hefur gert og Ísland hefur ekki enn þá staðfest.

Hins vegar fór ég um daginn, og var það svar við svipaðri fsp., yfir þær samþykktir Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar sem ekki hafa verið staðfestar, og vísa ég til þess í því sambandi.

B-liðurinn er: „Hverjar þessara samþykkta, sem Ísland er aðili að, eru komnar til framkvæmda hér á landi?“

Hér er einnig listi yfir þessar sömu tíu samþykktir, sem eru allar komnar til framkvæmda hér á landi nema ein. Jafnframt er þess getið, hvenær þær tóku gildi, og skal ég hlaupa yfir það.

Fyrsta samþykktin, sem er skammstöfuð SOLAS 1960, öðlaðist gildi hér á landi 25. maí 1965.

Önnur samþykktin, um alþjóðasiglingareglur, frá 1972, tók gildi hér á landi 15. júlí 1977.

Þriðja, sem kallast í skammstöfun „Oilpol“ eða alþjóðasamþykkt um varnir gegn óhreinkun sjávar o. s. frv. frá 1954 með síðari breytingum, tók gildi hér í fyrsta lagi 23. maí 1962, en breytingin frá 1962 tók gildi hér 28. júní 1967 og breytingarnar frá 1967 tóku gildi hér 20. jan. 1978.

Í fjórða lagi: Alþjóðasamningur um varnir gegn mengun hafsins vegna losunar úrgangsefna frá 1972. Hann tók gildi hér á landi 30. ágúst 1975.

Í fimmta lagi tók alþjóðasamþykkt um auðveldun flutninga á sjó frá 1965 gildi hér 5. mars 1967. Breytingarnar frá 1969 tóku gildi 12. ágúst 1971 og breytingarnar frá 1977 tóku gildi 31. júlí 1978.

Í sjötta lagi var það alþjóðahleðslumerkjasamþykktin frá 1966 sem tók gildi hér á landi 24. sept. 1970.

Í sjöunda lagi: Alþjóðasamþykktin um mælingu skipa frá 1969. Hún hefur ekki enn þá öðlast gildi hér á landi. Hún er sú eina af þessum samþykktum sem hefur ekki öðlast gildi hér á landi.

Áttunda samþykktin. sem er kölluð tntervention 1969, þ.e. heimild til að grípa fram í þegar um tjón af olíumengun er að ræða, frá 1969, tók gildi hér á landi 15. okt. 1980.

Níunda samþykktin, sem er alþjóðasamningur um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns af völdum olíumengunar frá 1969, tók gildi hér á landi 15. okt. 1980.

Loks er alþjóðasamningur um stofnun alþjóðasjóðs til að bæta tjón af völdum olíumengunar frá 1971. Hann tók gildi hér á landi 15. okt. 1980.

Það, sem ég hygg að hv. fyrirspyrjandi hafi ekki síst viljað vekja athygli á, er eflaust sú staðreynd, að það líður æðioft alllangur tími frá því að samþykktir eru gerðar hjá Alþjóðasiglingamálastofnuninni og þar til við Íslendingar höfum staðfest þær. Í einstökum tilfellum eru þetta allt að 11 ár. Ég verð að taka undir það með hv. fyrirspyrjanda, ef ég met hans viðhorf í þessum málum rétt, að þetta er allt of langur tími fyrir siglingaþjóð eins og okkur. Í mörgum tilfellum er um mjög mikilvægar samþykktir að ræða.

Hitt er svo jafnframt staðreynd, að sumar þær samþykktir, sem við höfum áhuga á að staðfesta og höfum lýst fylgi okkar við eða fulltrúar okkar á ráðstefnum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, hafa ekki enn hlotið staðfestingu hér. Langsamlega mikilvægust af þeim, að því er ég best veit, er sú sem skammstöfuð er SOLAS-1974 og er ný samþykkt um öryggi mannslífa á hafinu. Það verður að segja þá sorgarsögu um þennan viðamikla bálk, að hann er enn þá í þýðingu. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, bæði samgrn. og Siglingamálastofnunar, m.a. beiðni um aukafjárveitingar og beiðni um sérstakar fjárveitingar í þessu skyni, hafa þær aldrei fengist. Þær hafa alltaf verið strikaðar út. Niðurstaðan varð því sú, að reynt var að finna leið til þess að ekki þyrfti að þýða þessa miklu samþykkt, sem er heil bók, að öllu leyti, og varð niðurstaðan sú, eftir fund sem var haldinn af þeim aðilum sem að þessu máli koma, þ.e. siglingamálastjóra, samgrn., utanrrn. og dómsmrn., að ekki væri nauðsynlegt að þýða hana alla. Ég hygg að þýða þurfi um það bil helming. Unnt væri að flytja hér þáltill. til staðfestingar á þessari samþykkt sem brtt. við fyrri samþykkt. Engu að síður er þetta gífurlega mikið verk. Hefur verið áætlað af Siglingamálastofnun að þýðing og frágangur á þessu plaggi muni kosta um 250 þús. kr., sem er að vísu ákaflega há tala, og vera má að unnt sé að gera það fyrir eitthvað minna. Að þessu er nú unnið. Að sjálfsögðu yrði það utanrrh. sem flytti slíka till. um staðfestingu því um alþjóðasamþykkt er að ræða. Ég hef nýlega samþykkt enn eina beiðni um aukafjármagn til að ljúka þessari þýðingu, og ég mun leggja á það alla áherslu að henni verði lokið sem allra fyrst og hún fái staðfestingu hér á hinu háa Alþingi.

Ég vona, herra forseti, að þetta sé svar við þessum fsp. hv. þm., en endurtek að um þetta sama málefni var rætt hér fyrir tveimur vikum og þá kom ég líka inn á þessar alþjóðasiglingamálasamþykktir. Liggur þar fyrir í þskj. jafnframt upptalning á öðrum, en að því er ég leyfi mér að segja ekki eins mikilvægum samþykktum og þessari SOLAS-1974, sem ekki hafa hlotið staðfestingu.