23.02.1982
Sameinað þing: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2596 í B-deild Alþingistíðinda. (2220)

355. mál, réttarstaða fólks í óvígðri sambúð

Fyrirspyrjandi (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans við þessari tvíhliða fsp. minni sem ég ætla að hafi verið eins ítarleg og efni stóðu til. Sjálfur gerði hann grein fyrir meginástæðunni og skildi rétt meginástæðuna fyrir þessari fsp. minni, þar sem einmitt er SOLAS-samþykktin. Ég hirði ekki að fara út í nánari skilgreiningu á þessu atriði, en mér er fyllilega ljóst að eins og á brestur að þessi samþykkt, sem við höfum gerst aðilar að fyrir lögnu, sé skiljanleg á mæltu íslensku máli enn þá, eins brestur miklu meira á að hún sé komin í framkvæmanlegt form hjá okkur.

Ég er þeirrar skoðunar, að við verðum frekar að hemja liðugan vilja okkar til þess að gerast aðilar að alþjóðlegum samþykktum á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar svo og annarra þeirra stofnana, sem tryggja eiga rétt vinnandi fólks og öryggi þess og kjör og aðbúnað í hvívetna, heldur en gerast aðilar og koma ekki slíku í framkvæmd og láta svo e.t.v. hjá líða í skjóli — í skálkaskjóli eða e.t.v. öllu fremur í blóra við samþykktina að hrinda þeim nauðsynjamálum í framkvæmd.