23.02.1982
Sameinað þing: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2596 í B-deild Alþingistíðinda. (2221)

355. mál, réttarstaða fólks í óvígðri sambúð

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. sjútvrh. tók réttilega fram urðu nokkrar umr. um þessi mál á hv. Alþingi fyrir tveimur vikum. Ég benti þá sérstaklega á að þótt það væri mjög í tísku að ráðast að Siglingamálastofnuninni og þeim, sem þar störfuðu, væri alls ekki alltaf hægt að bera sök á þá ágætu stofnun vegna þess að ítrekað og ár eftir ár reyndi þessi sama stofnun að fá fjármuni til að vinna að þeim málum sem hún á að vinna að og hafði skuldbundið sig að vinna að og óskað var eftir við hana að vinna að af hendi sjómannasamtakanna.

Ég verð að segja að ég fagna því, að þessi yfirlýsing skuli koma fram á Alþingi frá hæstv. sjútvrh., að allt frá 1974 hafi Alþingi Íslendinga ekki treyst sér og treysti sér ekki enn til að útvega fjármuni til að láta þýða alþjóðasamþykkt sem varðar öryggi mannslífa á sjó. Mér finnst svo hlálegt og gráthlægilegt að þetta skuli heyrast hér frá einum ráðh. hæstv. ríkisstj., sem er búinn að sitja í stöðu sjútvrh. þó þetta árabil, að ég næstum á ekki orð til að lýsa vanþóknun minni á slíkri framkomu.

Nú er hv. þm., fyrri fyrirspyrjandi þessarar fsp., sem hér lauk máli sínu, stuðningsmaður tveggja ráðh., annars vegar heilbr.- og trmrh., sem jafnframt fer með félagsmál, og hins vegar hæstv. fjmrh., sem hafa báðir komið þarna mikið við sögu. Ég bið nú hv. þm., sem ég veit að hann mun fúslega gera, að leggja hönd á plóginn að ýta við þessum ráðh. ekki síður en öðrum ráðh. í hæstv. ríkisstj. Ég veit að hann bendir mér að sjálfsögðu á að það séu hæg heimatökin hjá mér, því að ég eigi aðgang að nokkrum þeirra, og skal ég vissulega ýta við þeim hvar sem ég næ til þeirra.

En ég spyr aðeins: Ef hæstv. iðnrh. og orkumálaráðh. hefði þurft að láta þýða einhver rit í sambandi við orku og iðnað af einhverju Norðurlandamálinu eða þótt hann hefði leitað eitthvað víðar, skyldi þá hafa skort fjármuni til þess? Og ég spyr hæstv. félmrh.: Ef Alþýðusamband Íslands og forsetar þess hefðu þurft að fá fjármuni til að láta þýða af einhverju Norðurlandamálinu varðandi vinnutímavernd og vernd á vinnustöðum í landi, skyldu ekki hafa fengist peningar til þess? En á meðan við horfum upp á þessa svívirðu skipar hæstv. ríkisstj. undir forsæti forsrh. embættismannanefnd undir forsæti seðlabankastjórans til að vinna að því og gera það að sínum helstu tillögum að þeir menn, sem hafa árlega hlutfallslega hærri dauðatölu en aðrar stéttir við vinnú sína, verði sviptir þeim skattfríðindum sem þeir hafa barist fyrir á undanförnum áratugum.