23.02.1982
Sameinað þing: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2600 í B-deild Alþingistíðinda. (2229)

186. mál, endurskoðun geðheilbrigðismála

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst víkja að þeirri fsp. eða ábendingu sem fram kom hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. varðandi ósakhæfa afbrotamenn og þeirra málefni.

Það hefur orðið að samkomulagi milli mín og formanns nefndarinnar, Ingvars Kristjánssonar læknis, að málefni þessara manna verði fyrsta verkefni nefndarinnar og fyrsta áfangaskýrsla hennar fjalli um málefni ósakhæfra afbrotamanna. Ég tel að það sé ákveðið forgangsverkefni að fara yfir vandamál þeirra. Hér á landi er um að ræða fjóra menn sem falla eins og sakir standa undir þessa flokkun. Það er mjög alvarlegt hvernig þeim málum hefur verið háttað hjá okkur á undanförnum árum, þar sem við höfum iðulega orðið að senda menn úr landi til vistunar. Það er satt að segja blettur á heilbrigðisþjónustu okkar að mínu mati. Vandinn í þessu máli hefur aðallega stafað af því, því miður, að það hefur verið mikill ágreiningur um þetta mál á milli sérfræðinga, eins og hv. þm. Árni Gunnarsson gat um, og eins á milli heilbrigðisþjónustunnar annars vegar og dómsmálayfirvalda hins vegar. Ég geri ráð fyrir að við séum hins vegar öll sammála um að ágreiningur af þessu tagi milli ákveðinna þátta í stjórnkerfi okkar megi ekki verða til þess að tefja það að lausn finnist á vandamálum þess fólks, sem hér um ræðir, og aðstandenda þess.

Varðandi fsp. hv. þm. Helga Seljans vil ég segja nokkur orð. Hann spurði fyrst um þá neyðarþjónustu sem Geðhjálp hefur beðið um. Það var í september 1980 að ég skrifaði borgarlækni og óskaði eftir tillögum hans um neyðarþjónustu af því tagi sem Geðhjálp hefur óskað eftir, sem yrði komið upp á spítölum og geðdeildum hér á þéttbýlissvæðinu. Niðurstaðan af beiðni minni til borgarlæknis varð sú, að hann skilaði á árinu 1981, eftir mitt ár, — ég man ekki nákvæmlega hvenær, — tillögum í þessu efni sem ég síðan kom á framfæri við viðkomandi aðila og þá sérstaklega forstöðumenn ríkisspítalanna. Þessar tillögur voru góðar svo langt sem þær náðu, en augljóst var að þær mundu kosta veruleg útgjöld, og auk þess var greinilegt að þær voru ekki fullnægjandi eins og þær voru lagðar fyrir. M.a. var ekki gert ráð fyrir neinum sérstökum aðgerðum vegna flutninga á geðsjúkum í slíkum tilvikum.

Það er önnur fsp. hv. þm. Helga Seljans, hvaða tillögur væru uppi um hvernig haga megi flutningum geðsjúklinga á annan hátt en nú er, þ.e. með ákveðnum gæslumönnum í stað lögreglu. Ég hef sett tillögur um þetta í frekari vinnslu í þeirri nefnd sem vinnur að heildarúttekt og tillögugerð í geðheilbrigðismálum. Ég tel að það sé alveg óhjákvæmilegt að við reynum að koma á skipulegri neyðarþjónustu fyrir geðsjúklinga hér á þéttbýlissvæðinu. Það er ekki vansalaust að það skuli gerast, að að jafnaði séu tveir geðsjúklingar í fangageymslum lögreglunnar á hverjum sólarhring eins og nú er og hefur verið um langt skeið.

Í þriðja lagi spurði hv. þm. Helgi Seljan hvort nefndinni hefði verið falið sérstaklega að kanna hvort ákveðin aðstoð fyrir geðsjúka og aðstandendur þeirra heima fyrir gæti komið í stað vistunar og hvort með því mætti ekki létta verulegum útgjöldum af heilbrigðisþjónustunni í landinu. Ég hef rætt um það víð formann nefndarinnar, að þetta verði sérstaklega athugað. Vandinn í þessu er fyrst og fremst að ákveða hver það er sem á að sinna þessari þjónustu, hvort það er sveitarfélagið, þ.e. Reykjavíkurborg, eða hvort það eru geðsjúkrahúsin, og þá í öðru lagi, þegar væri greitt úr þeirri flækju, hver ætti að kosta þá þjónustu. Ég hef beðið formann nefndarinnar um að gera úttekt á þessu atriði líka og skila áfangaáliti um það ásamt öðrum verkefnum sem ég kynnti áðan.

Ég mun að sjálfsögðu gera ráðstafanir til þess að nefndarálitið komi til hv. alþm. hingað inn i þingið. Mér finnst sjálfsagt að þeir fái að fylgjast með þessu máli.

Varðandi aðstandendur geðsjúkra var það hugsunin á bak við skipun eins nefndarmannsins, að hann var fyrrv. formaður Geðhjálpar og hóf störf með nefndinni og starfaði með henni fyrstu mánuðina, en lét hins vegar af því starfi, því miður, þannig að nú er kominn í nefndina í hans stað Eiríkur Örn Arnarson sálfræðingur. Ég hef hins vegar lagt á það áherslu við formann nefndarinnar og nefndarmenn alla, að þeir hafi samráð og samvinnu við Geðvernd og Geðhjálp, og ég veit að nefndin hefur þegar haldið fundi með forustumönnum þeirra.