27.10.1981
Sameinað þing: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

22. mál, fiskiræktar- og veiðmál

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég get út af fyrir sig eins og aðrir ræðumenn fagnað fram kominni till. til þál. Vissulega er allt rétt sem þar greinir. En við skulum samt minnast þess, að árum saman hafa þessi mál verið rædd á Alþingi með svipuðum hætti og nú, og ég held að ég geti fullyrt að aðstaða þeirra, sem hafa verið að fást við fiskrækt, hafi verið skárri fyrir svo sem áratug en hún er í dag. Við skulum ekki deila um það, hvort þessi sérstaka fjárveiting til Hólalax, sem er hið merkasta fyrirtæki, og til nokkurra annarra aðila hafi breytt einhverju þar um. Ég held að það hafi lítil breyting orðið og að aðstaða manna til að stunda þennan atvinnuveg sé nú mun verri en hún var fyrir áratug. Þegar Fiskræktarsjóður var stofnaður var dálítið gagn að honum, hann varð til nokkurrar hjálpar. En síðan hefur sigið á ógæfuhliðina. Það eru því miður staðreyndir málsins.

Það tókst að vísu vorið 1979 að fá samþykkt í Ed. með öllum atkvæðum þar frv. til breytinga á lögum um lax- og silungsveiði, að aukið skyldi fjárframlag til Fiskræktarsjóðs. Það mál dagaði hins vegar uppi í Nd. af einhverjum algjörlega óskiljanlegum ástæðum því að mönnum hafði skilist að samkomulag væri um að það skyldi ná fram að ganga. Og á síðasta þingi var margsinnis reynt að ná samstöðu um að auka eitthvað fjárveitingar til Fiskræktarsjóðs en það var alls staðar fyrirstaða. Það mátti alls ekki orða það, að neinir peningar kæmu í þetta. Hins vegar var sjálfsagt að tala nógu mikið um það. Það er eins og það sé í öfugu hlutfalli: raunhæfar aðgerðir og allt umtalið. En við skulum vona að þessu tímabili sé að ljúka og menn fari að gera sér grein fyrir því, að hér er um stórkostlegt tækifæri að ræða fyrir Íslendinga. Á því leikur ekki nokkur minnsti vafi.

En ástæðan til þess, að ég kveð mér hér hljóðs, er fyrst og fremst ræða hv. þm. Stefáns Valgeirssonar sem sýnilega hefur sett sig meira inn í þessi mál en tíðast er hér á landi. Allt, sem hann sagði um málið, var að mínu mati rétt og hið besta innlegg í umr. Hann spurði sérstaklega að því, hvernig nú mundu ganga tilraunir í lónum í Kelduhverfi, þar sem fyrsta alvarlega tilraunin hér á landi er gerð til að ala lax í sjó, kvíaeldi annars vegar og hafbeit hins vegar. Ég get glatt menn með því, að þær tilraunir ganga framar öllum vonum. Lax, sem þar var settur fyrir 16 mánuðum í kvíar, 50–100 g. smáfiskar, er nú að meðalþyngd eitthvað yfir 2 kg og allar líkur til að sá fiskur geti orðið 6–8 punda fiskur nú upp úr áramótum. En allt skýrist þetta von bráðar. Þarna er ekki um neitt verulegt magn að ræða, þetta er tilraunastarfsemi, en það tókst að fá aðgang að allri tækniþekkingu stærstu fiskeldistöðvar í Noregi við þessar tilraunir og sérfræðingar þeirrar stöðvar hafa verið hér á Íslandi meira og minna frá s. l. áramótum og fram á þennan dag, og svo vill til að rekstrarstjóri þessa fyrirtækis var einmitt að koma til landsins núna við annan mann til að ganga frá útbúnaði í lónunum fyrir veturinn.

En ég held að nauðsynlegt sé að menn geri sér grein fyrir því, að það, sem ýmsir einstaklingar og raunar ríkið líka hafa verið að bjástra við, er rétt aðeins byrjunin. Við erum óraveg á eftir Norðmönnum í þessu efni. Það mundi sjálfsagt taka okkur 10 ár að ná þeim ef við hefðum ekki gert samninga við þá um að fá aðgang að þeirra þekkingu og þeirra þjálfaða starfsliði.

Fiskrækt í ám og vötnum er auðvitað alveg sjálfsögð og margrædd. En það er sjóeldið fyrst og fremst sem mun geta gefið okkur verulegan afrakstur, á því er enginn vafi. Eins og ég sagði áðan vex lax þegar hann kemst í salt vatn, ekki síst þar sem aðstæður eru þannig að jarðvarma er hægt að nota. Sem betur fer er það mjög víða, norðanlands kannske ekki mjög víða, en þó er þetta ljóst í lónunum. Það virðist vera ljóst líka í Ólafsfjarðarvatni. Ýmis tækifæri önnur eru um allt land. Hér sunnanlands, t. d. á Reykjanesi, er sjálfsögðu nánast ótakmarkaður jarðvarmi og hann er hægt að nota til að koma upp sjóeldisstöðvum á landi. Raunar hefur verið gerð mjög ítarleg athugun og verkfræðilegir og viðskiptalegir útreikningar á einni stöð þar sem mundi framleiða 1–2 þús. tonn af laxi og hagnýta um 200 mw. af jarðvarma. Sú stöð mundi skapa útflutningsverðmæti sem svaraði til útflutningsverðmætis af afla 6–8 skuttogara, en kannske ekki kosta í uppsetningu miklu meira en einn eða tveir. Þetta eru kannske draumórar enn þá, en eins og ég sagði fæst úr því skorið á næstu mánuðum eða á næsta ári hvort þessi tækifæri eru fyrir hendi eða ekki. Auðvitað er eðlilegast að einstaklingar reyni þá að sameinast um að koma upp slíkum stöðvum.

Það er að segja um sjóeldi í kvíum, að það er ekki mjög mikið magn sem þarf af smáfiski til þess. Hann margfaldast á örskömmum tíma eins og ég var að skýra frá. Hins vegar er hafbeitin enn þá nærri því ókönnuð þó að virðingarverðar séu þær tilraunir sem gerðar hafa verið í Kollafirði, Lárósi og viðar. En til að ná árangri í hafbeit er talið að þurfi mjög mikið magn af seiðum, það þurfi að sleppa mjög miklu magni og halda mjög miklu magni af fiski einnig í endurheimtustöðinni, því að nú er talið fullvíst að það sé lyktin, sem laxinn leitar á, og það sé einmitt lykt af öðrum fiski, fisklyktin úr ánni, sem gildi, og þess vegna verði að reka hafbeitarstöðvar í nokkuð stórum stíl. En þar með er ekki sagt að þetta geti ekki orðið veigamikil aukabúgrein vegna þess að það þarf að framleiða seiðin. Framleiðsla á 100–200 þús. gönguseiðum gæti verið mjög góð aukabúgrein t. d. fyrir 2—3 bændur sem slægju sig saman. Þannig getur þetta stutt hvað annað.

Það hefur verið skýrt frá því í blöðum, að amerískt fyrirtæki, sem stundar hafbeit, geti hugsað sér að sleppa jafnvel 10 millj. gönguseiðum hér við land ef samningar næðust um það. Það þýðir að við mundum tuttugufalda seiðaframleiðslu eða þar um bil. Afköst íslenskra eldisstöðva þyrftu að 10–20–faldast bara til þess að sjá einni slíkri stöð fyrir sleppiseiðum, hvort sem hún væri reist í samvinnu við erlenda menn eða við Íslendingar gerðum það einir og tækjum alla áhættuna einir. Ein stór hafbeitarstóð mundi þýða það, að hægt væri að byggja — við skulum segja: 30–40–50 litlar stöðvar víðs vegar í sveitum landsins til að framleiða seiði fyrir þessa stöð, þó að vafalaust mundi slík stöð hafa stóra stöð við hliðina og framleiða sjálf einhvern hluta þess magns sem hún þyrfti af seiðum.

Það hafa þótt draumórar þegar menn hafa verið að ræða um þá möguleika sem hér eru. En ef það t. d. reyndist svo um þessa stöð á Reykjanesi, sem þegar hefur verið reiknuð út og skipulögð frá grunni og allar verkfræðiteikningar og allt liggur fyrir, að hún yrði reist og árangurinn yrði sá sem útlit er fyrir, þá er enginn minnsti vandi að hafa slíkar stöðvar á Reykjanesi einu kannske 10 talsins. Og út um allt land eru slík tækifæri.

En það, sem gaf mér tilefni til að koma hér í ræðustól. voru ummæli Stefáns Valgeirssonar og hugleiðingar hans um það, hvernig tilraunastarfsemin þarna norður frá í kjördæmi hans hefði gengið á síðustu mánuðum. Ég get upplýst að hún gengur framar öllum vonum og ef ekki verða stóráföll hygg ég að nú sé verið að brjóta ísinn í þessu efni.