23.02.1982
Neðri deild: 44. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2602 í B-deild Alþingistíðinda. (2232)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það er vonum að forseti lengi eftir þskj. þegar svo hratt skal láta mál ganga á þingi, en nefndarfundum í fjh.- og viðskn. til þess að ljúka við afgreiðslu þessa máls lauk rétt fyrir hádegi í morgun, þannig að ekki hefur gefist ýkja mikill tími til að ganga frá þeim nál. sem þurfti að gera. Engu að síður mun nál. meiri hl. liggja á borðum þm. innan skamms. Nál. minni hl. var þegar fram komið, enda ekki margar linur og þess vegna ekki lengi verið að útbúa það.

Eins og fram kemur hefur fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar ekki orðið sammálá um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl., sem ég mæli hér fyrir, hefur skilað nál. á þskj. 368 sem hefur verið útbýtt ljósrituðu. Það vantar að vísu á það fskj. sem munu koma þegar nál. verður prentað, en hefði nál. átt að prentast og forseti hugsað sér að bíða þess, þá hefði hann orðið að bíða nokkuð lengi í forsetastól.

Meiri hl. fjh.- og viðskn. skipa auk mín þm. Sjálfstfl., þeir hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, hv. 3. þm. Reykv., Albert Guðmundsson, og fulltrúi Alþfl. í nefndinni, hv. 3. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson.

Þegar fjh.- og viðskn. fékk þetta frv. til meðferðar óskuðu nm. að sjálfsögðu eftir því, að hægt yrði að fá til viðræðna þá aðila sem þetta mál sérstaklega varðaði. Formaður fjh.- og viðskn., hv. 3. þm. Austurl., mun gera grein fyrir nál. minni hl., en þar kemur fram hverjir voru boðaðir til nefndarinnar til viðræðna. Að sjálfsögðu hefðu átt þar í hópi að vera fulltrúar Landssambands ísl. iðnaðarmanna, svo mjög sem þeir bera þetta mál fyrir brjósti, en vitandi það, að afgreiðslu þessa máls var að ljúka, og úrkula vonar um það, að þeir yrðu boðaðir til fundar senda þeir í dag í einu dagblaðinu alþm. bréf þar sem þeir koma á framfæri sínum skoðunum. Mér finnst eðlilegt að vekja athygli þm. á þessu erindi þeirra — einfaldlega vegna þess að hvorki kemur það prentað sem fskj. né heldur er þeirra getið í nál. meðal þeirra sem hafi komið á fundi fjh.- og viðskn. til viðræðna.

Hins vegar þótti fjh.- og viðskn.-mönnum ekki óeðlilegt að þetta frv., eins og það er úr garði gert, fengi sérstaka athugun í sambandi við ákvæði 40. gr. stjórnarskrárinnar. Að því var vikið við 1. umr. þessa máls, að það þyrfti að skoða sérstaklega, þegar gagnrýnt var að í frv. er gert ráð fyrir að með reglugerð verði lagðir á skattar og með reglugerð verði skattar teknir af. Það var leitað til lagadeildar Háskólans, en því miður fengust aðilar þaðan ekki til að mæta á fundum nefndarinnar enda þótt formaður fjh.- og viðskn. gerði ítrekaða tilraun til að fá þá til viðræðna. Það var ekki svo að þeir neituðu að koma á fund fjh.- og viðskn., heldur hitt, að þeir aðilar, sem fróðastir væru nú um þessi mál í lagadeild Háskólans af kennurunum sem þar eru, væru með einum eða öðrum hætti forfallaðir, þess vegna væri ekki unnt að koma því við að fulltrúi deildarinnar ræddi við fjh. og viðskn. eða léti uppi þar sitt álit.

Ég vildi að þetta kæmi hér fram, því að þetta er eitt af þeim atriðum sem gagnrýnd voru við 1. umr. þessa máls og er gagnrýnt í því nál. sem ég mæli hér fyrir, ásamt því, hvernig unnið er að þessu máli, hver hraðinn er og annað eftir því.

Hér er um að ræða hluta af þeim ráðstöfunum sem ríkisstj. boðaði með skýrslu sinni á þskj. 290. Við höfum áður fjallað um tollalækkun. Þar hafa verið boðaðar ýmsar aðrar aðgerðir, en ekki hefur verið með nokkru móti hægt að fá fram hvernig að þeim skuli staðið. Í stað þess leggur ríkisstj. fram þetta frv., eins og það er úr garði gert, og getur þess m.a. í grg. að það sé alveg óvíst hvort ýmislegt af því, sem hér er farið fram á að fá heimild fyrir, verði framkvæmt, því að það eigi eftir að athuga hvort þetta sé löglegt, hvort ekki sé verið að brjóta milliríkjasamninga, sbr. það sem segir í grg. varðandi tollafgreiðslugjaldið og samninga við Efnahagsbandalag Evrópu og Fríverslunarbandalag Evrópu.

Þetta eru afar einkennileg vinnubrögð að mínum dómi. Við vöndumst því þó fram á þetta ár að fá að sjá á þriggja mánaða fresti hvað ríkisstj. hygðist gera til að leysa aðsteðjandi vandamál. En það er ekki svo lengur, heldur er verið að koma með frv. í smáskömmtum. Hér er verið að leggja mál þannig fyrir að mánaðarlega má búast við einhverjum hluta af þeim „þorrabakka“ sem nefndur var í sambandi við þessar ráðstafanir. Þegar svo þessi frv. sjá dagsins ljós eru tímasetningar með þeim hætti, að það verður helst að afgreiða málið í þinginu á einum eða tveimur dögum, og menn fá ekki tækifæri til að virða fyrir sér og gera sér grein fyrir því, hvað í raun og veru er hér á ferðinni.

Ríkisstj. sjálf hefur haft þessi mál til meðferðar i margar vikur. Það er búið að vera að bögglast fyrir henni hvernig eigi að koma þessu öllu heim og saman. En alþm. eiga ekki að fá ráðrúm til að skoða þetta meira en svo að 2–3 dagar eru til stefnu. Það eru dagsetningar sem eru sérstaklega nefndar í þessum efnum.

Við horfum upp á það, að hér er um að ræða frv. sem flutt er ekki mörgum vikum eftir að tollalækkun hefur verið samþykkt á Alþingi. Það var ein af ráðstöfunum, sem ríkisstj. ætlaði að gera, að lækka tolla. Það var gert til þess að lækka vísitöluna. Framfærsluvísitalan lækkaði um 0.2–0.3%. Tekjutap ríkissjóðs var 22 millj. kr., að sagt var. En síðan kemur frv. sem eyðir öllum þessum áhrifum og aflar ríkissjóði ekki aðeins 22 millj. kr., heldur 54 millj., eins og sagt er í grg. Þetta eru þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð. Síðan eru í frv. lagðar til nýjar skattaálögur og ætlast til að þær verði afgreiddar með þeim hætti, að þær byggist á reglugerð sem fjmrh. muni gefa út. Allsendis er óvíst hvernig túlka beri ákveðnar greinar. Þær eru ekki samræmi við það sem skýrsla ríkisstj. segir til um. Meira að segja er það svo, að einn af hv. þm. ríkisstj., einn sá sem mest hefur haft með þetta að gera í hópi þeirra, sagður vera í efnahagsnefnd ríkisstj., er ekki fyrr búinn að sjá frv. hér í þingi en hann flytur tillögur til lagfæringar og leiðréttingar á því.

Þessi ákvæði, sem fjalla um tollafgreiðslugjald og um lækkun á söluskatti og ætlað er síðan að afgreiða með reglugerð, eru að dómi margra brot á stjórnarskránni. Það liggur ljóst fyrir, að hér er alls ekki um að ræða lagasetningu sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir. Þar er skýrt tekið fram í 40. gr., eins og ég nefndi áðan, að skattamálum skuli skipað með lögum og ekki megi leggja á skatt nema með lögum.

Þá er ljóst að þau vinnubrögð eru hér viðhöfð, að breyting á launaskattslögunum, hverri og einni einustu grein, er lögð til í frv. sem hér í sölum Alþingis gengur undir nafninu „bandormur“, í stað þess að ríkisstj. hefði flutt heillegt frv. um launaskattslög með þeim breytingum, sem hún leggur til í þeim efnum varðandi launaskattsupphæðina, svo og þeim breytingum, sem eru í mörgum þessara greina, að breyttum öðrum lögum síðan þessi lög voru sett 1965.

Í þessu frv. er fjallað um nýjan skatt, nýjan toll, tollafgreiðslugjald. Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að taka upp hér á landi fyrirkomulag, sem víða erlendis tíðkast og sér í lagi í okkar nágrannalöndum, þ.e. að veita greiðslufrest á aðflutningsgjöldum. Hefur það verið nefnt tollkrít. Hér er um að ræða mikið hagsmunamál. Á það hefur verið bent, að ef þetta fyrirkomulag gæti náð fram að ganga mundi það leiða til sparnaðar, til hagræðingar, til lægra vöruverðs, öllum neytendum, innflutningsaðilum svo og hinu opinbera til hagsbóta. Hafa verið flutt frumvörp í framhaldi af skýrslu sem gerð var 1978 um þetta mál fyrir fjmrn. Það kom fram í skýrslu ríkisstj. á þskj. 290, að stefnt væri að því af hennar hálfu að koma þessu fyrirkomulagi á. En þá gerist það, að í stað þess að þetta nýja fyrirkomulag yrði til þess að lækka vöruverð er það notað til þess að leggja á nýjan skatt. Það er gert að nýjum gjaldstofni til álagningar, ekki bara til þess að fá uppi borinn þann kostnað, sem leiðir af breytingunni sem hér um ræðir, heldur beinlínis nýr tekjutollur til þess eins að geta haldið áfram þeim vísitöluleik sem ríkisstj. hefur iðkað og sýnist ætla að halda áfram að iðka. Hér er dæminu gersamlega snúið við. Í staðinn fyrir að koma þessu máli heilu í höfn og fá fram töluvert mikil áhrif í vöruverðslækkun og þá að sjálfsögðu dregið úr verðbólgunni, þá er dæminu snúið við, eins og ég sagði áðan, og þetta gert að tekjustofni fyrir ríkissjóð.

Það er skoðun mín að vinnubrögð eins og felast í frv., 1. gr. og 2. gr., að það skuli eiga að leggja á skatta með reglugerð, séu Alþingi ósamboðin. Alþingi verður að spyrna við fótum í sambandi við slíka lagasetningu og gera ríkisstj. grein fyrir því, að slíkt sé Alþingi ekki tilbúið að samþykkja. Það geta hv. þm. auðveldlega gert með því að greiða atkv. gegn 1. og 2. gr. frv. En af því að hér er um bandorm að ræða geta önnur ákvæði frv. náð fram að ganga og orðið að lögum. Hér er ekki um að ræða heilsteyptan lagabálk, en það væri e.t.v. hægt að gera þetta að lagabálki um launaskatt einmitt með því að greiða þannig atkv., hafa slíka afgreiðslu m.a. á 1. og 2. gr. frv.

Þessu til viðbótar sést hvernig undirbúningi þessa máls er háttað þegar það þarf að fylgja með í grg. að alveg sé óvíst hvort ráðh. noti þá heimild sem hann óskar eftir að fá, einfaldlega vegna þess að það eigi eftir að athuga samningana við Fríverslunarbandalag Evrópu og Efnahagsbandalag Evrópu. Áður en ráðh. æskir að fá heimild til að gera slíkt hefði mér fundist að það hefði átt að grandskoða hvort þetta samrýmdist þeim samningum sem við þar höfum gert. Mér sýnist ekki heldur að Alþingi eigi að þola að hér sé verið að leggja til nýjan toll öðruvísi en að gerð sé grein fyrir því, hvort það samrýmist þeim samningum sem við höfum gert í sambandi við tollamál. Það er skýrt tekið fram í þeim tollasamningum sem við erum aðilar að, að slíkir tollar sem hér er verið að leggja til að lagðir verði á með reglugerð samrýmist ekki þeim samningum. En það er eins og annað í sambandi við þessi vinnubrögð. Þetta eru vinnubrögð sem þm. eiga ekki að þola.

II. kafli frv. fjallar um launaskatt, breytingu á launaskattinum. Þar er fyrst og fremst um að ræða 3. gr. frv., sem er 1. gr. laganna, og svo 5. gr., þar sem fram kemur hvernig farið skuli með vanskil á launaskatti. Í skýrslu ríkisstj. er boðað að launaskattur á iðnaði og fiskvinnslu skuli lækkaður úr 3.5% í 2.5%. Það er gert ráð fyrir því þegar í skýrslu ríkisstj., að það verði mismunandi launaskattur í landinu. Þegar svo hins vegar frv. er lagt fram, þá er ekki aðeins gert ráð fyrir að það skuli vera mismunandi hár launaskattur á milli greina, heldur skuli líka innan atvinnugreinanna vera mismunandi hár launaskattur, eins og sést á því, að í sambandi við iðnað eru dregnar ákveðnar línur. Það var einmitt í þessu tilfelli sem hv. 12. þm. Reykv., Guðmundur G. Þórarinsson, lagði fram brtt. og vildi taka af öll tvímæli.

Minni hl. fjh.- og viðskn. flytur brtt. í sambandi við þessi atriði þar sem hann gerir tillögu um breytingu á 3. gr. frv. eins og hún er, en nær ekki því sem fram kemur í brtt. hv. 12. þm. Reykv. Þegar spurst var fyrir um það í fjh.- og viðskn., hvort samkomulag gæti ekki náðst a.m.k. til vara af hálfu okkar sjálfstæðismanna um að standa að till. hv. 12. þm. Reykv., þá var okkur tjáð að svo gæti ekki orðið. Við höfum að vísu tekið skýrt fram að við teldum eðlilegast að lækka launaskattinn alfarið úr 3.5% niður í 2.5%. Ef það fengist ekki samþykkt vorum við reiðubúnir til að standa að till. hv. 12. þm. Reykv. Við spurðumst fyrir um það í fjh.- og viðskn., hvort ekki gæti orðið um það samkomulag, en samflokksmenn hans og þm. ríkisstjórnarflokkanna í fjh.- og viðskn. tjáðu sig ekki geta verið sammála því. Árangurinn birtist í brtt. sem minni hl. flytur á þskj. 365 og frsm. minni hl. mun að sjálfsögðu gera grein fyrir. En í fljótu bragði sýnist mér að málin hafi verið leyst þannig, að þar hafi að nokkru verið komið til móts við till. hv. þm., en þó ekki nærri því öll, en um leið hafi verið séð fyrir því, að ríkissjóður tapaði engu í þessum efnum — og gott betur. Ég get ekki betur séð en sú brtt., sem fram kemur á þskj. 365 varðandi gjalddaga launaskatts, tryggi ríkissjóði 20 millj. kr. í viðbót við áætlaðar tekjur af launaskatti á þessu ári, — ef við áætlum það, sem kemur til viðbótar í tekjutapi vegna málamiðlunartillögu minni hl., 10 millj., þá hafi ríkissjóður í sinn hlut upp úr krafsinu 20 millj. kr.

Það er skoðun okkar, sem að meirihlutaálitinu stöndum, að skynsamlegast sé að lækka launaskattinn úr 3.5% niður í 2.5%. Það er öllum ljóst, að mismunandi hár launaskattur er mjög varhugaverð skattastefna sem tvímælalaust verður mjög erfið í framkvæmd. Ég get enn endurtekið það sem ég hef sagt um vinnuaðferðirnar, að að sjálfsögðu hefði ríkisstj. átt að flytja frv. um launaskatt, en ekki koma með allar þessar breytingar inn í bandorm þann sem við fjöllum hér um.

Í 5. gr. er lagt til að auka mjög á viðurlög við vanskilum, auka svo á viðurlög við vanskilum að ég veit ekki til að þau séu annars staðar svo ströng sem hér er áformað. En mér er sagt að greiðslur á um það bil fjórðungi launaskatts dragist nokkuð, þannig að ef menn gera ráð fyrir að framhald verði á því, þá liggur alveg ljóst fyrir að hér hefur átt að bæta ríkissjóði upp það tekjutap, sem launaskattslækkunin annars gerir ráð fyrir, með því að auka á viðurlögin og ná miklu hærri upphæð í dráttarvöxtum.

Það er sjálfsagt að þeir, sem gera ekki skil á sínum sköttum, greiði dráttarvexti. En ég sé ekki ástæðu til að ríkissjóður noti þá erfiðleika, sem atvinnuvegirnir eiga í í dag og e.t.v. eru þess valdandi, að þeir geta ekki staðið skil á launaskatti á réttum tíma, og ríkissjóður hafi þá að tekjulind, allra síst þegar menn gera sér grein fyrir því, hvernig að atvinnuvegunum hefur verið búið að undanförnu, m.a. vegna úrræðaleysis núv. hæstv. ríkisstj.

III. kafli frv. fjallar um stimpilgjöld. Það má segja að það sýnist vera það eina í frv. sem ekki þurfi beinlínis að vera hér með gagnrýni á. Sjálfsagt er að standa að þeirri breytingu sem þar er.

Hins vegar kemur IV. kaflinn okkur ekki ókunnuglega fyrir. Þar er um að ræða framlengingu á sérstöku tímabundnu innflutningsgjaldi á sælgæti og kex. Þegar frv. var flutt um þetta gjald á sínum tíma lýstum við andstöðu við það, einfaldlega vegna þess að gjaldinu var ekki ætlað að renna til iðnaðarins til að bæta stöðu hans, heldur var það ríkissjóður sem átti að hafa af þessu tekjur. Það hefur reynst svo, að ekkert af þessu gjaldi hefur runnið til iðnaðarins. Það er ríkissjóður sem hefur alfarið fengið það, og er fyrirhugað að svo verði áfram. Meira að segja lét hæstv. fjmrh. þess getið við 1. umr. málsins, að það væri vafasamt að gjaldið gæti fallið niður þegar árið væri liðið, sennilega yrði ekki staðan þannig hjá iðnaðinum að það yrði hægt að leyfa innflutning á þessum vörum án þess að taka sérstakt innflutningsgjald. Þetta voru auðvitað hans hugrenningar um hvernig málum væri komið. Hefur hann þá sjálfsagt hugsað til þess, hvernig að þessum málum hefur verið staðið í tíð núv. ríkisstj. Þegar þetta innflutningsgjald var lagt á var talið að það væri til þess að stöðva innflutning og auðvelda með því móti að einhverju leyti rekstur innlendra iðnfyrirtækja. En fjármagnið hefur alls ekki verið látið renna til iðnaðarins.

Ég hef vikið að meginatriðum þess frv. sem við nú fjöllum um. Á máli mínu hefur mátt heyra hver afstaða meiri hl. er. En ég held að það sé rétt að ég geri grein fyrir því í lokin.

Við erum andvígir 1. og 2. gr. frv. og teljum að þær greinar eigi ekki að ná fram að ganga. Eðlilegt er að Alþingi verði gerð grein fyrir hver sé kostnaðurinn af því að veita aðflutningsgjaldafrest, og ef sá kostnaður er einhver sem um munar, þá standi menn að því með einhverjum hætti að bæta ríkissjóði það, ef hann hefur ekki þá þegar verið búinn að ná því einhvers staðar annars staðar.

Í sambandi við launaskattinn flytjum við í meiri hl. brtt. á þskj. 369 þar sem gert er ráð fyrir að launaskatturinn verði 2.5% og ekki hærri. Þar sem við gerum okkur grein fyrir því, að vegna þeirrar tillögu, sem minni hl. n. hefur flutt, megi búast við að dregin verði til baka till. hv. 12. þm. Reykv., munum við, ef þessi till. verður ekki samþykki, taka upp till. hv. 12. þm. Reykv. sem okkar varatillögu ef til þess kemur. En við skulum vona að menn átti sig á því, að mismunandi hár launaskattur er ekki það sem við teljum skynsamlegt að hafa, og þess vegna muni þm. samþykkja þá till. sem við flytjum á þskj. 369.

Ef 1. og 2. gr. frv. verða samþykktar munum við í meiri hl. styðja brtt. sem minni hl. flytur bæði við 2. gr. og eins við bráðabirgðaákvæðið. Í sambandi við launaskattinn munum við styðja þann hluta af brtt. minni hl. sem fjallar um viðurlögin, þannig að niður falli 25% álagið ef launaskattur er ekki greiddur. En við sjáum ekki neina ástæðu til þess að vera að hringla með gjalddaga launaskatts í sambandi við þetta, einfaldlega til þess að ná inn á árinu 1982 13 mánaða launaskatti. Það kemur að sjálfsögðu niður síðar þegar þessu yrði breytt. Það er auðvitað alltaf íhugunarvert með hvaða hætti slíkar greiðslur eigi að fara fram, hversu oft og hvernig. En að gera breytingar aðeins til að leysa vandamál í sambandi við tillöguflutning eins af hv. stuðningsmönnum ríkisstj. — og einmitt þess sem situr í efnahagsnefnd ríkisstj. — ég get ekki fallist á að breyta eigi löggjöf landsins samkv. því. Það held ég að sé ekki ráðlegt að taka upp. Það gætu þá sjálfsagt ýmsir aðrir úr hópnum farið að flytja slíkar brtt. og sá vandi yrði þá leystur með því sem hér er gert og notaðar hinar sömu aðferðir.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir sjónarmiðum meiri hl. fjh.- og viðskn., því nál., sem lagt hefur verið hér fram, og þeirri brtt., sem við leggjum fram og ég hef hér mæli fyrir.