23.02.1982
Neðri deild: 44. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2607 í B-deild Alþingistíðinda. (2233)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Frsm. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um breyttar tekjur til ríkissjóðs vegna ráðstafana í efnahagsmálum. Ég mun hér aðeins gera grein fyrir starfi nefndarinnar og þeim brtt. sem fram eru bornar af minni hl. n., en þar sem málið að öðru leyti hefur fengið margháttaða umfjöllun hér á Alþingi sé ég ekki ástæðu til að bæta þar neinu við.

Nefndin fjallaði um frv. þetta á mörgum fundum. Þeir voru ýmist sameiginlegir með fjh.- og viðskn. Ed. eða nefndarfundir í fjh.- og viðskn. Nd. Til fundar við nefndina komu fulltrúar þeirra aðila sem hafði verið óskað eftir að kæmu til viðtals frá fjmrn., Verslunarráði Íslands, Sambandi ísl. samvinnufélaga, Félagi ísl. iðnrekenda, Tollvörugeymslunni hf. Einnig kom hagstofustjóri á fund nefndarinnar í morgun.

Þessi umfjöllun hefur leitt til þeirrar niðurstöðu, að minni hl. n., hv. þm. 1ngólfur Guðnason, Guðrún Hallgrímsdóttir og Halldór Ásgrímsson, leggur til að sjö breytingar verði gerðar á frv.

1. brtt. varðar 2. gr. Þar er fyrst og fremst um að ræða að komið verði í veg fyrir að greiða þurfi tollafgreiðslugjald af vörusendingum í heild við það að aðeins hluti af vörusendingu sé leystur út úr tollvörugeymslu. Þarfnast það ekki frekari skýringar.

2. brtt. varðar 3. gr. frv., en hún orðast þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Leggja skal á launagreiðendur almennan launaskatt að fjárhæð 3.5% af greiddum vinnulaunum og hvers konar atvinnutekjum svo sem ákveðið er í lögum þessum.“ Síðan segir: „Þó er heimilt að ákveða að greiða skuli 2.5% launaskatt af greiddum vinnulaunum og hvers konar atvinnutekjum hjá fyrirtækjum í fiskverkun og í iðnaði (útflutnings- og samkeppnisiðnaði) samkv. nánari ákvörðun í reglugerð.“

Þetta hefur okkur þótt nauðsynlegt að skýra frekar og kveða fastar að orði varðandi þessi atriði. Við leggjum til að greinin orðist þannig:

„Þó er heimilt að ákveða að greiða skuli 2.5% launaskatt af greiddum vinnulaunum og hvers konar atvinnutekjum hjá fyrirtækjum sem flokkast undir fiskverkun og iðnað samkv. atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands.“

Með þessu er ákveðið að það skuli eigi heimilt að greiða hærri launaskatt en 2.5% af slíkum launatekjum og það skuli varða öll laun í fiskverkun og öll laun í iðnaði, öllum iðnaði samkv. atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands. Þessi atvinnuvegaflokkun er frá því í febr. 1970. Það kemur fram í upphafi hennar, að hún er byggð á hinum alþjóðlegu ISIC-reglum, International Standard for Industrial Classification, eins og þar kemur fram, en þessar reglur eru gefnar út af Efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna. Síðasta útgáfan, sem leggur fyrir, er frá 1964 og var hún gefin út hér 1970.

Varðandi þetta mál er sem sagt vitnað til þessarar atvinnuvegaflokkunar Hagstofunnar. Hún hefur verið notuð hér um langan tíma og ætti ekki að fara á milli mála við hvað er átt í þessu sambandi. Er það lagt til grundvallar skilgreiningu á því, hvað sé iðnaður í skilningi þessa frv.

Varðandi 3. brtt. er það eitt að segja, að gert var ráð fyrir því í frv., að dráttarvextir yrðu greiddir af launaskatti, en viðurlög skyldu einnig greidd. Tel ég að það hafi orðið vegna einhverra mistaka, vegna þess að það er alveg Ljóst að hér var um að ræða mestu viðurlög sem um getur við drætti á skatti hér á landi. Þegar 25% álagið var tekið upp á sínum tíma, ég man ekki nákvæmlega hvaða ár það var, gæti verið 1964 eða 1965, þá var þetta álag mjög mikið. Þá var verðbólga langt innan við það sem hún er nú og þessi viðurlög áttu að koma í stað dráttarvaxta. Á þeim tíma þóttu þessi viðurlög svo há að menn reyndu allt sem þeir gátu til að greiða þennan launaskatt á gjalddaga. Með breyttri verðþróun hafa aðstæður breyst og er hér um að ræða í reynd einhverja lægstu vexti sem menn geta greitt fyrir að skulda bæði opinberum aðilum og öðrum aðilum, og hafa menn notfært sér það í nokkrum mæli. Þess vegna hlýtur að vera eðlilegt að færa þetta til jafns við annað í þjóðfélaginu. Hér er um að ræða 15–20 ára gamla reglu sem nauðsynlegt var að breyta. Leggur minni hl. n. til að hér verði aðeins viðhafðir dráttarvextir með sama hætti og dráttarvextir eru greiddir af tekjuskatti og af slysa-, líf- og atvinnuleysistryggingagjöldum, eignarskatti, aðstöðugjaldi og öðrum þeim sköttum sem lagðir eru á ákveðinn stofn. Öðru máli gegnir um söluskatt. Þar er um að ræða allmikil viðurlög, enda er sá skattur allt annars eðlis. Þar er verið að skila því fjármagni sem neytandi hefur greitt til kaupmanns eða annars aðila sem ber að skila því fé til ríkisins, og er því ekki um sambærilegan skatt að ræða að því er varðar viðurlög. Um þetta er samstaða í nefndinni, menn telja að það sé eðlilegt, og hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar tekið undir þetta atriði.

Þá er lagt til að gjalddagar verði fimm, þeir eru fjórir í dag, og eindagi einum mánuði síðar. Þetta mun hafa þau áhrif að heldur meiri hraði verður á innheimtu þessa skatts. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það atriði, enda skýrir það sig sjálft.

Þá er gert ráð fyrir að þeim gjaldendum, sem greiða eigi hærri laun á mánuði en 15 þús. kr., sé heimilt að skila greinargerð á uppgjörstímabili þegar samanlögð greidd vinnulaun ná 150 þús. kr. Okkur þótti nauðsynlegt að hafa ákvæði er heimilaði að breyta þessum fjárhæðum með framfærsluvísitölu, en í því sambandi má geta þess, að það ákvæði, sem er í núgildandi lögum, er 5000 kr. í árslaun, sem var nokkur fjárhæð á sínum tíma. En menn þurfa að hafa með höndum afskaplega lítilfjörlega atvinnustarfsemi til þess að fara yfir þessi takmörk og þess vegna er betra að hafa heimildir til að hækka þessi mörk með vísitölu.

Aðrar brtt. leiðir af þeim brtt. sem ég hef áður gert hér að umtalsefni. Hef ég þá gert grein fyrir þeim breytingum sem minni hl. n. hefur lagt hér fram. Við leggjum eindregið til að frv. verði síðan samþykkt með þeim breytingum.