27.10.1981
Sameinað þing: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

35. mál, afstaða símnotenda til mismunandi valkosta við jöfnun símkostnaðar

Páll Pétursson:

Herra forseti. Þetta þykir mér vera slæm till. og ég er ósamþykkur henni. Ég varð reyndar raunamæddur þegar ég fór að lesa hana vegna þess að mér finnst hún lýsa ótrúlegri þröngsýni. Þess vegna er þetta raunalegt og því raunalegra sem þetta er ekkert einkamál hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur.

Ef athugaður er listi flm. kemur í ljós að þetta er ekkert smálið. Það er virðulegur hópur sem þarna er. Þarna er formaður Sjálfstfl. og mörg formannsefni í Sjálfstfl. og varaformannsefni, sumir komnir í framboð nú þegar og aðrir rétt ókomnir. Báðir armar Alþfl. eiga þarna fulltrúa. Bæði formaður flokksins, fyrrv. formaður og fyrrv. varaformannskandídat eru þarna á sama þskj. Þetta hlýtur því að skoðast vilji fjöldahreyfingar innan Alþfl. Þeir vilja bregða fæti fyrir framkvæmd þess réttlætismáls sem skrefatalningin er. Skrefatalningin jafnar, þó í litlu sé, lífsaðstöðu þegnanna í landinu.

Þetta er byggt á þáltill. sem samþ. var 1974. Það er langur meðgöngutími við að hrinda máli í framkvæmd og það er búið að hugsa töluvert á þeim tíma, spái ég. Samkv. því, sem prentað er hér í grg., hljóðar till., sem samþ. var 28. mars 1974, svo, með leyfi forseta, eða hefst svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að haga endurskoðun gjaldskrár Landssímans þannig, að sem fyrst verði náð sem mestum jöfnuði með landsmönnum í kostnaði við notkun símans og dreifbýli og höfuðborgarsvæði beri hlutfallslega sömu byrði hinna sameiginlegu heildarsímaútgjalda.“

Þetta finnst mér vera verðugt markmið og eðlilegt að stefna að. Nú eru menn komnir að þeirri niðurstöðu, að þetta verði helst gert með skrefatalningu. Ég hef ekki fengið sannfæringu fyrir því að önnur aðferð sé skárri.

Rökin fyrir skrefatalningunni eru líka prentuð í hinni ítarlegu grg. sem fylgir þessari till. Póst- og símamálastofnun og þeir, sem standa að framgangi þessa máls, telja að það sé réttlátt að greiða fyrir notkun samkv. notkunartíma. Í öðru lagi telja þeir að skrefatalningin leiði til meiri jafnaðar gjalda á milli höfuðborgarsvæðisins og dreifbýlisins en samkv. núgildandi kerfi. Ég ítreka að þetta leiðir ekki til fulls jafnaðar, en til meiri jafnaðar en næst samkv. núgildandi kerfi. Skrefatalningin leiðir til réttlátari gjaldtöku fyrir tal og flutning á myndum, gögnum fyrir tölvur og þess háttar (telex viewdata o. fl.). Í fjórða lagi bætir skrefatalningin nýtingu símakerfisins með því að stytta og fækka einkasímtölum virka daga og fjölga og lengja þau á kvöldin eftir kl. 19 og um helgar. Á þennan hátt dreifist álag símstöðvanna á lengri tíma.

Allt þykir mér þetta harla gott og viðkunnanlegt að vinna að.

Hér segir, í rökstuðningi andmælanda þessarar skrefatalningar, að skrefatalningin svipti Íslendinga því frelsi, sem þeir hafa nú til að tala óhindrað við fólk í nágrenni sínu í samræmi við hinar margvíslegu þarfir sem það er best dómbært um sjálft, og skerði málfrelsi allra á óeðlilegan hátt þar eð ná má sömu jöfnun símkostnaðar með hefðbundnum gjaldskrárbreytingaleiðum. — Svo mörg eru nú þau orð.

Hluti Íslendinga, það virðist nefnilega hafa gleymst flm. þessar till. og það er það sem ég er raunamæddur yfir, nýtur bara ekki þess réttar að geta talað óhindrað við fólk í nágrenni sínu í samræmi við hinar margvíslegu þarfir. Að vísu er ekki tekinn rétturinn af neinum, sem nú þegar hefur hann, til að tala við fólk í nágrenni sínu, og það skerðir ekki málfrelsi. Það er að vísu lagður svolítill skattur á símtöl. Að mínum dómi koma menn töluverðu frá sér á 6 mínútum, t. d. ef menn eru jafnskörulegir í framsetningu og hv. frsm. Hún flutti hér langt mál á 6 mínútum og innihaldsríkt. Þess vegna held ég að hægt sé að leysa venjuleg erindi á þeim tíma. En það er hópur fólks í landinu sem getur, jafnvel þótt það hafi sjálfvirkan síma, ekki náð til nema sárafárra númera öðruvísi en komast inn á talningu. Þeir, sem eru hér á þessu 91-svæði, hafa því yfirburðaaðstöðu og rétt sem er langt fram yfir það sem aðrir landsmenn hafa til að nota þetta samgöngutæki sem er í eigu ríkisins.

Allir borgarar þessa lands hafa ekki einu sinni tækifæri til að tala í sjálfvirkan síma. Það var verið að fá mér í hendur í dag skýrslu um ástand og áætlanir um lagningu sjálfvirks síma í Norðurlandskjördæmi vestra og víðar á landinu. Ég er með fyrir framan mig blað um hvernig þau mál standa í mínu kjördæmi. Þar er um það bil helmingur af sveitahreppunum tengdur sjálfvirka kerfinu. Hinir eru ekki tengdir sjálfvirka kerfinu og eru með handvirka afgreiðslu sem vitaskuld er miklu dýrari og algerlega ófullnægjandi. Í einhverju blaði sá ég einmitt í dag grein eftir mann fyrir norðan þar sem hann var að kalla símaástandið sem hann býr við Watergate-kerfi. Það er hlustað á allt sem hann segir. Út af fyrir sig er það kannske ekki það versta. Öryggisleysið um að ná sambandi og stuttur afgreiðslutími eru mjög til baga þó að jafnvel mikið hafi verið á allra síðustu árum unnið að úrbótum með afgreiðslutímann.

Ég vil ekki stuðla að því, að þetta misrétti viðgangist áfram í þjóðfélaginu. Ég vil vinna að því samkv. lögum, sem hér voru samþykkt í fyrravor, að öll heimili landsins eigi kost á að tengjast sjálfvirka símakerfinu og sama gjald eða sem næst sama gjald verði fyrir sömu þjónustu hvar sem er á landinu.

Ég er t. d. alveg hissa á hugmyndinni um spurningarform og könnunareyðublöð. Hér segir um þessa hugmynd flm.: „Spurningarform og upplýsingar á könnunareyðublaðinu verði unnin í samráði við Neytendasamtökin og send út með símreikningum.“ (Gripið fram í: Það má gefa skýringar.) Ja, það þarf langt skýringablað með þessu, hv. varaformaður. Þetta verða skrýtnar spurningar. Og hvernig haldið þið að svörin verði? Ég gæti ímyndað mér að hópur af símnotendum svaraði því til, að hann vildi frían síma. Ef svona væri sent út með skattseðlinum, spurt um hvort menn vildu sama tekjuskatt árið eftir eða lægri eða kannske hærri, þá væru menn yfirleitt á því, spái ég, að þeir vildu lágan skatt eða engan.

Það er sem sagt fleira nýstárlegt við þetta en að svo margir foringjar í stjórnarandstöðunni og verðandi foringjar standa að þessu máli. Eitt er nú t. d. málfarið á grg. Mig rak í rogastans þegar ég skoðaði grg., því að mér sýnist að 1. flm. hafi alveg breytt um stíl, bæði hvað varðar málfar og framsetningu. Það fór fyrir mér eins og Ísak gamla í Biblíunni þegar honum datt í hug að þó að hendurnar væru Esaús væri röddin Jakobs.