24.02.1982
Neðri deild: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2636 í B-deild Alþingistíðinda. (2264)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég lagði einnig fram í gær fsp. til hæstv. fjmrh. sem ég fékk ekki svar við, en ég spurði hann utan fundar hvort von væri til að fsp. fengist svarað. Hann kvað nei við. Þarf ég því ekki að bíða eftir honum og á því ekki annan kost en reyna að koma fram, þó að seint sé, breytingum á umræddu frv. til að koma í veg fyrir framkvæmd á tollafgreiðslugjaldinu sem ég tel mjög varhugaverða.

Ég spurði hæstv. fjmrh. að því, hvort hann gæti frætt Alþingi um hvernig hann hygðist beita reglugerðarvaldi sínu gagnvart vörum sem aðflutningsgjöld hafa verið felld niður af samkv. ákvörðunum Alþingis. Alþingi ákveður bæði við afgreiðslu fjárlaga og eins í almennum heimildum í tollskránni, að af tilteknum tækjabúnaði og þá fyrst og fremst alls konar hjálpartækjum og tækjum til sjúkra skuli ráðh. fella niður aðflutningsgjöld. Það er mjög óeðlilegt, að eftir að slík fyrirmæli hafa verið gefin af Alþingi skuli Alþingi veita hæstv. fjmrh. heimild til að ákveða með reglugerð að leggja allt að 1% tollafgreiðslugjald á slíkan varning. Hér er ekki um að ræða vörur sem eru mjög þungar á metaskálunum fyrir tekjur ríkissjóðs. Þetta skiptir því ríkissjóð ekki neinu verulegu máli. En þetta getur skipt þá, sem eiga þarna hagsmuna að gæta, verulegu máli.

Til þess að rifja upp fyrir alþm., hvaða vörutegundir það eru sem Alþingi hefur lagt fyrir fjmrh. að fella niður aðflutningsgjöld af, ætla ég aðeins að vitna í 6. gr. gildandi fjárlaga. Þar er fjmrh. m.a. falið að endurgreiða aðflutningsgjöld af búnaði til mengunarvarna til Siglingamálastofnunar ríkisins, til þess að hreinsa upp olíu sem kynni að hafa farið í sjóinn og stafaði mjög veruleg mengunarhætta af. Einnig er ráðh. heimilt að endurgreiða eða fella niður aðflutningsgjöld og sölugjöld af eldsneytisstöðvum Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða. Honum er heimilt að endurgreiða aðflutningsgjöld af búnaði og tækjum í bifreiðar sem þegar eftir tollafgreiðslu verður breytt í sjúkrabifreiðar. Honum er heimilt að fella niður aðflutningsgjöld af fjarskiptatækjum vegna leitar- og björgunarsveita. Honum er einnig heimilt að endurgreiða aðflutningsgjöld vegna sérhannaðs tækjabúnaðar sem ætlaður er til að nota við björgunarstörf mannslífa á svæðum þar sem alger skortur er á hafnaraðstöðu. Honum er heimilt að fella niður aðflutningsgjöld af snjótroðurum til þriggja tiltekinna kaupstaða. Honum er heimilt að endurgreiða aðflutningsgjöld af vatnshreinsitækjum fyrir Akraneskaupstað. Og honum er heimilt að fella niður aðflutningsgjöld eða sölugjald af bifreið sem Styrktarfélag vangefinna á Austurlandi hefur fengið að gjöf.

Hér er ekki um að ræða mjög mikil atriði í tekjuöflun ríkissjóðs, en það er ákaflega óeðlilegt að Alþingi skuli engin svör fá frá ráðh. um hvort hann hugsi sér að beita reglugerðarvaldi sínu til þess að innheimta allt að 1% tollafgreiðslugjald af slíkum varningi, hvort hæstv. ráðh. hugsi sér að krefja t.d. annaðhvort gefendur eða Styrktarfélag vangefinna á Austurlandi um tollafgreiðslugjald af bifreið sem félagið er að fá að gjöf frá ótilteknum aðilum.

Þá kemur einnig í ljós, ef tollskráin er skoðuð, að hæstv. ráðh. er heimilt að fella niður aðflutningsgjöld af vöru sem hefur eyðilagst eða rýrnað eða orðið fyrir skemmdum á leiðinni hingað til lands. Það er mjög óeðlilegt að engin svör fáist við því hjá hæstv. ráðh., hvort hann ætli að nota reglugerðarvald sitt til að krefjast þess að fá greitt tollafgreiðslugjald af slíkri vöru sem aldrei kemur til sölumeðferðar vegna þess að hún hefur eyðilagst á leið til lands.

Einnig er mjög óeðlilegt að fá engin slík svör frá hæstv. ráðh. varðandi gjafir sem sendar kunna að vera til góðgerðarstofnana hér á landi frá útlöndum og honum er skylt að fella niður aðflutningsgjöld af, en eins og frá frv. er gengið gæti hann lagt á þær 1% tollafgreiðslugjald. Sama máli gegnir um kirkjumuni sem fluttir eru til landsins, gjafir til Norræna hússins og fræðandi skuggamyndir sem yfirvöld fræðslumála flytja til landsins, enn fremur aðflutningsgjöld af allt að 350 bifreiðum árlega fyrir bæklað fólk og lamað. Finnst mönnum ekki óeðlilegt að Alþingi veiti hæstv. fjmrh. heimild til að leggja 1% tollafgreiðslugjald á bifreiðar, 350 talsins, handa bækluðu fólki og lömuðu, sem Alþingi hefur mælt svo fyrir að fella eigi tolla niður af?

Þegar engin svör fást frá hæstv. ráðh. um hvort hann ætti að beita reglugerðarheimild sinni með þessum hætti, þá er að sjálfsögðu ekki um annað að ræða fyrir Alþingi en að breyta frv. hæstv. ráðh. þannig að honum sé ekki fært — jafnvel þó að hann kynni að kjósa það sjálfur — að leggja slíka tolla á varning af þessu tagi sem Alþingi hefur ákveðið að fella niður aðflutningsgjöld af.

Einmitt þess vegna, herra forseti, höfum við nokkrir þm., auk mín þeir hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, Matthías Bjarnason, Albert Guðmundsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Magnús H. Magnússon, flutt svofellda brtt. við frv. sem nú er til 3. umr., að aftan við 2. gr. í I. kafla frv. komi ný gr., er verði 3. gr. og orðist sú grein svo:

„Tollafgreiðslugjald samkv. lögum þessum skal ekki innheimt af vörum, sem aðflutningsgjöld hafa verið felld niður af samkv. heimildum í 6. gr. fjárlaga og 3. gr. laga nr.120 31. des. 1976, um tollskrá o.fl., með síðari breytingum.“

Herra forseti. Hér er ekki um að ræða breytingu sem mundi skerða tekjumöguleika ríkissjóðs að neinu ráði. Það er aðeins verið að koma í veg fyrir að hæstv. fjmrh. geti með reglugerð ákveðið að innheimta nýjan toll af alls konar varningi, eins og ég hef hér nefnt, sem ætlaður er annaðhvort björgunarsveitum eða til björgunarstarfa, sem ætlaður er fötluðu fólki og lömuðu og Alþingi hefur ákveðið að aðflutningsgjöld skuli felld niður af.

Ég óska eftir því, herra forseti, að afbrigða verði leitað svo að þessi till. geti komið til umr. og afgreiðslu.