24.02.1982
Neðri deild: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2638 í B-deild Alþingistíðinda. (2266)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil reyna að byrja mína ræðu á ný. Ég minni á að við 2. umr. þessa frv. til l. um breytta tekjuöflun ríkissjóðs vegna ráðstafana í efnahagsmálum leyfði ég mér að leggja spurningu fyrir hæstv. ráðh. um það, á hvaða stigi verðmyndunar þetta 1% afgreiðslugjald í tolli yrði lagt á. Ég hef rökstuddan grun um að það verði áður en söluskattur er lagður á. Komi hann á þetta afgreiðslugjald þýðir það verulega tekjuhækkun til ríkissjóðs umfram það sem segir í þessu frv. Máli mínu til stuðnings bað ég Verslunarráð Íslands um að athuga frv. eins og það liggur fyrir og reikna þetta 1% út til að sjá hver hin raunverulega tekjuöflun er fyrir ríkissjóð af því 1% tollafgreiðslugjaldi sem hér er lagt til að verði að lögum. Er ekki vitað á þessu stigi hvort önnur gjöld reiknuð í tolli, eins og t.d. vörugjald eða aðrir skattar, komi hér til viðbótar. Með leyfi forseta vil ég leyfa mér að lesa upp svar það sem Verslunarráð Íslands sendi mér. Bréf stílað til mín 23. febr. 1982 hljóðar svo, með leyfi forseta:

“Fyrirspurn yðar um verðlagsáhrif 1% tollafgreiðslugjalds má meta þannig:

1. Samkv. síðast birtu yfirliti Þjóðhagsstofnunar um rekstur verslunar, sem er frá 1976, er meðaltalsálagning í heildsölu 21% og 23% í smásöluverslun. Þetta álagningarhlutfall er ekki mjög breytt eða breytilegt milli ára. 2. Söluskattur er 23.5%.

Þegar áhrif þessa eru metin verður 1% tollafgreiðslugjald að 1.84% í endanlegu verði. Ekki er reiknað með

að önnur aðflutningsgjöld leggist á gjaldið þótt svo sé um vörugjald. Söluskattstekjur ríkissjóðs af tollafgreiðslugjaldi verða nálægt 19 millj. kr. miðað við 54 millj. kr. tollafgreiðslugjaldsinnheimtu. Til þess að eyða þessum uppsöfnunaráhrifum þyrfti gjaldið að vera um 0.8% eða skila ríkissjóði 54 millj. kr. af tollafgreiðslugjaldi og söluskatti samtals.“

Ég held að hér hafi starfsmenn fjmrn. gert mistök. Tekjuöflun þessa 1% tollafgreiðslugjalds er því samkv. þessu, ef hæstv. ráðh. staðfestir að söluskattur leggist á það, 19 millj. kr. eða 1900 millj. gkr. meiri en sagt er í frv. sjálfu.

Ég óska eftir að hæstv. ráðh. svari fsp. og gefi aðrar upplýsingar, ef þær liggja fyrir, eða að öðrum kosti staðfesti það sem ég hef hér sagt. Að sjálfsögðu reikna ég með að hæstv. ríkisstj. muni þá bera fram brtt. um þetta 1% og það verði lækkað þannig að tekjur samkv. þessu frv. verði þær 54 millj. sem stefnt er að með frv., en ekki 1900 millj. gkr. umfram það sem ríkissjóður er talinn þurfa til að standa undir þeim breytingum sem lagt er til að gerðar verði.