24.02.1982
Neðri deild: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2640 í B-deild Alþingistíðinda. (2268)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta frv. eða efni þess, en ég verð hins vegar að víkja að tveimur spurningum sem fram hafa komið.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, 3. þm. Vestf., spurðist fyrir um það við 2. umr. málsins, hvernig háttað yrði álagningu tollafgreiðslugjalds þegar aðflutningsgjöld væru lækkuð eða jafnvel felld alveg niður með heimild í tollalögum eða samkv. heimildum fjárlaga.

Ég tel að í þessum efnum geti komið til greina ýmsar reglur. Það er kannske ekki hægt að nefna eina einfalda reglu í því sambandi. Ég held að þetta þurfi að athuga nánar. Það er heimild til þess í lögunum að fella niður tollafgreiðslugjald þegar það þykir eiga við. Það verður því að sjálfsögðu á valdi ráðh. á hverjum tíma, að hve miklu leyti niðurfelling á þessu gjaldi muni eiga sér stað í þeim tilvikum sem hv. þm. nefndi.

Ég vil þó taka skýrt fram að mér finnst afskaplega órökrétt, ef felldir eru niður tollar og vörugjöld, þ.e. aðflutningsgjöld, sem kannske nema tugum ef ekki hundruðum prósenta, að þá sé ekki fellt niður þetta 1%. Ég held að varla muni verða í sæti fjmrh. svo smámunasamur maður að hann reyni að halda í þetta 1% ef hann er að fella niður aðflutningsgjöld sem nema kannske 150%. (Gripið fram í: Það eru engin takmörk fyrir smámunaseminni.) Ég heyri að hv. fyrrv. ráðh. finnst engin takmörk fyrir smámunaseminni, en ég er ekki á sömu skoðun. Ég held að takmörk séu fyrir henni.

Ég tek það t.d. fram í þessu sambandi, að þegar um er að ræða bifreiðar sem fluttar eru inn í þágu öryrkja og aðflutningsgjöld eru lækkuð á með sérstökum heimildum, þá mun ég ekki telja rétt að leggja tollafgreiðslugjald á í slíkum tilvikum, enda er að sjálfsögðu um svo smáar upphæðir að ræða að fráleitt væri að leggja á tollafgreiðslugjald, þegar verið er að fella niður toll á annað borð og heimildir eru til að fella hann niður. Sama gildir að sjálfsögðu þegar tæki eru gefin til mannúðarstarfsemi og heimild er notuð til að fella niður tolla af þeim. Þá er að sjálfsögðu órökrétt að leggja þetta sérstaka gjald á.

Ég vil hins vegar taka það fram, að þetta mál þarfnast nánari athugunar. Mér sýnist eðlilegast að mótaðar yrðu einhverjar fastar reglur um þetta efni, og ég tel ekki óeðlilegt að einhver samráð yrðu höfð við fjh.- og viðskn. þingsins um framkvæmd á þessu atriði málsins.

Hv. þm. Albert Guðmundsson, 3. þm. Reykv., gerði hér fsp. um það, á.hvaða grunnverð tollafgreiðslugjaldið legðist og hvaða gjöld legðust hugsanlega ofan á tollafgreiðslugjaldið. Ég held að svarið við þessari spurningu liggi alveg ljóst fyrir í frv. sjálfu. Það er ljóst af frv. að tollafgreiðslugjaldið er lagt á tollverðið. Hins vegar er ekki einsýnt að vörugjald verði lagt á þetta gjald. Það tíðkast yfirleitt ekki í slíkum tilvikum. Hins vegar er augljóst mál að eðlis síns vegna hlýtur söluskattur að koma á gjaldið, enda er söluskattur alltaf seinasta stig álagningar eins og menn þekkja.

Það er vafalaust rétt sem hv. þm. benti á, að heildartekjur vegna þessarar gjaldtöku gætu orðið eilítið hærri af þessari ástæðu. En ég vil minna á í þessu sambandi að margt er ákaflega óljóst um hvaða tekjur þetta gjald gefur. Það er erfitt að reikna það nákvæmlega út. Ljóst er að sú upphæð, sem nefnd er í grg. frv., er heldur of há ef dráttur verður á því að gjaldið sé lagt á svonefndar EFTA-vörur. Ef það dregst t.d. verulega mun gjaldið að sjálfsögðu skila allmiklu lægri upphæðum en um er getið í frv. og það kemur þá þarna á móti.

Ég held að ekki sé hægt að svara þessari fsp. hv. þm. Alberts Guðmundssonar öðruvísi en á þennan veg, að gjaldið leggst á tollverðið. Aftur á móti leggst söluskattur á heildarverðið. Hann er seinasta stig gjaldtökunnar og kemur þarna ofan á. En menn mega ekki gera of mikið úr þessu þar sem ljóst er af ýmsum ástæðum — m.a. vegna þess að ekki verður lagt strax á EFTA-vörurnar — gefur gjaldið minni tekjur en grg. segir til um.