24.02.1982
Neðri deild: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2646 í B-deild Alþingistíðinda. (2271)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki ráða efnislega það frv. sem hér er til umr. og búið er að ræða allítarlega, en mig langar til að segja örfá orð um nánast innréttingu og efnisblöndun í hv. 12. þm. Reykv. eins og hún kemur mér fyrir sjónir í þessu máli og reyndar fleirum. (Gripið fram í: Það er kominn tími til.)

Það er sagt og er það e.t.v. með einhverjum rétti, að ýmsir stjórnmálamenn séu búnir að koma slíku óorði á stjórnmálamenn og stjórnmál að naumast verði undir því risið. Ég held að það sé einmitt slíkur máflutningur og það, hvernig menn eins og hv. 12. þm. Reykv. haga sér, sem er þess valdandi að slíkt óorð er komið á stjórnmálamenn sem raun virðist bera vitni. Ég er ekki hissa á því þegar menn haga sér með þeim hætti sem hv. 12. þm. Reykv. hefur hér gert. Það er vægast sagt tvískinningur í fyllsta máta hvernig hann hefur komið fram í þessu máli og kom raunar fram í öðru álíka máli á s.l. ári.

Það er einkennilegt hugarfar sem birtist í því að ætla sér að vinna vinsældir með því að vera á móti ákveðnu máli í trausti þess að það sé minni hl. fyrir brtt. á þingin. Það gerir hv. 12. þm. Reykv. Þetta er í annað skiptið sem hann hagar sér með þeim hætti að hann ætlar að gera sig stóran í trausti þess að það reyni aldrei á það, hvort hann fylgi fram sínum stefnumiðum og skoðunum. Það sýnir sig hvað átakanlegast í þessu máli. Hv. 12. þm. Reykv. virðist ekki hafa átt von á að hv. þm. Eggert Haukdal tæki þá afstöðu sem raun varð á. Þar skjátlaðist kempunni úr Reykjavíkurkjördæminu því að þá fyrst kom að því að hann þurfti sjálfur að standa við það sem hann var búinn að setja fram og segja. En það kom í ljós aftur að hann hafði ekki kjark til að fylgja, að ég vænti, þeirri sannfæringu sem hann taldi sig hafa í þessu máli. Þegar hann sá það blasa við, að meiri hv. var fyrir till. hans og hans málflutningi, þar rann hann sjálfur af hólmi. Það eru slíkir einstaklingar, hvar í stétt sem þeir finnast sem koma óorði á heila stétt. Það er ástæða til að vekja athygli á slíku, því að auðvitað eiga þessir einstaklingar, þessi hv. þm. eins og aðrir, eftir að koma aftur til kjósenda og biðja um traust og fylgi. Ég er sannfærður um að það kemur að því að þeir stjórnmálamenn, sem haga sér með þessum hætti, verða rúnir trausti og fylgi. Við höfum horft á fleiri dæmi en það sem hér er gert að umræðuefni. Því miður eru þau allt of mörg. Það er furðulegt að hugsa til þess, að þessi hv. þm., sem sjálfur var skipaður i efnahagsmálanefnd ríkisstj. til að vinna að þessu frv. og stendur að því og leggur það fram, skuli koma hér með brtt. í þessum dúr, hlaupa síðan frá henni þegar hann sér fram á að það er meiri hl. fyrir henni í þinginu.

Hv. þm. Matthías Á Mathiesen lét í það skína áðan að honum væri ekki ljóst til hvers hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson hefði flutt þessa till. Mér er alveg ljóst til hvers það var gert. Það átti að leika hinn stóra og stælta í trausti þess að það þyrfti ekki að reyna á það. En það kom annað í ljós. Kannske kom þetta úr líklegustu áttinni, þ.e. úr Framsóknarflokknum, þó að sumir hverjir og þar á meðal ég hefðu talið líklegra að það kæmi með þessum hætti úr annarri átt en þó ekki óskyldri, þ.e. frá Alþb. Menn hafa horft upp á álíka uppákomur í þeim flokki og skyldi engan undra, en að þessu sinni kom það úr Framsfl. Það hefur gerst áður að tilteknir þm. Framsfl. hafi hér flutt mál og till. í trausti þess, að þær nytu ekki meiri hl. og það þyrfti aldrei að reyna á að þær ættu hljómgrunn í þinginu. Við þessu er full ástæða til að vara. Það er skylda þeirra einstaklinga, sem starfa í stjórnmálum og vilja starfa þar af heilindum, að vekja athygli almennings í landinu þegar tilteknir stjórnmálamenn, þingmenn, haga sér með þeim hætti sem hv. 12. þm. Reykv. hefur nú gert. Hafi nokkur þm. nokkurn tíma verið með allt niður um sig er það núverandi hv. 12. þm. Reykv.