24.02.1982
Neðri deild: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2651 í B-deild Alþingistíðinda. (2275)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Mér þætti vænt um ef hv. 6. þm. Norðurl. e. vildi hlýða á mál mitt. Hv. 6. þm. Norðurl. e. tók sig til og vildi ganga frá því í skjölum þingsins hvernig saga þessa máls hefði verið. Þar sem um mjög grófa sögufölsun var að ræða get ég ekki látið hjá líða að standa hér upp og skýra frá vissum meginatriðum þessa máls. Vissulega er það rétt, að hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson á sæti í efnahagsmálanefnd, og vissulega er rétt, að sú nefnd stóð að yfirlýsingu ríkisstj. um efnahagsmál. Sé sú yfirlýsing lesin kemur fram að þar er talað um iðnað. Þetta mætti hv. 6. þm. Norðurl. e. gjarnan athuga. Frumdrög þess frv., sem hér er til umfjöllunar, voru vissulega lögð fyrir þingflokk Framsfl. Þar kom í ljós að orðalagið, sem áður hafði verið „iðnaður“, var búið að taka á sig aðra mynd. Menn gátu ekki unað því eins og það var í þeim frumdrögum. Guðmundur G. Þórarinsson sá ekki um samningu þeirra frumdraga. Frv., eins og það kom inn í deildina í endanlegri mynd, hafði ekki verið lagt fyrir þingflokk Framsfl. Það liggur þess vegna alveg ljóst fyrir að Guðmundur G. Þórarinsson hefur staðið heill að því sem hann hefur sagt og gert í þessu máli, og því mætti forsvarsmenn iðnaðar gjarnan gera sér grein fyrir.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. hélt því fram, að Framsfl. væri tímaskekkja. Í sömu þingræðu hélt hann því fram, að hann væri ágætur flokkur. (Gripið fram í: Á stundum.) Ég ætla ekki að halda því fram um Alþfl. að hann sé tímaskekkja, en ég efa oft hans ágæti.

Það er tekist á um hvað sé iðnaður. Mönnum þykir ekki nóg að Hagstofan dæmi um það, mönnum þykir ekki nóg að farið sé eftir alþjóðareglum. Okkur hafa einnig borist í hendur frá Félagi ísl. iðnrekenda litlar bækur þar sem gerð er grein fyrir því, hvað sé iðnaður og hvað sé önnur atvinnustarfsemi í þessu landi. Ef menn fletta því upp kemur í ljós að þar er talað um iðnað, byggingariðnað, fiskveiðar, landbúnað, verslun og opinbera þjónustu. Undirgreinar iðnaðar eru einnig taldar þar upp þrjár: framleiðsluiðnaður, fiskvinnsla og þjónustuiðnaður.

Ég vil vekja á því athygli, að eins og frá þessum málum er gengið mun hluti af byggingariðnaðinum vissulega falla undir það sem hér hefur verið samþykkt og gert, en ekki sá hluti hans sem flokkast undir mannvirkjagerð. Það má vel vera að menn vilji hafa allt aðrar reglur um atvinnugreinaskiptingu í þessu landi en í öðrum löndum. Það má vel vera að menn vilji hafa allt aðra skiptingu. Það má líka vel vera að mönnum þyki það illt að Guðmundur G. Þórarinsson stóð mjög fastur á sínu máli og kom því fram sem hann vildi koma fram og við þm. Framsfl. vorum allir bundnir af sem stuðningsmenn þeirrar yfirlýsingar sem ríkisstj. gaf frá sér.

Til að koma í veg fyrir fölsun sögunnar tel ég rétt að þetta komi fram.