24.02.1982
Neðri deild: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2652 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég verð að bæta örfáum setningum við þessa umr. af sérstökum ástæðum.

Hér hefur verið veist að einum þm. Framsfl. með ósönnum og mjög ósmekklegum fullyrðingum í ræðum og ég verð að hrekja þær til baka. Raunar hefur líka verið veist að Framsfl. í þessu sambandi. Við framsóknarmenn leggjum mjög ríka áherslu á að iðnaðinum í landinu svo sem öðrum atvinnuvegum séu sköpuð viðunandi starfsskilyrði. Eitt sem okkur sýndist að gæti orðið til að létta undir með iðnaðinum i erfiðri stöðu var niðurfelling launaskatts eða hluta launaskatts ef samkomulag næðist um það. Hefur verið eitt af grundvallaratriðunum í þeirri umr. sem hefur farið fram um efnahagsráðstafanir núna í vetur að áfangi næðist á þeirri leið.

Drög að bandormsfrv. voru kynnt í þingflokki Framsfl. og þm. flokksins athuguðu þau og unnu að þeim. Guðmundur G. Þórarinsson er ágætur baráttumaður fyrir hagsmunum iðnaðarins og setti strax fram mjög ákveðnar skoðanir um orðalag á þessari umræddu grein. Hann var búinn að setja fram ákveðna fyrirvara um hvernig hann vildi hafa það orðalag sem hann teldi fullnægjandi, en því miður sat hann ekki þingflokksfund þegar endanlega var gengið frá þessu máli.

Þetta var þingflokksfundur á mánudegi, líklega hefur það verið 15. febr., þegar gengið var frá þessu í þingflokki Framsfl. og einum af ráðh. flokksins var falið umboð til að koma á framfæri í ríkisstj. ákveðnum orðalagsbreytingum á frv. En Guðmundur G. Þórarinsson var ekki staddur á þessum fundi. Ég óskaði eftir því við þennan ráðh., að hann hefði sambandi við Guðmund G. Þórarinsson. (Forseti: Þm. á að ávarpa hv.) Hv. þm. Guðmund G. Þórarinsson. Því miður hafði hæstv. ráðh. ekki tækifæri til þess eða mistókst að hafa nægilegt samband við hv. þm. Guðmund G. Þórarinsson um þetta atriði, og þess vegna kom það hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni mjög á óvart þegar hann sá orðalagið á frv. sem útbýtt var hér þriðjudaginn 16. febr. Hann lætur strax í ljós á þingflokksfundi með mjög skorinorðum og formlegum hætti ákvörðun sína um að leggja fram brtt. við málið og varð ykkur að segja ekki tauti við hann komandi.

Hv. þm. lagði sína brtt. fram 18. febr. og síðan kemur hún hér til umr. og minni hl. nefndarinnar tekur hana til greina að mestu leyti. Það varð að gera breytingar á frv. Það varð samkomulag um það orðalag sem stjórnarliðar geta staðið að og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson er þar með óðrum stjórnarliðum. Þannig stendur málið. Og það er þingmeirihluti fyrir þessu máli með því orðalagi sem nú er og óþarfi að vera að orðlengja þetta meira.