24.02.1982
Neðri deild: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2653 í B-deild Alþingistíðinda. (2278)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Út af því, sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson hefur sagt, þegar hann hefur verið að ræða um skilgreiningu Hagstofunnar og alþjóðaskilgreiningu í sambandi við iðnað, þá hefur það verið mjög áberandi í hvaða veru hv. þm. hefur verið að gera það, en það er að sjálfsögðu til að geta horfið frá þeirri till. sem hann flutti hér og þorði ekki að standa við. Við hlýddum svo á hjá hv. þm. Páli Péturssyni, 1. þm. Norðurl. v., formanni þingflokks Framsfl., hluta af fundargerð þingflokksins eftir að hv. 5. þm. Vestf., Ólafur Þ. Þórðarson, hafði gefið upplýsingar þar að lútandi. Ég orðaði það svo einhvern tíma hér við 1. umr., að einn af efnahagsmálanefndarmönnum ríkisstj., Guðmundur G. Þórarinsson, væri búinn að flytja hér brtt. Spurningin er: Er það ekki rétt að hann hafi setið þar og gert þar tillögur, enda þótt hann hafi ekki setið þingflokksfund Framsfl. þegar málið var rætt? Það þarf að koma fram.

Hér er ég með ljósrit af Tímanum fimmtudaginn 18. febr. Fyrirsögnin er: Brtt. frá stjórnarliða. Þar stendur, með leyfi forseta: „Guðmundur vill, sem fyrr segir, að þessi skattalækkun nái til allra iðngreina.“ Þá er ofur auðvelt að fletta upp. Það hefur verið gefin út reglugerð um iðnfræðslu þar sem upp eru taldar iðngreinar.

Ég trúi ekki öðru en þegar við erum að tala um launaskatt hér á Íslandi sé farið eftir því sem við höfum sjálfir sett í okkar lög. Mér er fullkomlega ljóst, að þegar um er að ræða alþjóðlegt samstarf verður oft og tíðum að setja ákveðnar reglur, vegna þess að það er mismunandi skilningur í hverju landi um sig. Það hefur að sjálfsögðu gerst hérna. Það, sem Hagstofan er með, er ekki sá skilningur sem lögin um iðju og iðnað fara eftir á Íslandi, heldur er verið að bera þar saman við önnur lönd til að fá sambærilegar tölur. Við getum flett upp í lögunum um iðju og iðnað, nr. 79 frá 1971, með leyfi forseta. Þar stendur í 13. gr.: „Iðnaður heitir í lögum þessum hver sú grein handiðnaðar, sem sérnám þarf til og lætur gera sjálfstætt sveinspróf samkv. reglugerð um iðnaðarnám.“ Í 1. gr. sömu laga segir, með leyfi forseta: „Iðja merkir í lögum þessum allan annan iðnað en handiðnað og heimilisiðnað, hvaða efni eða orku, vélar eða önnur tæki, sem notuð eru, og hvaða vörur eða efni, sem framleidd eru.“

Hér höfum við það svart á hvítu í íslenskum lögum hvað er iðnaður. Upprunalega hugsaði hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson sér að lækka launaskattinn á öllu þessu, en hann hefur ekki komist upp með það. Það sýnir málsmeðferðin hér á hv. Alþingi.