24.02.1982
Neðri deild: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2654 í B-deild Alþingistíðinda. (2280)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af því sem hér hefur komið fram síðast.

Það fer ekkert milli mála að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði áðan að þetta mál hefði ekki verið lagt fyrir þingflokk Framsfl. í endanlegri mynd. En hann hefði átt að bæta við, hefði hann ætlað að segja allan sannleikann, eins og hann ætlaði sér eða vildi segja núna, sé það rétt, að ráðh. hefði líklega verið falið að ganga frá málinu, eins og mun vera tíðkað í þeim flokki.

En ég vil spyrja hv. þm. Pál Pétursson, fjallkóng þeirra framsóknarmanna: Er það rétt hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni, að þetta mál, sem hér er nú rætt, hafi aldrei verið lagt fyrir þingflokk Framsfl. í endanlegri mynd? Ég vænti þess að fá hrein og skýr svör við þessu. Þetta er einföld spurning og ætti að vera hægt að svara henni á einfaldan hátt og skýran. — Er það rétt sem hv. þm. Ólafur Þórðarson upplýsti áðan, að þetta mál, sem hér er nú til umr., hafi aldrei verið lagt fyrir þingflokk Framsfl. í endanlegri mynd þannig að þm. þess flokks sjái málið fyrst í endanlegri mynd á borðum í hv. deild? Ég vænti þess, að hv. þm. Páll Pétursson gefi skýr og greið svör við jafneinfaldri spurningu og hér er um að ræða.