27.10.1981
Sameinað þing: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

35. mál, afstaða símnotenda til mismunandi valkosta við jöfnun símkostnaðar

Níels Á. Lund:

Herra forseti. Það er vegna fram kominnar þáltill. sem mig langar til að segja hér nokkur orð.

Ég vil þá fyrst lýsa því, að ég er algerlega sammála því sem kemur fram í grg. þeirrar till. sem lá fyrir Alþingi um að fela ríkisstj. að haga endurskoðun gjaldskrár Landssímans þannig að sem fyrst verði náð sem mestum jöfnuði með landsmönnum í kostnaði við notkun símans o. s. frv., en ég er hins vegar ósammála þeirri þáltill. sem hér liggur frammi og er einnig svolítið undrandi á þeim rökum sem eru sett fram í grg.

Þá er fyrst að nefna t. d. að þar er alveg sérstaklega tekið fram að bændur þurfi að fara að greiða sérstaklega fyrir símtöl við næstu nágranna sína eftir tímamælingu strax við tilkomu skrefagjaldsins. Ég veit ekki annað en bændur hafi borgað sitt gjald hingað til þó að þeir hafi getað talað við sína næstu nágranna. Að vísu er spurning um hvar þeirra næstu nágrannar eru. Í annan stað hef ég ekki ástæðu til að halda að bændur hafi nokkurn tíma skorast undan því, að borga símgjöld og því sé óþarfi að taka það sérstaklega fram í grg.

Annað vil ég segja og taka undir orð hv. þm. Helga Seljans þar sem hann vitnar í að pyngjan sé besti mælikvarðinn á þetta mál. Ég tel mig vera dómbæran um þetta þar sem ég hef búið bæði utan þéttbýlis og innan. Þar er pyngjan örugglega nákvæmasti mælikvarðinn, að mér hefur fundist, burt séð frá öllum öðrum rökum.

Síðan er talað hér um þá sem hafa talað óhindrað við fólk í nágrenni sínu í samræmi við hinar margvíslegu þarfir, talað við næstu nágranna sína. Það er nefnilega spurning hverjir eru næstu nágrannar. Nefnum t. d. Keflavík, Garð og Sandgerði. Þarna er mismunandi gjald. Það er kostnaðarsamara fyrir mig að búa í Keflavík og eiga kunningja í Garðinum eða Sandgerði og tala við þá en að búa t. d. í Hafnarfirði og tala við Garðabæ, við Kópavog, yfir Reykjavík og út á Seltjarnarnes eða yfir í Mosfellssveit. Það er nefnilega spurning um hvar kunningjarnir búa.

Þá vil ég setja spurningarmerki við það í grg. sem er reiknað út frá prósentutölum. Þá er miðað við þá notkun símans sem nú er. En ég leyfi mér að fullyrða að með þeirri skrefatalningu, sem er fyrirhugað að komi á, breytist notkun símans verulega og þar með þau prósentuhlutföll sem reiknað er út frá þarna.

Að síðustu er eitt sem er mér óskiljanlegt í þessari þáltill. Það er þetta, að spurningarform og upplýsingar á könnunareyðublöðum verði unnin í samráði við Neytendasamtökin og send út með símreikningum væntanlega þannig að þeir, sem eru með símanúmer, geti svarað fyrir sig. Þá kemur spurningin: Hverjir eru símaeigendurnir? Hverjir eiga að svara fyrir opinberar byggingar? Hverjir eiga að svara fyrir allar opinberar stofnanir, sem eru náttúrlega mun fleiri á þéttbýlissvæðinu hér í Reykjavík en úti um land? Hverjir eiga að svara fyrir þær? Og fleira er í sambandi við það að senda út eyðublóð þessi með símreikningum. Ég leyfi mér að fullyrða að það er ekki eins auðveld aðferð og hér liggur fyrir, vegna þess að símreikningar þurfa oft úti á landi að bíða lengi á símstöðvum og þar er annað kerfi á innheimtu en er hér, að því er ég tel mig best þekkja. En það er sérstaklega þetta með spurningarformið. Hverjir eiga t. d. að svara fyrir þær stofnanir sem eru með síma? Ég hefði gaman af að heyra það.

Ég er algerlega ósammála þessari till. og tel hana ekki nógsamlega vandaða til að flytja hana á hv. Alþingi.