25.02.1982
Sameinað þing: 57. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2666 í B-deild Alþingistíðinda. (2297)

171. mál, viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ríkisstj. hefur lagt fyrir þingið till. til þál. um staðfestingu viðbótarsamnings við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Spánar. Till. er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að heimila ríkisstj. að staðfesta fyrir Íslands hönd viðbótarsamning við Norður-Atlantshafssamninginn frá 4. apríl 1949 um aðild Spánar, sem undirritaður var í Brussel 10. des. 1981. Viðbótarsamningurinn er prentaður sem fskj. með till. þessari.“

Efni þessa máls er mjög einfalt, aðild Spánar að Atlantshafsbandalaginu, en samning um þá aðild verður að staðfesta í öllum þátttökuríkjum bandalagsins.

Hinn 30. okt. s.l. var mál þetta afgreitt í neðri deild spánska þingsins og greiddu 186 atkv. með aðild, 146 á móti, en 18 voru fjarverandi. Nokkru siðar afgreiddi spánska öldungadeildin málið og voru þar 105 með aðild, en 60 á móti og einn sat hjá. Það fer því ekki á milli mála, að það hefur verið tekin lögleg ákvörðun af réttum stjórnvöldum á Spáni um umsókn þess lands um aðild að bandalaginu.

Allmiklar umræður urðu um þetta mál á Spáni s.l. haust um nokkra hríð, en hafa síðan dáið út og virðast raunar ekki hafa rist ýkjadjúpt þar í landi. Gegn aðildinni voru fyrst og fremst jafnaðarmenn og kommúnistar. Afstaða spánskra jafnaðarmanna er hins vegar að því leyti sérkennileg, að þeir styðja framlengingu á spönskum varnarsamningi við Bandaríkin, en samkv. þeim samningi hafa Bandaríkjamenn mikilvægar herstöðvar á Spáni. Síðan er því haldið fram af mörgum kunnugum, að andstöðu jafnaðarmanna við inngöngu í NATO á þessu stigi máls beri frekar að skoða sem hluta af almennri og harðri stjórnarandstöðu og tilraun til að valda spönsku stjórninni erfiðleikum, enda er það kappsmál þeirra félaga að fella þá stjórn.

Um það, hvernig skoðanir eru á Spáni utan þings, er helst að draga fram skoðanakönnun sem dagblaðið EI Pais lét fara fram og spurði 3000 manns. Þar kom í I jós að 69% voru fylgjandi því, að þjóðaratkvæði yrði látið framfara um málið, en spánska stjórnin hefur ekki tekið það í mál. Hins vegar kom í ljós að meiri hluti þeirra, sem spurðir voru, taldi sig vera andvígan bandalaginu, en við nánari eftirgrennslan kom einnig í ljós að aðeins 39% þeirra, sem spurðir voru, höfðu nokkuð skýra hugmynd um hvað NATO er. Þriðjungur þeirra, sem spurðir voru, hafði ekki hugmynd um það. Af þessum ástæðum hafa ýmsir viljað halda fram að ekki væri ástæða til að telja þessa skoðanakönnun marktæka, en um það verður að sjálfsögðu ekkert fullyrt.

Umræðurnar á Spáni snerust um það, hvort öryggi Spánar væri betur borgið með aðild að Atlantshafsbandalaginu heldur en ekki. Í því sambandi skiptir auðvitað miklu máli að Spánverjar hafa nú þegar herverndarsamning við Bandaríkin sem eru öflugasta ríki Atlantshafsbandalagsins, svo að sitthvað fer þarna saman. Ýmsir bentu á að með aðild að Atlantshafsbandalaginu kæmi Spánn við sögu í átökum milli austurs og vesturs og deilum. Hins vegar mundi Atlantshafsbandalagið ekki geta hjálpað Spánverjum við að leysa vandamál eins og deiluna við Breta um Gíbraltar né heldur vandamál sem kunna að verða milli Spánverja og suðlægari þjóða. Enn hefur því verið haldið fram, að aðild Spánar að Atlantshafsbandalaginu kynni að verða til að styrkja herforingjaklíkur þar í landi og þar með veikja þá þróun lýðræðis sem átt hefur sér stað undanfarin misseri á Spáni. Gegn þessu eru einnig færð mjög sterk rök, sem eru á þá lund að spánski herinn, sem er mjög öflugur í landinu og valdamikill í stjórnmálum þess ekki síður en varnarmálum, hafi allt frá spönsku byltingunni verið algerlega einangraður og mætti búast við að áhrif hersins á Spáni færu frekar minnkandi þegar herforingjar taka við störfum innan Atlantshafsbandalagsins og fá þar ýmiss konar ábyrgð, auk þess sem þeir komast þá í samband við starfsbræður sína í ýmsum öðrum löndum. Ég er því þeirrar skoðunar, að aðild Spánar muni ekki verða til að auka völd hersins þar, heldur kunni þau að fara minnkandi því að líkur eru á því að spánski herinn verði minnkaður en flotinn og flugherinn auknir og að ný kynslóð spánskra herforingja muni hafa minni tengsl við stjórnmál og minni afskipti af þeim en verið hefur til þessa.

Herra forseti. Ég hef drepið á nokkur atriði sem fram hafa komið erlendis, m.a. á Spáni með og á móti þessu máli vegna þess að spurningar þess eðlis hafa komið fram í umræðum bæði hér í Sþ. og í utanrmn.

Að fulltrúa Alþb. undanskildum eru utanrmn.-menn sammála um að mæla með að Alþingi samþykki þá till. til þál. sem ég hef mælt fyrir.