25.02.1982
Sameinað þing: 57. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2667 í B-deild Alþingistíðinda. (2298)

171. mál, viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn

Frsm. minni hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Þegar till. um aðild Spánar að NATO kom fyrr til umr. í Sþ. var lýst yfir að þm. Alþb. mundu sitja hjá við afgreiðslu málsins þar eða Alþb. væri andvígt þátttöku Íslands í NATO. Þessi afstaða er í framhaldi af sérstakri bókun sem ráðherrar flokksins gerðu í ríkisstj. þegar till. var þar til meðferðar. Ég greindi frá þeirri bókun hér við fyrri umr. í Sþ. en þar kom skýrt fram afstaða Alþb. til Atlantshafsbandalagsins og þessarar tillögu.

Í umr. áréttaði ég hins vegar nauðsyn þess, að Íslendingar kynntu sér meðferð málsins á Spáni, en mjög litlar upplýsingar komu fram um það þegar gerð var grein fyrir þessum viðbótarsamningi fyrr hér á Alþingi. Taldi ég nauðsynlegt að íslenskir alþm. kynntu sér helstu rök þarlendra andstæðinga aðildar að NATO. Ber að fagna því, að í utanrmn. hafa komið fram upplýsingar um þessi atriði.

Í fulltrúadeild spánska þingsins greiddu 186 þm. atkv. með aðild, en 146 þm. voru á móti. Í öldungadeildinni voru 105 með tillögunni, en 60 á móti. Forustumenn sósíalista í spánska þinginu gerðu tillögu um að þjóðaratkvgr. færi fram um aðildina þar eð margt benti til þess, að meiri hluti spönsku þjóðarinnar væri andvígur því, að Spánn gengi í NATO. Það er rétt að vekja hér skýra athygli á því, að þessari tillögu um að kanna vilja spönsku þjóðarinnar var hafnað af spönsku ríkisstj. og meiri hluta spánska þingsins, sem ekki treysti sér til að leggja aðildina að Atlantshafsbandalaginu undir þjóðaratkvæði. Má í því sambandi minna á tillögur sem voru uppi á sínum tíma hér á landi, en rétt að athuga það einnig nú þegar nýtt ríki er að bætast í hóp NATO-ríkjanna, að þar treysta ráðamenn og talsmenn NATO-aðildar sér ekki til að láta vilja þjóðarinnar skera úr í þessu efni.

Það var greint frá því áðan af flm. meiri hl., og ég geri það í mínu nál., að áreiðanleg skoðanakönnun, sem fram fór á Spáni, sýndi að um 70% spönsku þjóðarinnar voru fylgjandi því, að þjóðaratkvgr. færi fram um málið. Í sömu könnun kom fram að 52% Spánverja voru andvígir því, að landið gengi í NATO, og aðeins 18% voru fylgjandi því, að gengið væri í bandalagið. Það var vakin athygli á því áðan af frsm. meiri hl., að könnun hefði leitt í ljós að aðeins 39% hefðu allgóða hugmynd um hvað Atlantshafsbandalagið væri. Það er rétt að benda á í framhaldi af því, að það eru aðeins 18% sem voru með því að ganga í bandalagið. Það er því ekki hægt að halda því fram, að vanþekking á bandalaginu hafi verið orsök þess, að svo litill stuðningur var við NATO-aðildina á Spáni, þegar um 40% reynast hafa góða þekkingu á því, hvers eðlis Atlantshafsbandalagið er, og um það bil 30% í viðbót allnokkra hugmynd, en samt sem áður aðeins 18% sem vilja styðja aðildina en 52% algerlega á móti. Það er því ljóst að mikill meiri hluti Spánverja var bæði andvígur aðild landsins að NATO og á móti málsmeðferð ríkisstj. á málinu. Spönsku þjóðinni var meinað að kveða upp dóm í þessu máli. Vilji fólksins fékk ekki að ráða. Þingmeirihluti knýr aðildina í gegn þótt fyrir liggi að það er aðeins örlítill hluti þjóðarinnar sem styður þá ákvörðun, en yfirgnæfandi meiri hluti væri á móti málsmeðferðinni og einnig á móti aðildinni.

Andstæðingar NATO-aðildar á Spáni bentu á að þátttakan í NATO mundi tryggja valdastöðu spánska hersins og þannig grafa undan lýðræðinu i landinu. Spánski herinn var í áratugi, eins og þin. er kunnugt, burðarás fasismans á Spáni og nýlega-fyrir um það bil ári — gerðu herforingjar tilraun til að steypa hinu lýðræðislega stjórnkerfi og tóku allt þjóðþing Spánar til fanga í krafti skammbyssuvalds og vélbyssuvalds sem þeir beittu í þingsölunum. Hefur þegar orðið fræg sú mynd þegar spænsku herforingjarnir með byssurnar á lofti skutu upp í loft þingsalarins, en þingmenn grúfðu sig á bak við þingsætin og borðin til þess að forða lífi sínu. Þau skot, sem þá flugu upp í loft þingsalarins á Spáni, voru talandi vitnisburður um að herinn þar, sem nú á að vera aðildarher NATO, er ekki fylgjandi lýðræði.

Það er rétt að vekja athygli þingheims á því, að fyrir tveimur dögum kom frétt um þau réttarhöld sem nú fara fram á Spáni yfir þessum hershöfðingjum. Ég ætla að lesa hér fyrir hv. þingheim stuttan kafla úr fréttum um þetta efni svo að menn átti sig á því, hvernig framkvæmd lýðræðisins er nú þegar í þessu landi og hvernig er farið með hershöfðingjana sem gerðu tilraun til þess að steypa lýðræðinu í landinu. (HBI: Ekki hafði hann þó sent lögregluna eftir þingmönnum.) Það er skiljanlegt að hv. þm. Halldór Blöndal uni sér illa við að heyra lýsingar á því, hvernig þetta nýja aðildarríki Atlantshafsbandalagsins er og hefur verið hvað lýðræði snertir, vegna þess að enginn maður hefur jafnoft hér í þingsölum reynt að halda fram á síðari árum þeirri blekkingu, að lýðræði og Atlantshafsbandalagið séu eitt og hið sama. Í fréttinni segir: „Hlé var gert á réttarhöldum í dag þegar herforingjarnir neituðu að ganga í réttarsalinn“ — ég vek athygli á að þetta eru sakborningarnir, þeir neituðu að ganga í réttarsalinn — „ef ritstjóra, sem skrifað hafði grein sem þeim mislíkaði, yrði ekki meinað að vera við réttarhöldin.“

Hvað segir hæstv. dómsmrh., ef hann er hér staddur í dag, eða fyrrv. dómsmrh. um réttarhöld þar sem fangarnir setja það skilyrði, að blaðamenn og ritstjórar verði fjarlægðir ef föngunum á að þóknast að ganga í réttarsalinn. (ÓÞÞ: Það er góð meðferð á föngum.) Það er greinilegt að þótt þurfi kannske lögregluaðstoð í sumum þingflokkum, þá þyrfti sérstaklega í ljósi atburðanna í gær sérstaka herforingjastjórn í þingflokki Framsfl. En síðar segir áfram í fréttinni:

„Um síðir tókst að halda réttarhöldunum áfram eftir að forseti dómsins féllst á kröfu sakborninganna og rak ritstjórann úr réttarsalnum.“

Þannig er réttarhaldið yfir þessum herforingjum, sem gerðu tilraun til að steypa lýðræðinu á Spáni og tóku allt þingið til fanga í krafti byssuvaldsins, að þar setja þeir skilyrði fyrir því, hverjir séu í réttarsalnum þegar fjallað er um þeirra mál. Svo segir áfram í fréttinni:

„Varð þá upplausn í salnum og gengu flestir þeirra spönsku og erlendu fréttamanna, sem fylgjast með réttarhöldunum, úr salnum ásamt ritstjóranum. Fréttamenn á vegum hersins og aðstandendur hinna ákærðu gerðu hróp og köll að þeim og sögðu þeim að snauta burt.“

Fulltrúar hinna svokölluðu frjálsu dagblaða, fulltrúar erlendra fréttastofa ganga út úr réttarsalnum vegna þess að dómsforsetinn, sem á að dæma þessa tilræðismenn gegn lýðræðinu á Spáni, fellst á kröfu þeirra um að ritstjóra, sem hafði skrifað einhverja grein sem þessum sakborningum gegn lýðræðinu hafði mislíkað, verði vísað úr salnum. Svo fagna menn því hér, að þessi sami her skuli ganga í sveit NATO-herjanna og eiga þar að teljast til varnar lýðræðinu, — her sem lætur sér sæma að koma þannig fram, sem rekur fulltrúa frjálsra dagblaða og fréttastofa úr dómssalnum þegar á að fara að fjalla um þá herforingja sem gerðu tilraun til þess að steypa lýðræðinu.

Það er þess vegna mikilvægt að menn átti sig á því hér, að herforingjastjórnir hafa lifað góðu lífi innan NATO og yfirstjórn bandalagsins hefur í engu skeytt um það, þótt lýðræði væri afnumið í aðildarríkjunum.

Yfirstjórn NATO hafði náið samstarf við herforingjastjórnina í Grikklandi, enda studdi forusturíki bandalagsins, Bandaríkin, valdatöku grísku herforingjanna á sínum tíma. Á sama hátt hafa Bandaríkin, forusturíki NATO, stutt herforingjastjórnina í Tyrklandi bæði fjárhagslega og hernaðarlega þótt lýðræði sé nú fótum troðið í Tyrklandi. Þar er starfsemi stjórnmálaflokka bönnuð, forustumenn frjálsra verkalýðsfélaga hafa verið dæmdir til dauða, tugir þúsunda borgara hnepptir í fangelsi vegna stjórnmálaskoðana sinna og pyntaðir þar, starfsemi fjölmiðla og háskóla hefur verið hneppt í fjötra. Engu að síður fær Tyrkland að vera áfram fullgildur meðlimur í Atlantshafsbandalaginu, og það sem meira er: forusturíki bandalagsins gerir allt sem það getur til þess að styðja þessa herforingjastjórn efnahagslega og fjárhagslega.

Það er því rétt hjá andstæðingum NATO-aðildar á Spáni, sem hafa meirihlutafylgi með þjóðinni, að þátttaka í þessu bandalagi eykur líkurnar á að lýðræðinu verði fórnað í þágu valdahagsmuna hersins. Saga NATO, studd dæmum frá Grikklandi, Portúgal og Tyrklandi, sýnir að forusta bandalagsins metur hernaðarhagsmunina ávallt meira en lýðræðið. Þátttaka í NATO er því engin trygging fyrir lýðræði. Það hefur sagan sannað rækilega, því miður, hvað svo sem þeir lýðræðisskrumarar segja sem reyna að halda því að þjóðinni hér að þátttakan í Atlantshafsbandalaginu sé ávallt samfara hollustu við lýðræði.

Það eru þegar mörg söguleg dæmi sem taka af allan vafa um að yfirstjórn Atlantshafsbandalagsins og forusturíki þess styðja ávallt þá sem fótumtroða lýðræðið í aðildarríkjum bandalagsins — með einu skilyrði þó: Svo framarlega að þeir tryggi hernaðarhagsmuni Bandaríkjanna og þau fái áfram að hafa herstöðvar sínar í Tyrklandi eða í Grikklandi eða samvinnu við Portúgal, þá er allt í lagi þótt lýðræðið sé afnumið og herforingjarnir látnir taka völdin — ef hernaðarforusturíkið fær áfram að hafa allt sitt á þurru.

Það er því ljóst, herra forseti, að NATO er hernaðarbandalag en ekki samfélag lýðræðisríkja. Hér er verið að leggja til, að enn eitt ríkið, sem á sér ömurlega sögu hvað lýðræðisskort snertir, gerist aðili að bandalaginu, og opna þannig möguleikana á að spánski herinn hafi skjól af hernaðarsamvinnunni í NATO til þess að geta aftur gengið inn í þingið á Spáni og skotið með byssunum upp í loftið og tekið þingið til fanga og sett síðan dómstólunum í landinu skilyrði um hverjir fái og hverjir fái ekki að vera í réttarsölunum, eins og þegar hefur gerst þar í landi. Við teljum því ljóst að það sé mjög hæpið fyrir Spánverja sjálfa — enda fyrirliggjandi að meiri hluti þjóðarinnar er einnig á þeirri skoðun að ganga í Atlantshafsbandalagið, en teljum nauðsynlegt að þeir, sem vilja taka á því ábyrgð hér og styðja að slíkt verði, geri það með hreinum og skýrum hætti. Við óskum þess vegna eftir að fram fari nafnakall um þessa tillögu.