25.02.1982
Sameinað þing: 57. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2672 í B-deild Alþingistíðinda. (2303)

12. mál, smærri hlutafélög

Frsm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Allshn. Sþ. hefur tekið þessa þáltill. til meðferðar á nokkrum funda sinna og leitað umsagnar Lögmannafélags Íslands, ríkisskattstjóra, Félags ísl. iðnrekenda, Landssambands iðnaðarmanna, Verslunarráðs Íslands og Alþýðusambands Íslands.

Sú hefur orðið niðurstaða nefndarinnar að mæla með samþykkt till., þó með þeirri breytingu að því sé ekki slegið föstu fyrir fram, að nauðsynlegt sé að setja sérlög um smærri hlutafélög, heldur leggjum við til að Alþingi feli ríkisstj. að endurskoða lög um hlutafélög með hliðsjón af réttarstöðu smærri hlutafélaga. Því yrði þá haldið opnu, hvort sérlög yrðu sett um hin smærri hlutafélög eða ákvæði um þau yrðu sett inn í hlutafélagalögin sjálf. Hugsun okkar er sú, að sú nefnd, sem tæki hlutafélagalögin til endurskoðunar, skeri sjálf úr því.

Umsagnaraðilar hafa nær einróma mælt með samþykkt till. Þó varar ríkisskattstjóri við því, að dregið verði úr þeim ófrávíkjanlegu kröfum, eins og hann orðar það, sem gerðar eru í hlutafélagalögunum um stofnun, stjórn og rekstur hlutafélaga, og skírskotar til reynslu af fámennishlutafélögum í þessu sambandi. Aðrir umsagnaraðilar eru mjög meðmæltir þessari tillögu.

Ég sé ástæðu til að tilfæra hér sérstaklega kafla úr umsögn Félags ísl. iðnrekenda. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Jafnframt telur Félag ísl. iðnrekenda brýnt að leiðir verði kannaðar svo að hlutafélagaformið megi uppfylla grundvallarhlutverk sitt, þ.e. að örva sparnað til eflingar atvinnustarfsemi í landinu.

Reyndin er sú, að sparnaður í formi hlutabréfa hefur ekki náð sömu vinsældum hér á landi og í nágrannalöndum okkar. Þegar leitað er skýringa á þessum mismun er rétt að rifja upp þá þætti sem ráða vall almennings á sparnaðarformi. En það eru afkastavextir, áhætta og söluhæfni. Í samanburði við önnur sparnaðarform, svo sem spariskírteini, bankainnlán o.fl., búa hlutabréf við skattalega lökust kjör. Einnig er söluhæfni hlutabréfa verri en annarra sparnaðarforma. Sú staðreynd, að raunveruleg kauphallarstarfsemi fer ekki fram hér á landi, á einnig drjúgan þátt í þessari dræmu söluhæfni hlutabréfa.“

Félag ísl. iðnrekenda telur að endurskoðun og leiðrétting þessara þátta muni hafa augljósa kosti. Má sem dæmi nefna almennari þátttöku í fyrirtækjarekstri, auðveldari kynslóðaskipti í atvinnurekstri, mögulega aukna eignaraðild starfsmanna og almennt dreifðari áhættu í atvinnurekstrinum.

Í umsögn Landssambands iðnaðarmanna er slegið á svipaða strengi og m.a. skírskotað til greinar sem Sigmar Ármannsson lögfræðingur hefur ritað í Tímarit lögfræðinga, 2. hefti 30. árg., sem ég læt nægja að skírskota hér til. Þar er einmitt komið inn á þessi atriði, með hvaða hætti sé hægt að auðvelda einstaklingum að hefja atvinnurekstur, spara fé í því skyni, og hvort ekki sé nauðsynlegt að opna hlutafélagaformið meira en gert hefur verið og draga þá úr formsatriðum þegar um smærri hlutafélög er að ræða.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál nánar. Það gefst e.t.v. tími til þess undir öðrum kringumstæðum að tala almennt um þá stöðu, sem hlutafélagareksturinn hefur hér, borið saman við annan rekstur. Ég skal ekki lengja mál mitt með því.

Ég vil ítreka það, að allshn. mælir með samþykkt till. með þeirri breytingu sem getur á þskj. 342.