26.02.1982
Efri deild: 49. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2689 í B-deild Alþingistíðinda. (2315)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Frsm. 2. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson lét þess getið í ræðu sinni, að hann væri að gera annað en það sem hann ætlaði að gera, hann væri að lengja umr. sem hefði alls ekki verið ætlun hans. Ég held honum hafi líka tekist í ræðu sinni að gera annað en það sem hann ætlaði að gera, vegna þess að hann afhjúpaði skilningsleysi sitt á efnahagsmálum með þessari ræðu sinni.

Ég segi það enn og aftur, að þeir mælikvarðar, sem ég var með um það, hvers konar fjárhæðir hér eru í húfi, þeir standa fyrir sínu, að það lán, sem Ragnar Arnalds er að skrifa undir úti í London, er hærra að verðmæti en allt íbúðarhúsnæði í hans kjördæmi, hann verður að fleygja inn Höfn í Hornafirði að auki: Þetta ætla ég að endurtaka svo að það festist í kollinum á þingmönnum.

En hann spyr: Hvað er það sem þið viljið? Ég spyr: Hvar hefur þingmaðurinn verið? Kannast hann við það, að við höfum talað fyrir raunvaxtastefnu til þess að auka hér innlendan sparnað? Það er auðvitað grundvallaratriðið í þessum efnum. En það er fleira sem við höfum minnst á. Við höfum talað um að það yrði að koma því á, að menn yrðu ábyrgir gerða sinna. Sú aðferð, sem þessi ríkisstj. ástundar öðrum fremur undir forustu Alþb., er að hlaupa hvarvetna undir bagga og útvega mönnum erlend lán í hvers konar sukk, alveg sama hvernig atvinnurekendur standa sig, þá eru þessir fulltrúar Alþb. tilbúnir til að bjarga því með erlendum lánum. Og það sem meira er: það er farið að veita mönnum erlend lán til þess að selja báta milli fjarða á Vestfjörðum. Svona stefna gengur auðvitað ekki. Þau eyðslulán, sem verið er að taka, eru baggi á framtíðinni. Nú er sú aðferð fundin upp, að það skuli ekki borgað fyrr en eftir fimm ár. En það er meira sem þarf að koma til. Fjárfestingin í landinu er kolvitlaus. Ég hef talað hér um það undanfarin 2–3 ár að það dygði ekki sú fjárfestingarstefna sem fylgt væri. Þingmaðurinn spyr hvar ég vilji draga saman. Ég held að hann ætti að minnast þess, að það eru ekki margar vikur síðan ég gerði hér sérstaklega að umræðuefni að á árunum 1981–82 eigi að bæta við skipastól landsmanna 25–30 skipum án þess að afli muni aukast nokkurn skapaðan hlut. Þetta er vitlaus fjárfesting. Þetta er það sem ekki á að gera. Hér eru stórar fjárhæðir, herra Ólafur Ragnar Grímsson, hv. þm.

Alveg það sama gildir í landbúnaðinum. Við höfum talað um að það væri offramleiðsla í landbúnaði og það yrði að hafa hemil á fjárfestingunni þar. Þar eru líka stórar fjárhæðir. Ef þetta er tekið saman, eyðslulánin, þessi hrikalegu skipakaup og offjárfestingin í landbúnaði, þá erum við komin hátt upp í þá tölu sem hér er verið að tala um, 750 millj. kr.

Það er athyglisvert að horfa á það, hver stefna ríkisstj. á að vera á árinu 1982. Það er þannig, að erlend lán eiga að fara að hálfu leyti til þess að framlengja það sem ætti að borga af erlendum lánum sem falla í gjalddaga. Það verður væntanlega gert með lánum sem ekki þarf að borga af fyrr en eftir 5–10 ár samkvæmt formúlu ríkisstj., svo að enginn taki nú helst eftir því, hvað verið er að gera. Og það sem meira er: af nettólántökunum, afganginum, á þriðjungurinn að fara í annað og umfram það sem venjulega hefur verið mælikvarði hér á Íslandi, þ.e. framkvæmdir i orkumálum og í orkufrekum framkvæmdum. Þetta er hinn kaldi sannleikur þessa máls. Ég tel rétt, til þess að menn átti sig á því, hvað hér er um að ræða, að ítreka það enn og aftur, að með þessari vitlausu fjárfestingu — eins og í skipastólnum sem er stórkostleg dæmi — er verið að rýra lífskjör þjóðarinnar, ekki bara einu sinni, heldur tvisvar. Það er verið að gera það bæði með því að kaupa skipin og líka með því að ætla að vera með þau í rekstri, vegna þess að tekjurnar aukast ekki neitt og við höfum skipastól sem dugar til þess að taka þann afla sem við getum tekið úr fiskstofnunum.

Þessi kjararýrnunarstefna er það sem gegnumsýrir þetta þjóðfélag. Á sama tíma eru menn að möndla með það að lækka tolla á heimilistækjum og búa til svokallað tollafgreiðslugjald, sem nær yfir þetta og þetta margar vörur, og halda að þeir séu að leysa eitthvað. Það er fjarri öllum sanni. Meðan við hyggjum ekki að þessum grundvallaratriðum í gerð efnahagslífsins, hvort fjárfestingin beinist í réttar eða rangar framkvæmdir, meðan hún beinist eins og núna í óarðbærar framkvæmdir, þá mun ekki miða neitt í þessum efnum. Það stendur óhaggað að viðskiptahallinn á yfirstandandi ári samsvarar árslaunum 13 700 verkamanna í dagvinnu. Og það stendur óhaggað, að það lán, sem Ragnar Arnalds er að skrifa undir þessa dagana og á ekki að borga af fyrr en eftir fimm ár, er að verðmæti álíka hátt og allt íbúðarhúsnæði í kaupstöðum og kauptúnum í hans kjördæmi og á Höfn í Hornafirði að auki. Þetta er það sem hann er að gera.

Fyrir svo sem ári eða tæplega það hrósaði ríkisstj. sér af því, að það ríkti feiknalegt jafnvægi og þá alveg sérstaklega í viðskiptunum við útlönd. Nú er jafnvægið komið í ljós. Það er jafnvirði 13 700 árslauna verkamanna í dagvinnu í mínus.

Ríkisstj. er ekki að taka lán á árinu 1982 til þess að standa sérstaklega undir aukningu framkvæmda í orkumálum. Það er samdráttur upp á næstum því 9% í þeim málaflokki. En ég segi það enn og aftur, að grundvallaratriðið er að menn stjórni fjárfestingunni rétt og að menn sjái hvað þeir eru að gera, hvers konar stærðir þeir eru að ráðskast með, og horfi ekki bara á þetta sem samsafn af núllum, heldur sem raunveruleg verðmæti, eins og ég hef hér gert sérstaklega að umtalsefni. Hér er verið að hnýta þjóðinni stórkostlega bagga á sama tíma og menn eru að föndra í vísitöluleik.