26.02.1982
Efri deild: 49. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2691 í B-deild Alþingistíðinda. (2316)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Frsm. 1. minni hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Ég ætla að gera hér örstutta athugasemd, þakka forseta fyrir að fá tækifæri til þess. Ég held að það sé tilefni til þess, að deildin gefi sér tíma fljótlega til að ræða um þessar erlendu lántökur og framkvæmda- og fjárfestingarstefnuna í landinu.

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson fór hér mjög geyst og æstist mjög í ræðustólnum, svaraði að vísu ekki þeirri spurningu sem ég beindi til hans. Það er að vísu rétt hjá honum, að það má finna einstaka liði í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sem e.t.v. má deila um hvort eru rekstrarlega hagkvæmir. Það get ég alveg tekið undir. En upphæð þeirra liða er aðeins örlítið brot af heildarupphæð lánsfjáráætlunar hvað erlendar lántökur snertir. Ég fer að vísu með það hér eftir minni, en ég held að um 80% af hinum erlendu lánum, sem tekin verða á þessu ári, séu vegna framkvæmda í orku- og iðnaðarmálum, en hvorki vegna skipakaupa erlendis né heldur landbúnaðar, eins og hv. þm. var að víkja að áðan.

Það má kannske deila um einstaka liði innan þessara tæplega 20%. Sjálfsagt má finna þar ýmislegt. Ég gæti líka gert athugasemdir við ýmislegt þar. En það eru ekki stórar tölur í þessu heildardæmi. Og það er alveg rétt hjá hv. þm.. bæði Lárusi Jónssyni og Kjartani Jóhannssyni, að það hafa verið dregnar saman framkvæmdir í orkumálum og stóriðjumálum á þessu ári. Mér er það fyllilega ljóst, enda vakti ég sjálfur athygli á því áðan, þegar ég beindi þeim orðum mínum til þeirra, að mér hefði skilist að þeir stórauka þetta. Þess vegna spyr ég þessa ágætu herramenn: Á árinu 1983, þegar kemur að stóru framkvæmdatímabili í orkumálum og stóriðjumálum, ætla þeir þá ekki að taka líka erlend lán til þess? Verður þá ekki stóraukning líka á erlendum lánum?

Það er ekki kjarnaatriðið.í sjálfu sér, erlendu lántökurnar yfirleitt þó að auðvitað megi vekja athygli á ákveðinni þróun hvað snertir hlutfall þeirra af þjóðartekjum og greiðslubyrðinni. Grundvallarspurningin er um það, hvort hér er verið að ráðstafa fé á arðbæran hátt eða ekki. Það má vissulega benda á það, að sum af þeim lánum, sem tekin hafa verið hér vegna skipakaupa, séu vafasöm hvað arðbærni snertir. Ég get líka tekið undir það, að það er ekki braut sem hægt er ganga til frambúðar að taka erlend lán til að fjármagna útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir. En upphæðirnar, sem hér er um að ræða, eru svo örlítið brot af heildardæminu að jafnvel þótt við leiðréttum þessar skekkjur mundi heildardæmið mjög lítið breytast, vegna þess að meginþörfin er vegna framkvæmda á sviði orku- og iðnaðarmála sem mér hefur skilist að stjórnarandstaðan hér á Alþingi vildi stórauka á næstu árum — og þá væntanlega einnig taka erlend lán í því skyni — vegna þess að ég hef ekki heyrt nokkurn mann halda því fram, þrátt fyrir aukinn innlendan sparnað, að horfur séu á að unnt sé að fjármagna á næstu árum hinar stórfelldu framkvæmdir á því sviði án þess að taka erlend lán.