26.02.1982
Efri deild: 49. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2692 í B-deild Alþingistíðinda. (2317)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Frsm. 2. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það vottaði aðeins fyrir skilningi hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni á því, að ekki væri allt með felldu. En furðulega getur hann verið glámskyggn á tölur.

Í fiskveiðunum er spá um fjárfestingu á árunum 1981–82 upp á 780 millj. kr., á þessum tveimur árum. Ég treysti mér til að fullyrða að a.m.k. helmingur til tveggja þriðju af þessum 780 millj. séu algjör óþarfi. Og það sem meira er: að þær séu hinn raunverulegi baggi á þjóðinni til frambúðar sem menn eru að hnýta sér. Tveir þriðju hlutar af 780 millj. eru 500 millj.

Ég gerði það sérstaklega að umtalsefni, þegar lánsfjáráætlun var hér til meðferðar, að mér sýndist af þeim tölum, sem þar lægju fyrir, að það væri lágmarkskrafa að draga úr erlendum lántökum samkvæmt þessum áformum um 500 millj. kr. 780 millj. kr. sem ég taldi vera hrein eyðslulán.

Ég get nefnt hér aðrar tölur. Það er einn geiri hjá okkur sem hefur haft alveg sérstaka tilhneigingu til þess að vaxa. Það eru svonefndar byggingar hins opinbera. Ég er ekki sannfærður um að þær séu mjög arðbærar, og ég vitna í þessu sambandi í ræðu hv. þm. Geirs Gunnarssonar við afgreiðslu fjárlaganna um að aðhalds sé þörf á ýmsum sviðum í hinum opinbera rekstri. Þar eru 500 millj. kr. á árinu 1982. 20% af því eru 100 millj. kr. Þá værum við með framkvæmdir á svipuðu stigi og á árinu 1980 í staðinn fyrir þessa spá, sem er fyrir 1982, því að hún er u.þ.b. 20% hærri að magni til heldur en fyrir árið 1980. Það er svona aðhald sem menn verða að sýna.

Ég hef hér talið upp bara í tveimur málaflokkum fjárhæðir sem samsvara þeim stærðum, þeim tölum sem ég er að tala um. Þetta eru mál sem ég hef gert sérstaklega að umtalsefni. En ég vil leyfa mér að bæta við þessa upphæð þeim eyðslu- og fyrirgreiðslu- og hallærislánum sem ráðherrar Alþb. eru sveittir við að veita ýmsum atvinnurekendum úti um allt land af því að það á alltaf öllu að bjarga, alveg sama hvernig staðið er að rekstrinum. Og það hefur tvöföld neikvæð áhrif á íslenskan þjóðarbúskap: í fyrsta lagi að vera að úthluta þessu fé og í öðru lagi að gera menn óábyrga, þannig að þeir, sem betur kunna til verka, fari að feta í fótspor skussanna og sjá ekkert annað en það að geta fengið fyrirgreiðslu og sinna ekki eins vel og þeir ættu að gera um rekstur fyrirtækisins. Þarna er verið að brjóta niður þátt í rekstri atvinnulífsins, í rekstri þjóðarbúsins. Það er verið að brjóta niður móralinn og það hefnir sín líka.

Ég hef tekið hér nokkur dæmi svo að menn sjái hvers konar tölur hér er um að ræða og að þær tölur, sem ég hef gert hér að umtalsefni, eru auðvitað af því tagi að ríkisstj. á að taka á því. Þær fjárfestingar, sem hér er verið að fara í, eru óarðbærar og þetta er yfirstíganlegt verkefni.

Ég þarf ekki að fara lengra í upptalningu minni, herra forseti, heldur en þetta til þess að sýna fram á hvað hér er um að tefla.