28.10.1981
Efri deild: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

37. mál, söluskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Söluskattur er tvímælalaust einn mikilvægasti tekjustofn ríkissjóðs. Láta mun nærri að sölugjald að viðbættu orkujöfnunargjaldi, sem lagt er á sama stofn, skili um 35% af tekjum ríkissjóðs. Það er því feikilega mikilvægt að söluskattur skili sér með eðlilegum hætti í ríkissjóð og þar verði ekki mikil afföll. Auðvitað er aldrei hægt að koma í veg fyrir að einhver afföll verði, en beita verður öllum ráðum til að tryggja að þau verði sem allra minnst.

Skömmu eftir að ég tók við störfum sem ég gegni í fjmrn. skipaði ég nefnd sem falið var það hlutverk að gera till. um bætta og herta innheimtu söluskatts. Þessari nefnd var falið að endurskoða ákvæði um dráttarvexti og viðurlög við skattundandrætti og kanna öll önnur atriði sem horft gætu til að auðvelda eftirlit með söluskattsskilum. Nefnd þessi skilaði áliti síðla á s. l. vetri og gerði m. a. tillögur til breytinga á ákvæðum söluskattslaga og söluskattsreglugerðar. Vegna þess, hve skammt var þá eftir af þingtíma, reyndist ekki tiltækilegt að leggja þetta frv. fram á því þingi. En nú er það lagt fram sem eitt fyrsta mál þingsins og það er sannarlega von mín að það fái skjóta afgreiðslu hér á þingi.

Eitt af meginviðfangsefnum þessarar nefndar var að kanna hvort rétt væri að gera strangari kröfur til skráningar viðskipta í smásöluverslun. Um langt skeið hafa verið uppi hugmyndir um að skylda söluskattsskylda smásöluaðila til að hafa sjóðvélar, sem svo eru kallaðar, en áður hétu því einfalda nafni peningakassar, — skylda aðila til að hafa slíkar vélar sem hefðu innri strimil er skráði öll staðgreiðsluviðskipti viðkomandi aðila. Þegar á árinu 1974 var ráðh. veitt lagaheimild til að kveða á um slíka kassaskyldu. Staðreyndin er hins vegar sú, að menn hafa ekki verið á eitt sáttir um hvaða gagn væri að slíkum kössum eða hvernig ætti að nota þá til söluskattseftirlits. Hefur því heimildinni ekki verið beitt til þessa. Nefndinni var falið að kanna þessa hlið málsins sem rækilegast. Það varð niðurstaða nefndarinnar, að full ástæða væri til að gera ríkari kröfur en nú er til skráningar smásöluviðskipta. Hins vegar taldi nefndin tæplega réttlætanlegt að skylda alla aðila í smásöluverslun til að nota sjóðvélar eða peningakassa af þessari gerð, án tillits til aðstæðna hjá hverjum og einum. Því gerði nefndin að till. sinni að söluskattsreglugerð yrði breytt á þann hátt að nær allir þeir aðilar, sem undanþegnir eru skyldu til útgáfu númeraðra reikninga, skyldu skrá hverja innborgun jafnóðum og hún fer fram, annaðhvort á strimil í lokaðri sjóðvél eða á sérstaka fyrir fram tölusetta staðgreiðslusölulista.

Ef tillögum þessarar nefndar verður fylgt er því um að ræða þrenns konar skráningu á smásöluviðskiptum. Í fyrsta lagi kunna menn að vera skyldugir til, eins og nú gildir í stórum stíl, að gefa út númeraða reikninga fyrir hverja innborgun eða hver viðskipti. Eins og kunnugt er eru fjöldamargir aðilar sem sú skylda hvílir á. Um þá, sem eftir eru, gildir þá annað tveggja, að menn verða að kaupa sér þessa sérstöku tegund peningakassa eða sjóðvél, lokaða sjóðvél eins og hún er kölluð á fagmáli, ellegar að skrá hverja sölu í höndunum á fyrir fram tölusetta staðgreiðslusölulista. Þetta eru þær þrjár meginaðferðir sem allir smásöluaðilar verða þá skyldugir til að viðhafa. Má segja að þetta hljóti að stuðla beint og óbeint að því, að sem flestir fái sér lokaða stimpilpeningakassa af þessu tagi, enda þótt það sé ekki gert að skyldu. Hér er um mjög dýra kassa að ræða og því kannske ekki réttlætanlegt að menn, sem eru með lítil viðskipti, séu eindregið skyldaðir til að fá sér slíka kassa. En þeir verða þá í staðinn að handrita viðskiptin á þessa sérstöku staðgreiðslusölulista, svo fremi að þeir séu ekki beinlínis skyldugir til að gefa út númeraða reikninga, en það gildir auðvitað um fjöldamarga aðila eins og ég hef þegar sagt.

Í 7. gr. þessa frv. er lagt til að ráðh. sé heimilt að gefa út reglugerð um staðgreiðslusöluviðskipti. Vissulega eru til reglugerðarákvæði um þetta efni nú. En gert er ráð fyrir að greinin verði orðuð þannig að alveg sé ótvírætt að heimilt sé að kveða á um skyldu til slíkrar skráningar í reglugerð. Ef frv. það, sem hér er til umr., verður að lögum mun ég að sjálfsögðu beita mér fyrir útgáfu slíkrar reglugerðar hið allra fyrsta. Ég tel því að þessi hlið málsins sé mikilvægasta efnisatriði frv. og mikilvægasta breytingin sem gerð verður á söluskattslögum, þó að ég skuli fúslega viðurkenna að í grg. með frv. kemur þetta ekki skýrt fram. Það er mjög lítil grein gerð fyrir þessum þætti málsins í grg. og síður en svo að lesa megi það út úr henni að þetta sé aðalatriði málsins, að tekin séu upp ný vinnubrögð í sambandi við skráningu á staðgreiðsluviðskiptum. Grg. fjallar hins vegar um aðra þá þætti í söluskattslögum sem gerð er till. um að breyta. Ég mun nú víkja að þeim, en ítreka það og bendi mönnum á að hinn þáttur málsins er í raun sá mikilvægasti og mundi fela í sér mesta breytingu frá því sem nú er.

Viðamestu breytingarnar að öðru leyti, sem felast í þessu frv., eru tengdar viðurlögum við brotum á söluskattslögum og á söluskattsreglugerð. Núgildandi viðurlög eru í eðli sínu tvíþætt. Annars vegar er um að ræða sjálfvirk viðurlög án sakar við drætti á söluskattsskilum og skýrslugjöf. Þessi viðurlög eru nokkurs konar sambland af almennum dráttarvöxtum og refsikenndum viðurlögum. Þetta kerfi er talíð hafa reynst allvel og eru ekki gerðar tillögur til róttækra breytinga á því. Í 2. gr. frv. er þó að finna minni háttar orðalagsbreytingar á þeim ákvæðum laganna sem um þetta fjalla. Hins vegar er um að ræða ákvæði um eiginlegar refsingar sem ákveðnar skulu af ríkisskattanefnd eða dómstólum. Þessum ákvæðum, sem er að finna í 25. og 26. gr. núgildandi laga, er að dómi þeirrar nefndar, sem þetta mál hefur kannað, verulega áfátt. Eru því í 4. og 5. gr. frv. gerðar tillögur til róttækra breytinga á þeim. Þar er m. a. lagt til að sektarmörk við brotum á bókhaldsákvæðum söluskattslaga og reglugerða verði hækkuð mjög verulega, eða úr 100 þús. gkr. í 50 þús. nýkr., og sjá menn þá með einföldum reikningi að þarna er um að ræða fimmtugfalda hækkun á refsiviðurlögum. Slík breyting horfir mjög til þess að gera söluskattseftirlit skilvirkara. En staðreyndin er sú, að það gat jafnvel borgað sig fyrir menn að standa ekki skil á söluskatti á réttum tíma vegna þess hve refsiviðurlög voru léttvæg miðað við þá vexti sem tíðkast í þjóðfélaginu. Það gat verið betra að taka á sig viðurlögin og standa ekki skil á skattinum fyrr en einhvern tíma löngu síðar.

Í þessari brtt. er það gert ótvírætt, að heimilt sé að beita fésektum eða refsivist við brotum á lögunum, óháð því hvort álagi verður við komið, og að dráttur söluskattsskila milli mánaða innan ársins geti varðað refsingu auk álags. Allt stefnir þetta í þá átt að hvetja menn til að halda ekki eftir söluskatti, eins og óneitanlega virðast hafa verið nokkur brögð að og að menn hafi sloppið með það án eðlilegra viðurlaga. Þá er lagt til að ýmsar aðrar breytingar verði gerðar á viðurlagaákvæðunum og þau færð til samræmis við ákvæði XII. kafla laga um tekjuskatt og eignarskatt.

Í 6. gr. frv. er lagt til að skattstjórum verði árlega gert að semja og leggja fram söluskattsskrá fyrir hvert sveitarfélag í umdæmi sínu. Skýra lagaheimild hefur skort til slíkrar framlagningar til þessa, en ætla má að slík skrá gæti haft viss varnaðaráhrif og gæti leitt til betri skila á söluskatti. Er þá einkum haft í huga að besti eftirlitsaðili í sambandi við lögbrot af þessu tagi er að sjálfsögðu allur almenningur sem hefur áhuga á að réttlæti ríki í þessum málum. Ef almenningur á aðgang að söluskattsskrá getur hann oft gefið skattyfirvöldum ábendingar þegar eitthvað er þar grunsamlegt að sjá sem skattyfirvöld hafa kannske ekki sjálf komið auga á. Auk þess skapar þetta möguleika fyrir fyrirtæki til að bera sig saman og ætti frekar að stuðla að því, að fullu réttlæti sé framfylgt í innheimtu söluskatts.

Í 1. gr. frv. er lagt til að lögfest verði þau ákvæði sem nú eru í reglugerð um skil á söluskatti og söluskattsskýrslum. Ekki er lagt til að efnislegar breytingar verði gerðar á núverandi skilafyrirkomulagi, en telja verður að mun eðlilegra sé að svo mikilvæg ákvæði séu beinlínis í lögunum sjálfum.

Ég vil láta þess getið, hverjir sátu í nefnd þeirri sem undirbjó nál. og lagafrv. Það voru Árni Kolbeinsson deildarstjóri í fjmrn., Garðar Sigurðsson alþm., Garðar Valdimarsson skattrannsóknarstjóri, Geir Geirsson, Jón Hallsson og Jónas Gunnarsson. Árni Kolbeinsson var skipaður formaður nefndarinnar. Frá 7. júlí 1980 var Skúli Alexandersson skipaður í nefndina í stað Garðars Sigurðssonar sem baðst undan störfum í henni.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál, en vænti þess, að það fái góðar viðtökur og fljóta afgreiðslu hér á Alþingi. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn.