26.02.1982
Efri deild: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2711 í B-deild Alþingistíðinda. (2337)

214. mál, framhaldsskólar

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég hafði óskað eftir, að umr. yrði frestað, og hafði þá reiknað með að ráðh. yrði við til andsvara seinna. Ég tel að það hefðu verið betri vinnubrögð að leggja þetta frv. fram fyrr að vetrinum en orðið hefur. Má vera að eitthvað sérstakt hafi valdið því, að svo varð ekki. Það hefði vissulega verið betra fyrir þm., að svo hefði verið gert, og fyrir málið sem slíkt, því að það þarf afar vandaða meðferð, eins og menn hafa verið sammála um hér, og ef á að fara að leita umsagna vítt og breitt um landið, þá tel ég vafamál að frv. komist í gegn á þessu þingi.

Hitt er annað, að það er margt til bóta í þessu frv. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því. að margt, sem er í þessu frv. er nú þegar komið til framkvæmda og með þessari lagasetningu er stefnt að því að fella það inn í ákveðinn ramma.

Hér hefur komið fram í umr, að nauðsynlegt sé að fjármálahliðin liggi ljós fyrir þegar svona mál eru tekin til afgreiðslu. Ég vil minna á að það er beinlínis lagaskylda — ég verð leiðréttur ef svo er ekki — ég hygg að það sé lagaskylda að það liggi fyrir. Mig minnir að það sé í Ólafslögum svokölluðum. Það hefur ekki enn komið fram hvernig menn hugsa sér fjármálahliðina. Hér segir að farið skuli eftir eldri lögum með fjármálahliðina. En eitthvað þarf að vita um framtíðina í þessum efnum.

Ef við athugum kaflann um fullorðinsfræðslu kemur í hug að hér lá fyrir um tíma sérstakt frv. um fullorðinsfræðslu. Það fjallaði ekki aðeins um framhaldskólana, heldur alla fullorðinsfræðslu í landinu. Inn í það kom ákvæði um hvernig fara skyldi með fræðslustarfsemi samvinnuhreyfingarinnar og verkalýðshreyfingarinnar og ýmsa aðra fullorðinsfræðslu sem til er í landinu í dag. Mig langar til að spyrja: Hvað líður því frv.? Það er væntanlega ætlunin að afgreiða það mál í sérstöku frv., gera það að sérstökum lögum. En hér er kafli sem lýtur að því, að menn fái greiðari aðgang að fullorðinsfræðslu og geti í þeim tilvikum notað húsnæði ríkisins. Tel ég að það sé mjög þarft ákvæði í frv. En ég endurtek eins og fleiri hafa gert hér, að þetta frv. þarf afar vandaða meðferð, og eins og ráðh. gaf í skyn er kostur að flana ekki að lagasetningu í þessum efnum. Hitt er annað, að þetta má ekki tefjast of lengi. Það er beðið eftir þessum lögum víða um land.

Ég ætlaði ekki að halda til streitu frestunarbeiðni minni, vegna þess að ljóst er að það vinnst ekkert með henni ef ráðh. er að hverfa af þingi. Því fell ég frá því, að málinu verði frestað nú, og styð það um leið, að því verði komið til nefndar á þessum fundi.