28.10.1981
Efri deild: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

37. mál, söluskattur

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Ég hafði punktað hér hjá mér tvær fsp. varðandi þetta frv. Hv. 3. þm. Norðurl. e. kom inn á það nákvæmlega sama og ég ætlaði að spyrja um, en það var einmitt það fyrirkomulag sem nú er á innheimtu söluskatts, að aðilum er gert að standa skil á óinnheimtum söluskatti, þ. e. af heildarveltu án tillits til þess, hvort söluskatturinn er í raun inn kominn. — Það er staðreynd, að söluskattur er í hugum flestra skattur sem verið er að innheimta beinlínis fyrir ríkissjóð, og með tilliti til þess eru þetta sennilega einu aðilarnir í þjóðfélaginu sem njóta ekki innheimtulauna af störfum sínum fyrir ríkissjóð. Varðandi þessa sjóðvél, eða hvað þar var kallað, kom þetta einmitt upp í huga minn. Þarna er verið að tala um aðferð til að auðvelda þessa innheimtu fyrir ríkissjóð. Er þá ekki eðlilegt að það sé ríkissjóður sem kosti þessi áhöld fyrir söluaðilana til að gera þeim auðveldara að innheimta fyrir ríkið?

Ég vil aðeins árétta þessar tvær spurningar.