26.02.1982
Neðri deild: 47. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2721 í B-deild Alþingistíðinda. (2342)

211. mál, verðlag og samkeppnishömlur

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. það til laga um breyt. á lögum nr. 56 frá 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, sem hér er á dagskrá er að mínu mati og margra annarra, sem viðskiptum eru kunnugir, nokkuð til bóta, en þó er hér ekki nógu langt gengið. Ég lít á þetta sem vissa viðurkenningu og vissan árangur af margra ára þrotlausu starfi þeirra sem eru innan vébanda Verslunarráðs Íslands, og ég fagna því, að Alþb.-menn skuli hafa á vissan hátt verið píndir til að ganga svo mjög á skoðanir sínar að samþykkja að vera meðflm. að þessu frv. En þó var að heyra á hæstv. félmrh., þegar hann flutti ræðu sína fyrir nokkrum dögum, að það skref, sem þarna er stigið, hafi ekki verið tekið af fúsum og frjálsum vilja, heldur sé það tekið til að halda einhvers konar samvinnu innan ríkisstj., því sjaldan hef ég heyrt mann tala bæði með og á móti sama stjfrv. af eins miklum eldmóð — og þó heldur meira á móti — og hæstv. félmrh. þegar hann tók til máls í annað sinn á þeim fundi.

Annars verð ég að gera athugasemd við málsmeðferð. Við erum 60 þm., og þegar ríkisstj. leggur fram frv. er allt að því óþolandi að ráðh. skuli taka svo mikið af umræðutíma Alþingis þann dag, sem aðalumr. fara fram við 1. umr., að venjulegir þm. fái ekki tíma til að segja eitt einasta orð. Ráðh. stóð hér upp hvað eftir annað um daginn, og áður en nokkur vissi af var fundartíminn liðinn og fundi slitið. Síðan koma blaðafregnir á borð við það sem birtist í Þjóðviljanum, eins og enginn annar þm. hafi neitt haft við þau ummæli að athuga.

Ég álít að þetta frv. sé þó nokkur árangur af mikilli vinnu Verslunarráðs Íslands í langan tíma í frjálsræðisátt. Ég harma að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson er ekki i salnum. Ég ætlaði að tala nokkur orð til hans. — Þetta frv. gengur þó ekki nægjanlega langt í frjálsræðisátt. Þá á ég að sjálfsögðu við það sem segir í 4. gr. frv., að Verðlagsráð, — með leyfi forseta — getur tekið ákvarðanir um breytingar á þessum samþykktum, og þegar samkeppni er að mati ráðsins nægileg til þess, að tryggja æskilega verðmyndun og sanngjarnt verðlag getur það fellt verðlagningu á vöru og þjónustu undan verðlagsákvæðum. Mér er spurn enn þá einu sinni: Hvað vantar á að samkeppnin sé nægjanleg í landinu til þess að verðmyndun geti verið frjáls? Ég get ekki ímyndað mér að það vanti nokkurn skapaðan hlut á. Hér á landi er meira gert til að hafa eðlilega samkeppni og eðlilega frjálsa verðmyndun en í nokkru öðru landi sem ég þekki til því að hvergi eru samtök fólksins — Samband ísl. samvinnufélaga er nú oft nefnt — sterkari en hér á landi.

Samkv. upplýsingum, sem forustumenn samvinnuhreyfingarinnar hafa nýlega gefið í sjónvarpi, eru 42 þús. félagar — ekki viðskiptavinir, heldur félagar — í sambandi kaupfélaga um land allt. Það er stór hluti af þjóðinni. Auk þess er gríðarlega mikill fjöldi sem verslar við Sambandið og kaupfélögin. Enginn af þeim milliliðaþáttum, sem eru í verðmynduninni hjá Sambandinu, er utan samvinnuhreyfingarinnar. Allir milliliðaþættir: þóknun, gróði eða hvað sem þið viljið kalla það — er inni í verðmyndunarkeðju Sambandsins. Ég hef áður rakið það hér, að Sambandið gerir sameiginleg innkaup með stórum aðilum erlendis og á aðgang að hæsta afsláttarmagni, flytur yfirleitt vöruna með eigin skipum, er með eigin vinnuflokka til að skipa upp úr skipunum og vinna að lestun og losun, hvort sem það er frá útlöndum eða úr vöruskemmum hér til sendinga út á land. Þeir flytja það yfirleitt með eigin flutningatækjum, þeir geyma vöruna i eigin vörugeymslum og dreifa henni í eigin verslanir, selja mest til eigin félagsmanna og markaðurinn er þar með tryggður að verulegu leyti fyrir fram. (Gripið fram í: Tryggja það með eigin tryggingafélagi.) Tryggja það með eigin tryggingafélagi o.s.frv. Með þessu fyrirkomulagi er enginn milliliðakostnaður í starfsemi Sambands ísl. samvinnufélaga og kaupfélaganna, en hann er mjög þungur á öllum þessum stigum hjá hinum frjálsu innflytjendum, hinum mörgu smáu innflytjendum og dreifendum vöru í landinu. En þó er verðið hjá þessum dreifingaraðilum og jafnframt innflytjendum þ.e. sambandinu ekkert lægra en hjá öðrum innflytjendum á frjálsa markaðinum sem þurfa á öllum stigum að bera þennan milliliðakostnað. Aðstæður til að gefa verðmyndunina frjálsa eru því fyrir í landinu. Ég er ekki að segja að hér eigi að breyta einhverju. Ég held að Sambandið hafi gert margt gott.

Það er alveg augljóst að einmitt verðlagseftirlitið, eins og það hefur verið rekið, hefur haldið uppi vörunni og komið í veg fyrir þá samkeppni sem gæti lækkað vöruverð og kannske bætt þjónustu við neytendur. Það er alveg augljóst. Því segi ég: Hvað er því til fyrirstöðu að verðmyndunin verði gefin frjáls þegar i stað — eða hvað þarf til viðbótar samtökum innflytjenda og vörudreifenda til þess að verðmyndunin geti orðið frjáls? Er ekki nóg að hafa 42 þús. fasta meðlimi innan þessa hrings og til viðbótar þá aðra sem versla við kaupfélögin og samvinnuhreyfinguna? Hver þarf prósentutalan af þjóðinni að vera í samtökum samvinnumanna til þess að verðmyndunin geti verið talin frjáls ef aðstæður skapast til að gefa hana frjálsa? Þetta er umhugsunarefni og ég held að menn ættu að fara að átta sig á hvað hér er um að vera. — En það er enginn í hinum frjálsu samtökum sem óskar eftir breytingu á starfsemi Sambands ísl. samvinnufélaga eða láir því eða lastar það fyrir starfsemi þess. En við viljum að samkeppnin verði gefin frjáls til þess að það komi þá í ljós, hvort hinir mörgu smáu, sem borga allan milliliðakostnaðinn, gætu hugsanlega lækkað vöruverðið ef frelsi ríkti. En ef það er rétt, sem kemur fram hjá hæstv. ráðherrum, sérstaklega hæstv. félmrh., í forsíðugrein eftir síðustu umr., þar sem enginn fékk að svara, að heildsalafjöldinn sé baggi á þjóðinni, með leyfi forseta, hvað er þá mikið umfram í innflutningsverslun hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga? Verðið — útsöluverðið, verð til neytenda — er ekki lægra hjá samvinnuhreyfingunni en hjá hinum frjálsa innflytjanda.

Undirfyrirsögn hérna, með leyfi hæstv. forseta, er svona: „Gróði heildverslunar er ekki áhyggjuefni Sjálfstfl.“ Menn grípa til svona slagorða og að einhver ákveðinn stjórnmálaflokkur eða stjórnmálamenn hafi gróðann að leiðarljósi, eins og segir hér, með leyfi forseta, að sjálfstæðismenn ættu sér eitt leiðarljós að markmiði, leiðarljós gróðans. Hvílík málefnafátækt að grípa til meiningarlausra slagorða sem eiga að ná til flokksbundinna manna í Alþb., bara vegna þess að fólki í landinu, sem hingað til hefur stutt stefnu og vinnu Alþb. í ríkisstj., er farið að leiðast þófið og Alþb. er að tapa fylgi. Það verður að fara að koma eitthvað fram einhvers staðar sem getur talist bitastætt í málflutningi og aðgerðum. Þarna var loksins eitthvað. Það er verslunarstéttin og þá að sjálfsögðu gróði, einhver óheiðarleg vinnubrögð. Þá er tækifæri til að koma því á Sjálfstfl. En þetta er málflutningur sem nær ekki til hugsandi manna og er ráðherrum lítið til sóma að grípa til svona málflutnings í málefnafátækt sinni.

Ég held, eftir að hafa hlustað á hæstv. viðskrh. og kannske hæstv. félmrh. tala um sama málið, að það sé verulegur ágreiningur innan ríkisstj. um þetta mái. Ég hefði gaman af að fá svar við því frá báðum þessum ágætu ráðh., hvort það er rétt mat hjá mér, að um þetta mál sé ágreiningur. Ágreiningurinn felst í því að sjálfsögðu, að annar aðilinn vill heldur meira frelsi og hinn aðilinn vill alls ekki neitt frelsi. Frelsi, frelsi hugsjónamanna og þá alveg sérstaklega frelsi einstaklingsins, er vopn í höndum einstaklingsins. Þetta hættulega vopn, frelsið, má ekki afhenda einstaklingum og síst af öllu þeim vondu mönnum, sem stunda þjónustu í okkar ágæta landi við landsmenn alla þegar um aðflutning á nauðsynjavörum er að ræða.

Alþb. er auðsjáanlega enn þá, þrátt fyrir náið samstarf við lýðræðisflokka — og þar eru ágætismenn, sjálfstæðismennirnir, í ríkisstj. með þeim, — það er enn með þennan gamla hugsunarhátt um ríkisforsjá á öllum sviðum á bókstaflega öllum sviðum. Og það er ekki nóg. Að sjálfsögðu þarf ég ekki að taka fram að slíkur hugsunarháttur er andstæður mínum lífsskoðunum. Ég er á móti þessum ríkisafskiptum og tel að einkarekstur eða hlutafélagsrekstur á sem flestum sviðum geti miklu betur gegnt hlutverki sínu en ríkisreksturinn, og orðið til blessunar.

Í sama Þjóðviljablaði sem ég minntist á áðan, það er dagsett 23. febr., og vitnað í málflutning hæstv. félmrh., er talað um að Innkaupastofnun ríkisins verði einkainnflutningsaðili á timbri. Hvað erum við að fara marga áratugi aftur í tímann í viðskiptaháttum? Við erum búin að reyna viðtækjaeinkasölu, við erum búin að reyna bifreiðaeinkasölu, við erum búin að reyna ýmislegt slíkt. Allt hefur þetta reynst illa. (Gripið fram í: Nei.) Það er ekki rétt að taka svona einstaka vöruflokka út úr og þá samkeppnina út úr innkaupunum, en það er mjög mikil samkeppni i innkaupum á timbri frá hinum ýmsu löndum. Reyndar kemur það í ljós ef menn skoða hvaðan þessi vörutegund er flutt. Stundum er hún flutt vestan frá Kanada og þó oftast nær frá Evrópulöndum, einkum Norðurlöndum. Þá eru mjög miklar sveiflur á timburverði í ýmsum löndum á heimsmarkaðinum frá degi til dags. Mér er alveg óskiljanlegt að ætla að fara að gera þennan vöruflokk að einhvers konar einkasölufyrirbæri hér heima fyrir, miðað við þá reynslu sem fengin er af einkasölum sem hér hafa verið.

Hitt er annað mál, að hvað varðar annan vöruflokk hefði kannske mátt breyta fyrirkomulaginu. Ég á ekki við einhvers konar einkasölufyrirbæri, heldur að erlendum aðilum verði gert að skyldu að hafa hér birgðir án þess að ríki eða einstaklingar fjárfesti eina einustu krónu. Það er olían. Hana eiga olíufélög að geyma í okkar landi án þess að við höfum nokkurn kostnað af því. Við Íslendingar eigum að kaupa af þeim tönkum eins og um tollvörugeymslu væri að ræða, og allur fjármögnunarkostnaður, sem við nú berum, ætti að hverfa. Ef olíufélögin fást ekki til að hafa hér birgðir sem við kaupum af eftir þörf, við getum skyldað þau til að hafa hér ákveðnar birgðir til ákveðinna mánaða, þá á að bjóða út á heimsmarkaðinum markaðinn hér heima fyrir. En eins og við stöndum er þetta baggi, ekki bara á olíufélögunum og þjóðfélaginu öllu, heldur á bankakerfinu, langt umfram það sem nokkurs staðar þekkist annars. Hugsunarvillur eru því áfram í öllum málflutningi viðkomandi ráðh, ég á við félmrh. í þessu tilfelli.

Ég harma að finna í málflutningi hæstv. félmrh. hér á dögunum að hann telji þetta varhugavert frv., þrátt fyrir að hann mæli óbeint með því, vegna þess að í því felst aukið frelsi. Það er alveg furðulegt að menn skuli sjá einhverja hættu í frelsi einstaklingsins og þá sérstaklega á sviði viðskipta. Íslendingar eiga ekki árið 1982 að taka við frelsi á einhverju sviði í smáskömmtum. Frelsi á ekki að tala um eins og það sé vont.

Þá taldi hæstv. ráðh. að prósentuálagning á vörur væri röng og hana ætti að afnema. Það getur út af fyrir sig verið rétt hjá ráðh. Og hún hefur verið afnumin. Verslunaraðilar hafa þurft að taka við svokallaðri krónutöluálagningu sem 30% reglan gilti um. En af hverju er verið að setja þessi höft á fyrirtæki og einstaklinga, en ekki ríkið? Af hverju ná ekki sömu lög yfir ríki og einstaklinga? Hvað á að þýða að halda áfram með prósentuálagningu fyrir ríkið, en svo krónutöluálagningu fyrir einstaklinga? Og hvað þýðir þessi aðgerð? Krónutöluálagningin er frysting á álagningu, á að vera til þess að sporna gegn verðbólgu. En prósentuálagningin heldur áfram hjá ríkinu. Það þýðir að erlendar hækkanir, þ.e. sá erlendi innflutti vandi, eru skattlagðar af ríkinu. Maður skyldi ætla að ríkið léti sér nægja krónutöluálagningu líka, en ekki aldeilis. Ríkið þarf alltaf meira. Ríkið er óseðjandi. Það getur aldrei hagað sér og hefur ekki efni á að haga sér eftir þeim lögum sem það setur sjálft. Þetta er alvarlegt umhugsunarefni.

Hæstv. viðskrh., sem er einnig bankamálaráðh., kom lauslega í málflutningi sínum að niðurtalning og niðurtalningaraðferðinni svokölluðu til að ráða bót á verðbólgunni og kom þar lítið, en þó kom hann að ráðstöfunum sem hafa verið gerðar í peningamálum. Hv. 10. þm. Reykv. gerði þetta að nokkru umræðuefni, og ég ætla ekki að endurtaka það sem hann sagði, en ég tek fram að ég er honum hjartanlega sammála. Það er eitt sem hæstv. bankamálaráðh. verður að skilja, og ég fer þar eftir yfirlýsingum sem þjóðbankastjórar hafa gefið. Er það ætlun ríkisstj. og Seðlabankans að undirstrika þá stefnu ríkisstj. og Seðlabankans — það er ekki stefna þess banka sem mér hefur verið trúað fyrir af hv. Alþingi — að loka peningana inni, hvort sem það er með skuldabréfasölum eða á annan hátt, draga þá inn í seðlabankann og setja þá út bakdyramegin í ríkishítina? Ef það á að vera markmiðið að loka peningana inni og fólkið og fyrirtækin úti, þá er sú stefna röng vegna þess að peningarnir eru vinnutæki þjóðarinnar, fyrirtækjanna og fólksins. Þetta þýðir ekkert annað en það, að frestun verður á öllum framkvæmdum og öllu því sem nauðsynlegt er til að venjuleg þróun eigi sér stað hér á landi eins og alls staðar annars staðar. Einhvern tíma kemur að því, að slík stefna veldur sprengingu í efnahagskerfinu, sem við ráðum illa eða alls ekki við. Það skiptir kannske núv. ríkisstj. ekki nokkrum sköpuðum hlut. Það verður kannske önnur komin til að leysa þann vanda. En þetta er mál sem ekki er hægt að líta fram hjá.

Ég ætla að ítreka að skoðun mín er sú, að með þessu frv. sé búið að opna vissar dyr til frelsis. Hvort fyrirtækin eða þjóðin fær að komast inn fyrir þröskuldinn í átt til frelsis í verðmyndun, frelsis á sviði viðskipta, skal ósagt hér og nú. Eins og kom fram áðan hjá hv. 10. þm. Reykv. fer það eftir framkvæmdinni og eftir því hvor skoðunin verður ofan á, skoðun hæstv. félmrh. eða skoðun hæstv. viðskrh., um hvernig framkvæmdinni skuli hagað.