26.02.1982
Neðri deild: 47. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2725 í B-deild Alþingistíðinda. (2343)

211. mál, verðlag og samkeppnishömlur

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég kvaddi mér aðallega hljóðs vegna ræðu hv. 3. þm. Reykv. sem talaði áðan. Hann kvartaði nokkuð yfir því, að ráðh. hefðu tekið mikinn tíma í upphafi máls síns í umr. á dögunum. Ég vil láta það koma fram í sambandi við það, að það var ósk forseta, vegna þess hvernig mál væri hér á ferðinni, að fyrst í umr. töluðu fulltrúar allra flokka, áður en umr. hæfust að öðru leyti. Það var þess vegna sem ég talaði strax í upphafi, vegna þess að ég var að gera grein fyrir afstöðu Alþb. til þess frv. sem hér er á dagskrá um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti og breytingu á lögum í þeim efnum.

Hv. þm. ræddi málið vítt og breitt og mætti sjálfsagt nokkuð margt um það segja sem hann sagði í ræðu sinni. Hann fjallaði nokkuð um orð mín varðandi það, að innflutningsverslunin væri baggi á þjóðarbúinu, eins og Þjóðviljinn hafði rétt eftir mér daginn eftir umr. hér í þinginu, og taldi að þar væri mjög ranglega með farið. Ástæðurnar fyrir því, að ég flutti þessa skoðun, voru ekki einasta þær, að ég tel að það eigi að vera almenn stefna ríkisstjórnar og stjórnmálaflokka í landinu, sem vilja taka á málum með ábyrgum hætti, að draga sem allra mest úr milliliðakostnaði í þjóðfélaginu. Það á að vera almenn stefna. Ég hélt að það væri stefna allra stjórnmálaflokka að draga úr milliliða- og dreifingarkostnaði í þjóðfélaginu þannig að það verði meira til skiptanna til annarra þátta. Hv. þm. Albert Guðmundsson gaf fyllilega í skyn að það væri í raun og veru ekki hans stefna, heldur ættu þessir aðilar að hafa allt sitt á þurru meðan þrengt væri að öðrum í þjóðfélaginu, eins og t.d. kaupmætti almennings og framleiðsluatvinnuvegunum, svo ég nefni dæmi. Ég tel að leggja eigi á það höfuðáherslu sem almenna viðmiðun að draga úr milliliðakostnaði í þjóðfélaginu. Við eigum að spara þar eins og mögulegt er. En fyrir utan þá ástæðu, sem felst í þessum almennu viðhorfum mínum, lágu á bak við orð mín einnig þær ástæður, að ég hef undir höndum könnun sem gerð var á innflutningsversluninni árin 1978 og 1979. Það koma fram býsna alvarlegir hlutir og það er ekki hægt að líta fram hjá þeim í þessum umr. rétt eins og þeir séu bara búnir til af einhverjum vondum kommúnistum. Hér var um að ræða könnun sem unnin var með mjög heiðarlegum og vönduðum hætti af Verðlagsskrifstofunni á sínum tíma. Helstu niðurstöður þessarar könnunar, sem Georg Ólafsson verðlagsstjóri stýrði, voru þessar:

1. Niðurstöður þessarar athugunar gefa til kynna að sú vísbending um hærra innkaupsverð til Íslands en til hinna Norðurlandanna, sem fram kom í samnorrænni verðkönnun 1978, eigi við rök að styðjast.

2. Þær orsakir eða áhrifaþætti, sem virðast einkum valda þessum verðmun, má flokka í umboðslaun, milliliði, óhagkvæmni, fjármagnskostnað og sérstöðu landsins.

3. Verulega virðist vanta á að erlend umboðslaun skili sér í íslenska gjaldeyrisbanka, sem skilað er í banka, og þeirra, sem talin eru fram til skatts, má ætla að vanskil á umboðalaunum hafi í för með sér undanskot á tekjum til skatts.

4. Með markvissum skammtíma- og langtímaaðgerðum má bæta þá óheilbrigðu viðskiptahætti, sem viðgengist hafa í innflutningsversluninni, og lækka með því vöruverð og draga úr gjaldeyriseyðslu.

Þessar voru hinar almennu niðurstöður þessarar könnunar á sínum tíma sem verðlagsstjóri vann. Eins og menn tóku eftir flokkar hann verðmuninn á innflutningsverði til Íslands og annarra Norðurlanda í ákveðna þætti, og það er nokkuð fróðlegt að sjá hvernig þessir þættir koma út. Þetta er nefnilega reiknað út mjög nákvæmlega í þessari skýrslu.

Þar kemur fram að á árinu 1978 var heildarinnflutningur til landsins 125 milljarðar gkr. Umboðslaun eru talin vera 7.5 milljarðar gkr. Svokölluð óhagkvæmni er talin vera 3 milljarðar gkr. Kaup í gegnum erlenda milliliði eru talin valda hækkun á innflutningsverði til Íslands um 5 milljarða gkr. árið 1978. Fjármagnskostnaður er talinn valda þarna u.þ.b. 3 milljörðum gkr. og sérstaða landsins er metin á 3 millj. gkr. Samtals var munurinn á þessu eina ári 21.5 milljarðar gkr. Menn geta ekki gengið fram h já svona staðreyndum og yppt öxlum og sagt þetta allt í besta lagi. Það er ekki allt í lagi þegar útkoman er með þessum hætti. Og það, sem ekki síður er alvarlegt, er að í þessari skýrslu er fullyrt að umboðslaun hafi ekki skilað sér að fullu og öllu. Í ákveðinni töflu i skýrslunni kemur það fram, á bls. 9, að vantað hafi á árinu 1978 umboðslaun upp á 2.3 milljarða, sem hafa ekki verið skilað, og á árinu 1977 umboðslaun upp á 1.8 milljarða.

Hér á landi eru hundruð manna að vasast í heildverslun. Hér eru fleiri menn í heildverslun en nokkurs staðar annars staðar. Þetta er dýrt kerfi. Ég hélt að þeir, sem vildu að fjármunir landsmanna nýttust sem best, hlytu að vera sammála um að þetta væri of dýrt kerfi þegar það kostar það, að við þurfum að borga 20 milljörðum kr. meira fyrir innflutning til landsins árið 1978 en ella hefði þurft að vera. Hér er um hrikalegar tölur að ræða. Það er gersamlega útilokað fyrir Alþingi Íslendinga eða talsmenn stjórnmálaflokka eins og Sjálfstfl. að ætla sér að yppta öxlum yfir þessum tölum og láta sem ekkert sé. Og það er gersamlega útilokað fyrir talsmenn Sjálfstfl. að halda því fram, að hér sé verið að finna eitthvað upp til að bjarga stöðu eins eða neins. Hér liggja fyrir framan alla þá, sem vilja lesa, blákaldar staðreyndir í þessu máli, að innflutningsverslunin var sannanlega baggi á þjóðarbúinu upp á 20–25 milljarða kr. árið 1978. Þess vegna eru þetta ekki slagorð, heldur staðreynd, sem hér er flutt.

Hér eru menn iðulega að kvarta yfir þeim miklu útgjöldum sem ríkið hefur t.d. af landbúnaðinum. Það er eðlilegt að menn séu hugsi út af því. Það er einnig oft talsvert mikið rætt um af ýmsum mönnum úr öllum stjórnmálaflokkum að það sé ekki farið nógu vel með fjármunina í sambandi við sjávarútveginn, þar sé sums staðar farið illa með fjármuni, fjárfesting sé þar víða óhagkvæm og óskynsamleg. Það er rétt, svo er víða. En þegar kemur að því að gagnrýna innflutningsverslunina í landinu er ekki lengur samstaða meðal manna. Þá tekur tiltekinn hópur manna sig út úr, talsmenn Sjálfstfl., og leggst í miskunnarlausa vörn, hvað sem tautar og raular og hvað sem staðreyndum líður, fyrir þann kross á þjóðarbúi okkar sem innflutningsverslunin er. Auðvitað verða einhverjir að flytja vörur hingað inn til landsins. Auðvitað verður að sjá fyrir slíku þannig að það sé sem allra hagkvæmast. En það er ekki þar með sagt að hvað svo sem þessi innflutningsverslun kann að taka upp á að gera þá eigum við bara að hneigja okkur og segja „amen“. Og það geta talsmenn Sjálfstfl. ekki heldur gert ef þeir horfa á málið með raunsæjum hætti.

Ég er ekki að tala um ríkisforsjá á öllum sviðum, eins og hv. þm. Albert Guðmundsson nefndi áðan. Það eru ekki mín orð. Það er ekki mín tillaga. Ég er að segja það, að ég vil að innflutningsverslunin til Íslands sé hagkvæmari og ódýrari fyrir þjóðarbúið en verið hefur, þannig að við höfum meira til skiptanna til framleiðsluatvinnuvega okkar, til almannatrygginga, til félagslegrar samhjálpar, til heilbrigðismála, til skólamála, til menntamála.

Hér er ekki verið að leggja það til í sambandi við umræður um Innkaupastofnun ríkisins, sem dragast nokkuð inn í þetta, að það verði tekin upp einkasala í innflutningi á timbri og ég veit ekki hvað og hvað. Það er ekki það sem ég var að ræða um á dögunum. Það, sem ég var að ræða um varðandi Innkaupastofnunina, var fyrst og fremst að komið hefur fram að stórir innflytjendur hafa verið um langt árabil með föst innkaupatengsl við tiltekin erlend fyrirtæki og þessi tengsl hafa staðnað. Menn hafa sætt sig við svo að segja það verð sem hið erlenda fyrirtæki ákvað á hverjum tíma. Menn hafa ekki verið menn til að rífa sig út úr þessum samböndum og leita eftir tilboðum frá öðrum fyrirtækjum sem jafnvel fluttu út ódýrari vöru. Þetta hefur margoft gerst. Það kom t.d. fram fyrir nokkrum árum, að Samband ísl. samvinnufélaga hafði keypt inn hveiti í verulegum mæli sem kom í ljós að var mun dýrara en annað hveiti, sem kostur var á og Landssamband bakarameistara tryggði sér eftir öðrum samböndum. Þannig vilja menn staðna á þessum sviðum eins og öðrum. Það er verið að tala um það varðandi Innkaupastofnun ríkisins að nýta hana til að veita mönnum aðhald, — samkeppni, ef menn vilja kalla það því nafni.

Hitt er aftur ljóst, að ákveðnir þættir í okkar þjóðarbúskap eru undir félagslegri forsjá. Það er enginn ágreiningur um það. Það er enginn ágreiningur um að orkuverin eigi t.d. að vera í eigu landsmanna sjálfra og orkubúskapurinn. Það er enginn ágreiningur um það og dettur engum manni í hug að leggja það til, að einkafyrirtæki verði látin reka tilteknar rafveitur eða hitaveitur. Það dettur ekki nokkrum manni í hug. Það hefur aldrei komið fram. Af sömu ástæðum er það sem við höfum sagt, Alþb.-menn og fleiri, m.a. Alþfl.-menn: Það á að reka olíufélögin eða olíuverslunina í landinu á félagslegum grundvelli þannig að hún sé undir ríkisforustu eins og annar orkubúskapur landsmanna. — Þetta er auðvitað mál sem menn þekkja og er verulegur ágreiningur um. Framsfl. hefur aldrei verið tilbúinn að taka á þessum olíumálum. Hann hefur staðið nokkuð fast á því, að olíufélögin eigi að vera eins mörg og þau nú eru og þar mætti í raun og veru ekkert laga. Það er búið að gera margar tilraunir til þess í mörgum ríkisstjórnum að fá Framsfl. til að laga þetta aðeins. Það hefur ekki gengið. Hann vill hafa þetta svona. Hann vill hafa þarna sitt Olíufélag hf. Sjálfstfl. hefur auðvitað Shell. Það þekkja menn. Hann er þar í vörn. Formaður Sjálfstfl. er þar einn af stærri hluthöfum. Þannig eru hagsmunaþræðirnir inn í stjórnmálaflokkana, bæði Framsfl. og Sjálfstfl. Þess vegna hefur ekki tekist að þoka þessum olíumálum neitt áleiðis í þá veru að olíuverslunin í landinu verði undir félagslegu forræði.

Hv. þm. Albert Guðmundsson talaði mikið um frelsi og sagði að ég væri á móti frelsi. Þetta er næstum eins og maður heyrir stundum í fjölmiðlum og sér í blöðum sögur af því, að „blaðamenn“ í Sovétríkjunum ganga fyrir einstaklinga, sem koma til Sovétríkjanna, erlenda gesti, og segja: Ertu með eða á móti friði? — Hv. þm. Albert Guðmundsson setur þessi mál upp þannig, að hér sé um að ræða ágreining um frelsið sjálft, þetta stóra og mikla markmið okkar allra. En spurningin um frelsi er ekki svona. Spurningin er: Um frelsi hvers erum við að tala? Erum við að tala um frelsi þess sem hefur hina sterku stöðu, selur vöruna og réttir hana yfir búðarborðið á hverjum tíma, eða erum við að tala um frelsi almennings sem verður að sæta þeim kostum sem verslunin býður á hverjum tíma? Hvert var frelsi þess manns sem þurfti á sínum tíma að skipta við einokunarverslunina hér í landinu, hina erlendu umboðsverslun? Hvert er frelsi þess manns sem þarf um þessar mundir að ganga í verslanir og sæta því verði sem ákveðið er hinum megin við diskinn? Þegar við erum að tala um þetta erum við að tala um að leggja áherslu á að verja frelsi þess sem hefur allajafna lakari stöðu í skiptum tveggja aðila. Við erum að tala um styrkari stöðu þess manns m.a. með neytendavernd, með verðlagseftirliti, með lögum og reglum um afborgunarkaup í landinu o.s.frv. Hér erum við ekki að tala einhliða um frelsi þess manns sem stendur á bak við diskinn og skammtar hinum það sem honum þóknast. En það hvarflar stundum að mér, að það sé það frelsi sem hv. talsmenn Sjálfstfl. eru að biðja um. Þó trúi ég ekki að svo sé í raun. Ég held að þeirra áherslur í þessum efnum, sumra hverra a.m.k., stafi miklu frekar af misskilningi og utanbókarlærðum kennisetningum úr stjórnmálaskólum Heimdallar en að þeir séu að heimta að sá, sem á bak við diskinn stendur á hverjum tíma, eigi að geta hirt það sem honum sýnist af þeim sem verður að versla við hann.

Hugmyndir okkar um verðlagslög og verðlagsreglur eru fyrst og fremst til að verja aðstöðu þess sem veikari er á hverjum tíma, og það gerist með því að takmarka gróðafrelsi hins aðilans. Þannig liggur í þessu. Spurningin er þá, þegar allt kemur til alls, annars vegar um frelsi fólksins og hins vegar um frelsi fjármagnsins. Þannig liggja þessi mál og hafa lengi legið. Skiptir þar engu í rauninni hvernig ríkisstjórnir eru skipaðar í landinu á hverjum tíma vegna þess að hér er um að ræða þær grundvallarandstæður sem ævinlega leikast á í okkar þjóðfélagi.

Hv. þm. Albert Guðmundsson hefur haldið um það margar ræður hér á Alþingi að ríkið eigi að taka krónutölu í sínum innflutningi, það eigi ekki að vera að skattleggja innfluttan vanda. Ég hef oft hugleitt þetta hjá hv. þm. Mér finnst margt óskynsamlegra en að það séu settar fastar reglur. En þá verða menn líka að fallast á að það verði tekin upp krónutöluálagning í innflutningsversluninni. (Gripið fram í.) Nei, það er prósentuálagning í innflutningsversluninni, hv. þm. 30% reglan kemur þessu máli ekki við. 30% reglan er skerðing á verðlagningarprósentunum á hverjum tíma, en eftir sem áður gildir prósentureglan. Ef hv. þm. er þeirrar skoðunar, að það eigi að setja krónutölureglu þarna á ríkið, hlýtur hann þar með að vera að lýsa stuðningi við þá skoðun mína, að það eigi að setja krónutölureglu á innflutningsverslunina.

Það er ekki krónutöluregla á innflutningsversluninni. Það hélt ég að hv. þm. Albert Guðmundsson vissi miklu betur en ég. Þar er um að ræða prósentuálagningu eins og viðast hvar annars staðar, m.a. í smásöluversluninni hér á landi. Þessi álagning hefur í för með sér að sá maður, sem flytur dýrt inn, fær fleiri krónur í sinn vasa en sá sem flytur ódýrt inn, eins og þetta er nú. Af þeim ástæðum hef ég verið að segja: Við eigum að koma n krónutöluálagninguna í innflutningsversluninni. Raunar er ríkið að stíga tiltekið skref í þessum efnum með því að frv. til I. um tollafgreiðslugjald sem liggur fyrir Alþingi, þar sem gert er ráð fyrir fastri krónutölu á talsverðan hluta af þeim vörum sem munu falla undir þetta tollafgreiðslugjald. Þannig gengur ríkið á undan í rétta átt að mati — vona ég — hv. þm. Alberts Guðmundssonar. Síðan kemur kannske innflutningsverslunin.

Það hefur verið rætt hér um það, að hér sé um að ræða frv. sem ég hafi í rauninni talað á móti við fyrstu umferð málsins í þinginu, í Nd. Alþingis, þó ég styðji frv. Og ég geri það. Ég flutti fyrir því á dögunum tiltekin rök sem ég ætla ekki að endurtaka.

Einhver hv. ræðumanna sagði áðan að verið væti að ganga mjög verulega til móts við sjónarmið Verslunarráðs Íslands með þessu frv. Því hefur nú verið nokkuð harðlega mótmælt af hv. þm. Geir Hallgrímssyni og sömuleiðis hv. þm. Friðrik Sophussyni, að það væri verið að fallast á þau grundvallaratriði sem Verslunarráð Íslands gerir kröfur um. En á þau grundvallaratriði féllst ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl., eins og hér hefur réttilega verið bent á, vorið 1978 með því að samþykkja 8. gr. laga um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Þá var fallist á það, að álagningarfrelsi skyldi vera meginregla hér í allri verslun. Það er ekki gert ráð fyrir því í þessu frv., eins og hæstv. viðskrh. m.a. gat um á dögunum.

Ég tel það ekki heldur nein sérstök meðmæli með máli þó að Verslunarráð Íslands mæli með því, síst kannske í dag, eftir að það hefur gerst að forstjóri Íslenska álfélagsins, sem opinskátt og blygðunarlaust hefur snúist gegn íslenskum stjórnvöldum í svokölluðu álmáli aftur og aftur, er kosinn formaður Verslunarráðs Íslands. Í þessu starfi hafa áður verið mætir menn: Hjalti Geir Kristjánsson, Albert Guðmundsson og fleiri ágætir menn hafa verið í þessu starfi. Nú er það úr sögunni að menn velji þá menn þar til forustu sem eru í íslenskri verslunarstétt hvað svo sem um viðhorf þeirra má segja. En ég verð að segja það, að ég tel að það sé hneyksli að bjóða þjóðinni að maður, sem er í forustu fyrir íslenska álfélagið, sem gengur blygðunarlaust á móti hagsmunum Íslendinga í svokölluðu súrálsmáli og fleira, skuli nú vera settur á oddinn sem formaður Verslunarráðs Íslands. Ég spyr: Hlýtur þetta ekki að vera með ráðum Sjálfstfl. gert, að Ragnar Halldórsson verður formaður Verslunarráðs Íslands? Það hefur jafnan verið svo, að formenn Verslunarráðs Íslands hafa verið innanbúðar í Sjálfstfl. með ýmsum hætti. Er líklegt að þessi formaður Verslunarráðs verði hér fljótlega þingmaður fyrir Sjálfstfl. — eða ráðh. og fari þá með iðnrn.? Er hugsanlegt að menn sjái ekki hvílík fjarstæða hér er uppi? Verið er að taka í æðstu trúnaðarstöðu Verslunarráðs Íslands bandamann, umboðsmann erlends auðhrings hér í landi. (FrS: Hvar lærði hæstv. ráðh. og hvar var Hjörleifur Guttormsson í námi?) Vantar þig að vita það? (FrS: Það væri skemmtilegra.) Þetta er ekki skemmtiatriði, hv. þm.Hv. þm. Friðrik Sophusson hefur haft ákveðin viðskipti við álfélagið, gæti verið, um dagana. Ég man ekki betur en hann væri starfsmaður Stjórnunarfélagsins meðan Ragnar Halldórsson var formaður þess. Hv. þm. Friðrik Sophusson er sár yfir að þetta skuli vera rifjað upp, og hann er sár yfir því vegna þess að hann vill breiða yfir þetta og vill ekki bera ábyrgð á því. En staðreyndin er sú, að Sjálfstfl. hefur frá og með deginum í gær sett til forustu í Verslunaráði Íslands umboðsmann erlends auðvalds í þessu landi. Og þetta mál, hv. þm. Friðrik Sophusson, á að ræða hér í umr. um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti.