26.02.1982
Neðri deild: 47. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2730 í B-deild Alþingistíðinda. (2344)

211. mál, verðlag og samkeppnishömlur

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ég get talað fyrir mínum málstað eða málstað Sjálfstfl. betur en hæstv. félmrh. er þegar búinn að gera þannig að það er kannske óþarfi að koma hér upp í stólinn, eins og mér var bent á á leiðinni hingað. En úr því að ég var búinn að biðja um orðið ætla ég að nota mér tækifærið og tala hér.

Hæstv. félmrh. gat þess í mörgum orðum eins og oft áður, að innflutningsverslunin væri mikill baggi á þjóðfélaginu og slæmur milliliður og að draga þyrfti úr milliliðakostnaði. Hann vitnaði í skýrslu sem hann sagðist sjálfur hafa óskað eftir á sínum tíma og var unnin samviskusamlega í þeim anda sem til var stofnað af ágætum embættismanni ríkisins, verðlagsstjóra. En það, sem hann las upp, styrkir eiginlega málflutning minn hér, því að allt það, sem hann vildi nota úr þeirri skýrslu til að brjóta niður málflutning minn, hófst á orðunum — og það eru orð verðlagsstjóra sem hann gerði að sínum: Það virðist vera. það má ætla, sagði hann, að með undanskotum o.fl. skili umboðslaun sér ekki. Ekkert var alveg ákveðið.

Umboðslaun skila sér ekki um leið og vara er flutt til landsins. Umboðslaun koma löngu, löngu seinna. Þess vegna þýðir ekki að bera saman hagskýrslur og segja að svona og svona mikið magn af vörum komi til landsins og svona og svona mikið hljóti að vera umboðslaun. Nú eru umboðslaun afskaplega misjöfn, jafnvel af sömu vörutegundum. Það fer m.a. eftir því, hvernig samningar eru á milli fyrirtækja. Og þau skila sér aldrei fyrr en löngu seinna. Ef um afgreiðslur er að ræða á seinni hluta árs eru vörurnar að koma til landsins í miklu, miklu meira mæli en umboðslaunaskil geta verið yfir. Þau eru alltaf að koma, þau eru alltaf að fara.

Það eru engar ákveðnar skýrslur sem er hægt að taka um áramót og segja: Svona mikið magn af vörunni er komið til landsins. Það er ekki komið nema svona mikið magn af umboðslaunum til baka.

Þetta er blekkingatal. Ég trúi ekki öðru en viðskrh. viti það, því að menn öðlast ákveðna reynslu við að vera ráðherrar og fá þá innsýn í heim sem þeir hafa ekki þekkt áður. Menn, sem hafa ekki komið nálægt viðskiptum, tala kannske svona, en ef þeir tala svona eftir að hafa kynnst málunum, þá er það af öðrum hvötum. Þá er það, eins og ég sagði áðan, bara af pólitískum hvötum.

Ég er alveg hissa á að ráðh. skuli leyfa sér að gera heila stétt eða heilar stéttir, sem eru ekki minna áríðandi þjónustustéttir fyrir þjóðfélagið í heild en aðrar, að slíkum þjófum og ræningjum, mætti segja. Það mætti skilja af orðum ráðh. í ræðu áðan, að hér væru slík vanskil á umboðslaunum að það hlyti að eiga sér stað þjófnaður í stórum stíl. Ég gat ekki skilið orð ráðh. betur.

Hann ætti ekki að kvarta undan því að umboðslaun komi, því að umboðslaun eru venjulega þóknun. Það geta verið umboðslaun fyrir allt annað en vöruinnflutning, geta verið umboðslaun fyrir veitta þjónustu á Íslandi sem er greidd með þóknun erlendis frá. Það heyrir undir umboðslaun. Það þurfa ekki einu sinni að vera vöruviðskipti.

Hitt er svo annað mál, það sem mér fannst vera athyglisvert hjá hæstv. ráðh., að hann gat þarna um einhverja upphæð — sem ég missti af vegna þess að starfsmaður þingsins kom og hvíslaði í eyra mér um leið — að kaup gegnum erlenda milliliði skiluðu ekki svo og svo hárri upphæð, ég heyrði ekki töluna. Þetta er alveg rétt. Það hafa átt sér stað gríðarlega mikil innkaup gegnum erlenda aðila, og þau umboðslaun skilast aldrei. Það vantar vernd fyrir þann íslenska þjónustuaðila sem innflutningsverslunin er gegn erlendum aðilum sem skipta beint. Og þar eru innkaupastofnanirnar hvað verstar. Þeim umboðslaunum er ekki skilað og það er ekki ætlast til að þeim sé skilað. Það eru peningar sem koma ekki til baka inn í þjóðfélagið. Það er íslensk þóknun sem fer til erlendra aðila og kemur ekki til landsins. Það þýðir ekki að bæta þeirri stóru upphæð við þá upphæð, sem sögð er vera einhvers staðar falin í eigum íslenskra aðila, og segja: Innlendir aðilar svíkja þetta mikið undan skilum.

Menn verða að átta sig á því, hvað er verið að tala um, og vita, hvað þeir eru að tala um þegar þeir bera slíkar fullyrðingar á borð. Það er talað um að heildsölukerfið, eins og ráðh. orðaði það, sé dýrt. Að sjálfsögðu er það dýrt. Það er dýrt vegna þess að það eru margir smáir einstaklingar sem eru að flytja inn eina og eina vörutegund. En þeir veita stórum aðilum samkeppni, og það er enginn aðili hér á landi, ekki ríkið sjálft þó það væri ein allsherjarheildverslun, sem gæti boðið það vöruúrval og þá þjónustu sem hinir mörgu smáu bjóða. En verðinu er ráðið af hinu opinbera. Það er það sem við erum að tala um. Ég vil að verðið og verðmyndunin verði frjáls, að verðinu sé ekki haldið uppi með opinberum aðgerðum eins og hingað til hefur verið gert. Og ég benti á að það fyrirtæki, sem er hvað stærst í okkar þjóðfélagi nú og hvað best skipulagt og veitir kannske hvað besta þjónustuna, það getur ekki — þrátt fyrir það að enginn milliliður er í verðmynduninni hjá þeim aðila — haft vöruverðið lægra en hinn frjálsi og litli innflytjandi hér og þar. Þetta er kannske athugunarefni. Ef hæstv. ráðh. vill halda því fram, að þessir innflytjendur séu vondu mennirnir sem dragi þetta eða hitt undan og skili ekki þessu eða hinu, en geta samt sem áður verið samkeppnisfærir á neytendamarkaðnum með vöruna, hvað þá um þennan stóra aðila sem þarf ekki að standa skil á neinum milliliðakostnaði frá því að varan er keypt í samstarfi og samvinnu við stóra aðila, sem fá allan magnafslátt sem hægt er og draga öll umboðslaun af? Síðan flytja þeir þetta, tryggja það, meðhöndla það og dreifa því án þess að nokkur utanaðkomandi kostnaður komi inn í myndina. Hvernig stendur þá á því, að vöruverðið er það sama hjá litla manninum, sem hefur allan kostnaðinn, og hjá stóra aðilanum sem hefur ekkert af þessum kostnaði út fyrir sínar raðir?

Innkaupastofnun ríkisins ber skylda til að bjóða út öll innkaup. En það breytist ekkert við það fyrirkomulag sem ráðh. hefur talað um hér. Það er samkeppni víða frá í það magn sem Innkaupastofnunin þarf að útvega í það og það skiptið. Ef á að breyta innflutningsversluninni með einhverja vörutegund — eða á fleiru en bara timbri, eins og kemur fram í umræddri Þjóðviljagrein, þá er Innkaupastofnun ríkisins farin að starfa sem heildverslun, ekki bara fyrir ríkið og ríkisstofnanir, eins og tilgangur hennar er, heldur fyrir landið allt, og það kallar á gríðarlega mikla fjármögnun. Það kemur fjármögnunarkostnaður og fleira til greina og öll vinna við birgðirnar í sambandi við það. Ég á eftir að sjá að sú meðhöndlun í höndum opinberra aðila verði kostnaðarminni eða varan ódýrari fyrir neytendur, fyrir skattgreiðendur. Þá er það ekki lengur skattskyldur aðili sem sér um meðhöndlunina. En þrátt fyrir það að fyrirtæki og stofnanir, sem engan opinberan skatt greiða, flytji inn vörur og séu í samkeppni við þessa litlu aðila hér og þar í landinu sem flytja inn og borga sína skatta og skyldur, þá er varan samt sem áður ekki ódýrari hjá þeim. Ég held að hæstv. ráðh. ætti að líta sjálfum sér nær og skoða betur, hvað honum er næst, og hreinsa til í eigin húsi áður en hann fer að leggja til atlögu við aðra.

Ráðh. margítrekaði — og þá líklega samkvæmt þeirri skýrslu frá verðlagsstjóra sem hann vitnaði í — að um 20 mill jörðum meira hefði verið greitt fyrir innflutning árið 1978 en nauðsynlegt var. Það þarf að renna betri stoðum undir svona fullyrðingar. Það þarf að rökstyðja þetta miklu betur. Það er ekki nóg að koma upp í ræðustól í þessari virðulegu samkomu þjóðarinnar og blása út úr sér fullyrðingum án þess að rökstyðja þær. Þetta er mjög athyglisvert, og ég vil gjarnan biðja ráðh. — skriflega þá, ég er ekki viss um að hann sé tilbúinn að afgreiða þá ósk hér og nú — að gefa mér upplýsingar um þetta. Þetta er nýtt fyrir mig. (Gripið fram í.) Já, mér þykir vænt um það, ráðh. Á hann eitthvað í fórum sínum sem hann getur lagt fram þessum orðum sínum til sönnunar? Ég held hann ætti að gera það hér, og ég vil gjarnan fá eintak líka.

Innflutningsverslunin var sannanlega baggi á þjóðfélaginu 1978. Ég reikna með að það sé eina árið sem innflutningsverslunin hafi verið baggi á þjóðfélaginu, þrátt fyrir allt tal um að hún sé almennt og hafi alltaf verið baggi á þjóðfélaginu. Hæstv. ráðh. tiltók sérstaklega árið 1978. Við skulum athuga sérstaklega árið 1978 fyrir ráðh. Ég skal biðja Verslunarráðið að gera það.

Að sjálfsögðu viljum við ódýrari innflutningaverslun. Við viljum allt ódýrara. Ég tel t.d. að það sé ekki nokkur meining í því — og tala ég þá bara af því að ég er tiltölulega nýkominn úr fjárhagsnefnd Reykjavíkurborgar — ég tel alveg fráleitt að svo skuli komið að rúmlega 81% af brúttótekjum borgarinnar fara í rekstrarkostnað, bara kostnað við reksturinn. 20% eru til framkvæmda, til eignabreytinga. Og af þessum 20% eru 20% fengin frá Gjaldheimtunni í refsivexti af fólkinu af því að það getur ekki staðið í skilum. Ég tel að það mætti lita víðar til þess að fá ódýrari rekstur. Við viljum allt ódýrara. Það er hægt að athuga betur.

Ráðh. má ekki venja sig á að snúa út úr. Ég held að það sé ekki góður málflutningur. Ég gaf ekki tilefni til þess að bera saman það frelsi, sem ég geri hér að umræðuefni, athafnafrelsi einstaklingsins, frelsi einstaklingsins í verðmyndunarkerfi okkar hér heima á Íslandi, og frelsi í Sovétríkjunum. Ég veit ekkert hvers konar frelsi ríkir í Sovétríkjunum. Ég er alveg ruglaður í því. Ég les bæði Þjóðviljann og Morgunblaðið, og ef á svo að lesa eitthvað mitt á milli, þ.e. Tímann, fæ ég ekki rétta mynd af málum erlendis, ég verð að segja alveg eins og er. Ég er frekar á því að trúa að frelsi þarna austur frá sé verra en ég hef lesið um í blöðum.

En ég var að tala um frelsi einstaklingsins hér heima fyrir. Við skulum halda okkur að því. Athafnafrelsi hins almenna manns, sem ég gerði að umræðuefni, það er frelsi til að velja og hafna í búðunum eins og annars staðar og þá að sjálfsögðu um verð á vörum og innkaupum sem hafa myndast án íhlutunar opinberra aðila. Ég verð að hryggja hæstv. ráðh. — og það þykir mér vont, mér er ekkert illa við hann — með því að upplýsa að ég er ekki úr stjórnmálaskóla Heimdallar. Þar hef ég aldrei verið. En ég held að þetta hafi verið vond ræða h já hæstv. ráðh. Það er afskaplega erfitt að ræða, hvort sem er í ræðustól eða einkaviðræðum, við menn sem eru fastir fyrir fram í innbyggðum skoðunum þannig að ekki er hægt að komast að kjarnanum. Það er alveg útilokað fyrir mig eða neinn af mínum félögum, sem trúa á athafnafrelsi einstaklingsins, að reyna að koma hæstv. ráðh. eða nokkrum Alþb.-mönnum yfirleitt í skilning um það, að kaupmaðurinn á horninu sé eitthvað annað en vondur maður. Ég ætla því ekki að reyna það. Ef fólkið í borginni, fólkið í landinu, einstaklingarnir, sem eiga hvað erfiðast með að láta enda ná saman, væri spurt hvernig það færi að því að komast af milli útborgunardaga á launum eða örorkubótum eða annarri aðstoð, þá held ég að í ljós kæmi að kaupmaðurinn á horninu sé manneskjulegri en margir aðrir verslunarhættir. Ég ætla að biðja hæstv. ráðh. um að láta þetta fólk í friði.

Það var talað um tollafgreiðslugjaldið sem einhverja krónutöluálagningu. Þar kemur hæstv. ráðh. enn þá einu sinni fram með blekkingar. Hann veit vel hvað hann er að tala um, en í rökþrotum grípur hann til svona málflutnings. Tollafgreiðslugjaldið sem slíkt er ekki breyting á neinni álagningu. Það er 1% og síðan er það krónutöluálagning í sumum tilfellum. En þetta er bara nýr skattur. Áður var ekkert sem hét krónutöluálagning. Það kemur núna. Það var ekkert til sem hét tollafgreiðslugjald. Það kemur á núna. Hér er ekki verið að breyta neinu. Hér er verið að leggja á nýjan skatt.

Hæstv. ráðh. hleypur úr einu í annað með slagorðum og rökleysu til þess að komast út úr málefnalegum umræðum um þau mál sem hér eru á dagskrá. Ég verð að segja alveg eins og er, að ég harma það þegar jafnágætur drengur og ráðh. er finnur sig kominn svo upp að vegg í eigin málflutningi að hann grípur til þess að ræða um kosningafyrirkomulag og gerir athugasemdir við það, hverja menn velja sér til forustu í félagsskap úti í bæ eins og Verslunarráði, tala hér um mann sem er ekki nærstaddur og getur ekki svarað fyrir sig sjálfur, núverandi formann Verslunarráðsins, og tala um kosningu hans sem hneyksli. Sem hneyksli, minna mátti það ekki vera. Og hann bætir svo enn við og segir: Getur það skeð, að þessi maður, sem kosinn var formaður Verslunarráðs í gær, getur sú ógæfa átt eftir að henda íslenska þjóð og þjóðfélag, að þessi maður eigi kannske eftir að verða þingmaður og jafnvel ráðherra? Hvílíkt þjóðarhneyksli! Þessi maður var kosinn formaður Verslunarráðs þó hann sé starfsmaður álhringsins. Það getur vel verið að ég hafi talið það óheppilegt, ekki kosið hann sjálfur, en ég er ekkert að gefa upp um það. Að hann skuli kannske eiga eftir að verða þingmaður eða ráðherra — hvað þýðir svona tal í umr. um frv. til laga um breytingu á lögum um verðlag, samkeppnishömlur um óréttmæta viðskiptahætti? Hvað þýðir svona tal, hvaða rök eru þetta?

Ég veit ekki til að þessi umræddi maður hafi misst sín réttindi sem þjóðfélagsþegn. Það getur vel verið að hann eigi eftir að ná kjöri, ef hann gefur kost á sér til Alþingis, hvort sem það verður með Sjálfstfl. eða Alþb. Ég skal ekkert um það segja. Hann hefur öll sín mannréttindi því að hann missti ekki nein réttindi sem þjóðfélagsþegn við það að taka við stöðu hjá Ísal. Ég veit ekki betur en allir hafi fagnað því sem skrefi fram á við og atvinnuskapandi fyrirbæri þegar það kom hér með sína starfrækslu.

Virðulegi forseti. Ég bið afsökunar á því, að ég er búinn að taka langan tíma í dag frá hv. Alþingi. Ég geri það ekki venjulega. Ég hugsa að fáir þm. noti styttri ræðutíma hér en ég geri, svo að ég hef ekkert samviskubit af því. En ég vil biðja hæstv. viðskrh. að vera svo vænan að athuga b-lið 1. gr. frv. Þar er talað um að verðlagsstjóri verði formaður þriggja manna nefndar. Viðskrh. skipar aðra nefndarmenn, annan samkv. tilnefningu Alþýðusambands Íslands og hinn samkv. tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands. Mér er ekki nokkur leið að skilja hvers vegna Vinnuveitendasambandi Íslands er ætlað að tilnefna fulltrúa. Ég ætla ekki að skipta mér af Alþýðubandalagsfulltrúanum, ég tel það jafnfáránlegt að skipa fulltrúa frá Alþýðusambandinu einu eins og það er fáránlegt að skipa fulltrúa frá Vinnuveitendasambandinu. Ég hefði talið miklu eðlilegra að þarna hefði verið skipaður fulltrúi frá Verslunarráðinu en Vinnuveitendasambandinu. Ég vil þess vegna beina því til þeirrar nefndar, sem fjallar um þetta, eða ráðh. hvort hann geti ekki sæst á að breyta þessu. Ég tel það þó ekki líklegt því að venjulega breyta ráðherrar ekki því sem þeim er bent á að er til bóta.

Það kom hér fram í ræðu — ég held hæstv. félmrh. eða hvort það var hæstv. viðskrh. — að það væri viss hætta á því, ef aðilar skila ekki inn verðútreikningum innan ákveðins tíma, að viðkomandi innflytjandi gæti þá hugsanlega verið búinn að ákveða verð á vöru og selja hana, en síðan, þegar verðútreikningur kemur til verðlagsstjóra, kemur í ljós að varan er of dýr, en hún er þá seld. Þetta er alveg rétt, það getur svo sem komið fyrir. En ég hugsa að það sé ekki algengt. En þessi undirnefnd, sem talað er um í 2. gr. frv., á að hafa heimild til að taka ákvarðanir á milli funda verðlagsráðs sem verðlagsráð svo staðfestir eða hafnar. Ef nefndin hefur lagt blessun sína á verðlag á einhverju, sem reyndist síðan of hátt, og verðlagsráð dregur þessa samþykkt undirnefndarinnar til baka, þá vil ég gjarnan spyrja: Hvað skeður þá? Er viðkomandi aðili samt sem áður háður þeim viðurlögum sem frv. gerir ráð fyrir?