26.02.1982
Neðri deild: 47. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2738 í B-deild Alþingistíðinda. (2346)

211. mál, verðlag og samkeppnishömlur

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er ástæða til að þakka hæstv. viðskrh. fyrir þá ræðu sem hann flutti rétt áðan, ekki síst vegna þess að í máli hans kom fram viðurkenning á því, að samkv. málefnasamningi núv. hæstv. ríkisstj. er ætlunin að koma gömlu verðlagslögunum í gildi og þetta er áfangi á þeirri leið. Þetta er athyglisverð yfirlýsing með sérstöku tilliti til málflutnings hæstv. félmrh. við þessar umr. Þessa yfirlýsingu er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo, að það sé ætlunin að taka nýjan áfanga á kjörtímabilinu því að stjórnarsáttmálinn er auðvitað stefnuyfirlýsing sem gildir á yfirstandandi kjörtímabili. Þetta er athyglisverð yfirlýsing með tilliti til þessa og með tilliti til málflutnings hæstv. félmrh.

Hæstv. viðskrh. sagði réttilega að það væri einn stærsti áfanginn með þessu frv. að verðlagsmál hyrfu af borðum hæstv. ríkisstj. Ég býst við að þetta sé rétt að öðru leyti en því, að áfram kemur gjaldskrárnefnd til með að starfa þannig að ákvarðanir á gjaldskrám þeirra fyrirtækja, sem gjaldskrárnefnd fjallar um þegar ágreiningur er á milli ráðuneyta, verða áfram á borðum ríkisstj. og engin breyting verður á því máli a.m.k. um sinn.

Það, sem hins vegar skiptir mestu máli í þessu öllu saman, er að framkvæmdin takist vel. Ég er sammála hæstv. viðskrh. um að með því getur þessi nýja löggjöf verið áfangi á réttri leið.

Ég ætla ekki að skattyrðast um niðurtalninguna. Það er liðin tíð. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að ég grautaði í henni. Ég viðurkenni að ég dró fram niðurstöðurnar af langtímaaðgerðum frá 1980–1981 og fjallaði um þær á sama tíma og ég var að tala um skammtímaaðgerðir um þessi áramót. En það er ástæða til að minna á að hæstv. ráðh. talaði um tímabilið frá 1. jan. 1981 og til hausts sem merkilegasta tímabil í sögu þessarar ríkisstj., niðurtalningartímabilið, byggt á langtímaáætlun. Sú langtímaáætlun tók 9 mánuði, og verður ánægjulegt að vita hve þessi skammtímaáætlun, sem tók gildi um síðustu áramót eða var að taka gildi, varir lengi. Hér fáum við að heyra hver er munurinn á langtímaáætlun og skammtímaaðgerðum. Má þá búast við að skammtímaaðgerð sé 3–6 mánuðir fyrst langtímaáætlun er 9 mánuðir.

Að öðru leyti skal ég taka það fram, að ástæðan fyrir því, að ég kem hér í ræðustólinn, er fyrst og fremst ræða hæstv. félmrh. Ég vil byrja á að taka undir með honum að auðvitað hlýtur markmiðið í verðlagsmálum að vera að lækka sem mest kostnað á seldri vöru. Hann talar um milliliðakostnað, og hann ræður hvaða orð hann hefur í því sambandi. Það hlýtur að vera kostnaður því samfara að flytja vörur eða framleiðslu frá einum stað til annars, það þekkjum við, hvort sem við erum að flytja út eða flytja heim. Auðvitað verða þeir, sem vinna við slíkt, að fá eitthvað í sinn hlut. Þess vegna getum við verið sammála um þetta. Reyndar hefur Albert Guðmundsson, hv. 3. þm. Reykv., gert glögga grein fyrir þessum málum, enda hefur hann manna besta reynslu í þessum efnum.

En hæstv. félmrh. er í mikilli sorg í þessu máli. Hann stendur frammi fyrir þeirri staðreynd, sem kom fram h já hæstv. viðskrh., að nú á að gera verðlagninguna frjálsari. En hæstv. ráðh. kemur hér og segir að þetta sé nánast yfirskin, allar heimildir séu hjá Verðlagsstofnun o.s.frv., og bendir síðan á, að einmitt innflutningsverslunin sé mesti baggi á íslensku þjóðfélagi, og vitnar þar til skýrslu verðlagsstjóra til viðskrh. um athugun á innflutningsverslun sem var skilað til hæstv. ráðh. í janúar 1979. Síðan nefnir hæstv. félmrh., sem þá var viðskrh., tölu og segir að þetta sé 21.5 milljarðar, og það er samtala yfir umboðslaun, óhagkvæmni, milliliði, fjármagnskostnað og sérstöðu. Það kemur í ljós þegar maður skoðar þessa skýrslu og les hana, að þarna er náttúrlega að stórum og langmestum hluta til eðlilegur kostnaður. Það er spurningin hvar hann kemur niður. T.d. má benda á að það, sem hér er sett niður sem sérstaða, er tekið fram að sé pökkun og umhleðsla á vöru sem sé vegna þess hve markaðurinn er smár hér á landi. Svona lagað getur hæstv. ráðh. ekki leyft sér. Hann getur ekki komið upp í ræðustól á hinu háa Alþingi og sagt að hann hafi getað sannað sitt mái um að þetta sé mesti baggi á íslensku þjóðfélagi með því að vitna til þessara talna. Það er hreinn útúrsnúningur. Þetta eru heildartölur yfir allan kostnaðinn. Ef hann er óhemjulega mikill að þessu leyti er það annað mál, en þessi heildartala getur ekki öll verið bagginn. Það væri ekki hægt, jafnvel fyrir jafnduglegan, vel menntaðan, gáfaðan og þægilegan mann og hæstv. félmrh., ef hann tæki að sér allan „bisness“ þjóðarinnar, að sjá okkur fyrir vörum sem kostuðu ekki eyri meira en hann keypti þær á í útlöndum. Þetta er einu sinni staðreynd. En þetta þekkir auðvitað ekki hæstv. ráðh. því hann hefur aldrei stundað svona verslun. Hún er ekki að hans skapi. Það er eitthvað óhreint sem hann vill ekki koma nálægt. En hann kaupir þessar vörur samt, a.m.k. ef þær fást í KRON.

Síðan vék hæstv. ráðh. frekar að þessu áliti og ræddi um frelsið. Það er kannske ástæða til að fletta upp í þessari skýrslu og kanna hvað verðlagsstjóri segir um leið til úrbóta í þessari skýrslu. Hann segir m.a., með leyfi forseta: „Mín skoðun er sú, að við eðlilegar aðstæður í efnahagsmálum sé að öðru jöfnu rétt að færa verðmyndunarkerfið í frjálsara horf en nú er.“ — Þetta segir hann beinlínis í sinni skýrslu. Hans leið til úrbóta er einmitt að auka frelsið því að frelsið lækki vöruverðið.

Það var alltaf verið að tala um samanburð við aðrar þjóðir þar sem vöruverð væri lægra. Hvaða þjóðir var verið að bera saman? Það var verið að bera saman við þjóðir á Norðurlöndum þar sem verðlagslöggjöfin er miklu frjálslegri en hún hefur verið hér til skamms tíma. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir að rifja þetta upp því þetta sannar auðvitað þann málstað sem við höfum verið að rekja í þessum umr., að aukið frelsi á þeim sviðum, þar sem samkeppni er nóg, leiðir yfirleitt og sannanlega til lægra vöruverðs.

Síðan fjallaði ráðh. um frelsið og sagði að hér væri ekkert frelsi því að auðvitað væru það verslunareigendurnir, kaupmennirnir, sem réðu þessu öllu saman og neytandinn væri einskis virði í þessu öllu. Þetta lesum við nú um í Þjóðviljanum á hverjum einasta degi. En þetta er úrelt sjónarmið sem ég er alveg hissa á hæstv. ráðh. að koma með. Það er auðvitað neytandinn sem velur hvar hann kaupir vöruna. Við eðlilegar aðstæður kaupir hann auðvitað þá vöru sem er lægst í verði, nema um betri eða önnur gæði sé að ræða. Þannig haga neytendur sér víðast hvar og hér á landi líka sem betur fer. Þetta hefur hæstv. ráðh. viðurkennt í raun, því að hann stóð á sínum tíma fyrir því í hæstv. ríkisstj. að gefa dagblöðin frjáls, þar á meðal Þjóðviljann. Þjóðviljinn getur hækkað sig upp úr öllu valdi þegar honum sýnist, en Þjóðviljinn hækkar sig ekki meira en hann gerir vegna þess að annars mundi hann ekki seljast. Það kaupa fáir Þjóðviljann einfaldlega vegna þess að Þjóðviljinn er lélegra blað en önnur blöð sem á markaðinum eru. Áskrift Þjóðviljans dregst saman frá degi til dags af þeirri ástæðu að þar er ekki um frambjóðanlega vöru að ræða. Ég veit að þegar hæstv. ráðh. segir að hann eigi að vernda þá sem hafa ekkert val, þá gæti hann auðvitað staðið hérna við hliðina á Óla blaðasala í Austurstræti og skipað fólkinu að kaupa Þjóðviljann því það eigi að halda með hinum minni máttar. En við erum á frjálsum markaði vegna þess að hæstv. ráðh. gaf blöðin frjáls. (Félmrh.: Blöðin hafa alltaf verið frjáls.) Ég meina í verði. (Félmrh.: Ég átti við frjáls.)Ég átti við frjáls í verði, sem Þjóðviljinn er í dag, en það kaupa fáir Þjóðviljann vegna þess að það er verri vara. (Gripið fram í: Það var Kjartan Jóhannsson sem gaf þau frjáls.) Já, ég biðst afsökunar á því. Jæja, en alla vega hefur hæstv. ráðh. ekki breytt því.

Það væri kannske, herra forseti, ástæða til að þakka hæstv. félmrh. fyrir að hann skuli ekki lengur vilja vera yfirverðlagsstjóri yfir gosdrykkjum og smjörlíki eins og hann var í eina tíð og frægt varð á sínum tíma. — En ég ætla að koma hér að einum þætti í ræðu hæstv. ráðh. sem ég held að ástæða sé til að taka aðeins á. Þar vék hann að kosningu sem átti sér stað í félagsskap hér í bænum, nánar tiltekið Verslunarráði Íslands, og fór mörgum orðum um það hneyksli, að ákveðinn maður skyldi hafa verið kjörinn formaður Verslunarráðsins, einkum og sér í lagi af því að hann væri starfsmaður fyrirtækis sem erlendir aðilar eiga að mestu eða öllu leyti. Þegar hann var spurður utan úr þingsal, eftir að hafa sagt að menn tyggðu gamlar tuggur úr stjórnmálaskóla Heimdallar, hvar hann hefði stundað sitt nám, þá færðist hann undan að svara því, en benti þess í stað á að fyrirspyrjandi utan úr sal væri að reyna að breiða yfir að hann hefði verið um skeið starfsmaður Ragnars Halldórssonar forstjóra ÍSALS, Þegar hann var formaður Stjórnunarfélags Íslands. Svona er málflutningur þeirra manna sem komast í rökþrot.

Nú vil ég segja hæstv. félmrh. þetta: Stjórnunarfélag Íslands er eitt fjölmargra félaga, samtaka, þ. á m. Alþýðusambands Íslands og fyrirtækja í bænum, til að vinna að ákveðnu markmiði. Á sínum tíma, þegar Ragnar Halldórsson var formaður félagsins, vorum við starfsmenn félagsins, ég og Ásmundur Stefánsson núv. forseti Alþýðusambandsins. Hér er auðvitað um að ræða dulbúna árás hæstv. ráðh. á Ásmund Stefánsson, það er alveg augljóst, a.m.k. mundi hann rökstyðja málflutninginn þannig. Þetta hefur nefnilega Þjóðviljinn, einkum og sér í lagi þegar hæstv. félmrh. var ritstjóri Þjóðviljans, leikið, að skamma menn fyrir að vera þjónustuaðilar af því að þeir þora ekki að skamma þann sem þeir ætla raunverulega að skamma. Svona er nú ástandið á þessum bæ. Nei, það sem hæstv. ráðh. er að breiða yfir er það, og það kemur kannske engum við, að í forustu í ákveðnum stjórnmálaflokki, sem á fulltrúa á þingi, sitja menn og eru hæstv. ráðherrar sem einmitt hafa farið utan til náms til ríkja þar sem skylda er að læra Marxisma í skólum. Hér er hæstv. félmrh. að breiða yfir það með dylgjum í annarra garð, af því að hann stendur í glerhúsi, að hann og hæstv. iðnrh. fóru til náms í Austur-Þýskalandi og voru þar skyldaðir til lærdóms á Lenínisma og marxískum fræðum. Þetta er staðreynd, sem hæstv. ráðh. vill ekki kannast við, en reynir alltaf að drepa málunum á dreif. Ég skil vel að það fari illa um hæstv. ráðh. þarna í ráðherrastólnum þegar á þetta er minnst, en þetta er sannleikur sem óþarfi er að láta liggja í þagnargildi þegar hæstv. ráðh. tekur upp á því að nauðsynjalausu að ráðast að aðilum, sem geta ekki varið sig hér í sölum Alþingis, og gera litið úr þeim og fara með dylgjur. Þá á hæstv. ráðh. það skilið. Það getur vel verið að hann hafi verið að læra, þar sem hann lærði í háskóla og litlar sögur fara af, einhver fræði sem hann telur að séu samsvarandi þeim fræðum sem kennd séu í stjórnmálaskóla Heimdallar. Þetta er hugsunargangur hæstv. ráðh. Svona kemur hann fram þegar hann sleppir fram af sér beislinu aðspurður hér í ræðustól, og með þetta situr hann uppi.

Það, sem var merkilegast við það sem gerðist í dag í þessum umr., var að hæstv. viðskrh., svo að ég ljúki máli mínu, nefndi ekki einu orði þá fsp. sem kom fram um hvort hæstv. ríkisstj. stæði öll að hugmyndum um opinber innkaup Innkaupastofnunar ríkisins, — ekki eitt einasta orð kom frá hæstv. viðskrh. um þetta efni. Ég leyfi mér, ef ekki kemur fram annað, að halda því fram, að yfirlýsing hæstv. félmrh. um hvað hæstv. fjmrh. er að bauka í þessum efnum sé gerð í óþökk annarra hæstv. ráðh. í ríkisstj. Ef það er rangt óskast staðfesting á því máli.

Herra forseti. Ég hef þegar talað áður í þessu máli og mín sjónarmið komið fram. Ég taldi mjög nauðsynlegt að koma hér í ræðustólinn og benda á hvers vegna hæstv. félmrh. sleppti sér í stólnum í dag vegna þess að ákveðinn maður var kjörinn formaður Verslunarráðsins í gær. Það er vegna þess að hann sjálfur hefur ýmislegt að fela sem hann kærir sig ekki um að dregið sé fram í dagsljósið. Mér er kunnugt um það — við erum gamlir og góðir félagar, ég og hæstv. félmrh., frá fyrri dögum — að þá sjaldan hann vann ærlegt handtak á sumrin, þegar við vorum í menntaskóla, var að vinna við niðurrifsstörf á Neskaupstað.