02.03.1982
Sameinað þing: 59. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2750 í B-deild Alþingistíðinda. (2357)

141. mál, Kolbeinsey

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil eins og hv. síðasti ræðumaður taka eindregið undir þessa till. og mæli með því, að þingið veiti henni jákvæða og fljóta afgreiðslu.

Hér er frá mörgum sjónarhornum séð um gagnmerki mál að ræða. Það er nóg fyrir okkur ef við erum að missa þarna fyrir ágang náttúruaflanna hluta af landi okkar. Við eigum að spyrna á móti þeirri eyðileggingu eins og framast er unnt og reyna að hindra að kletturinn brotni frekar niður.

Þá hefur hv. flm. bent á það, að eyjan gegni miklu hlutverki í öryggismálum sjómanna, og er sjálfsagt að sinna því eins og framast er unnt.

Bæði hv. flm. og síðasti ræðumaður hafa bent á að Kolbeinsey hefur mikla þýðingu fyrir okkur í sjóréttarlegu tilliti. Kolbeinsey er grunnlínupunktur. Frá henni reiknum við fiskveiðilandhelgi okkar, og með því að nota Kolbeinsey sem grunnlínupunkt fáum við allvæna sneið í okkar hlut af hafinu á milli Íslands og Grænlands. En við skulum minnast þess, að aðrar þjóðir hafa ekki viðurkennt þennan grunnlínupunkt. Í hvert skipti sem við höfum fært úr landhelgi okkar hafa Danir viðurkennt útfærsluna, en sett algjöran fyrirvara um Kolbeinsey og raunar Hvalbak líka og neitað að fallast á að þetta séu löglegir grunnlínupunktar. Þessu máli höfum við ýtt á undan okkur, en það er óleyst. Það skiptir okkur miklu máli hvorum megin sú sneið fellur, okkar eða Grænlendinga, sem þessi grunnlínupunktur bætir við okkur.

Ég tel því að leggja verði mikla áherslu á að framkvæma það, sem bent er á í þessari till., og styrkja Kolbeinsey á allan hátt og byggja hana upp, því að þar er margt í veði. Við megum ekki vanrækja það mál.