28.10.1981
Efri deild: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

37. mál, söluskattur

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Ástæðan fyrir því, að ég spurði um virðisaukaskattinn — og það skiptir máli í sambandi við þetta mál, er einfaldlega sú, að eins og kunnugt er þykir skilvirkara að innheimta virðisaukaskatt en söluskatt. Það segir sig sjálft vegna þess að eðli skattsins er þannig að einn fær hann frádreginn og þarf þá að gefa hann upp. Því er innbyggt eftirlitskerfi fólgið í þeim skatti og hefði að sjálfsögðu verið minni ástæða til að fara að setja breyttar reglur um innheimtu á söluskatti ef þetta hefði verið í vændum. En eins og fram kom hjá hæstv. ráðh. mun svo ekki vera, a. m. k. ekki í náinni framtíð.

Hæstv. ráðh. talaði um að sú refsing, sem ég minntist á áðan, 6 ára fangavist, væri í lögum um söluskatt, ef um ítrekuð og gróf brot væri að ræða. Ég vissi það að sjálfsögðu og átti ekki við það, heldur það sem segir í grg., að þessum sem öðrum viðurlögum í frv. sé ætlað að beita með öðrum hætti eftir en áður. Hér segir:

„Samkv. tillögum nefndarinnar eru ákvæði 25. og 26. gr. gildandi söluskattslaga sameinuð í eitt samræmt ákvæði. Eftir ákvæðinu er þá að áliti nefndarinnar enn betur tryggt en í núgildandi lögum að heimilt sé að beita refsingum, fésektum og refsivist við ýmsum brotum á lögunum, óháð því hvort álagi verður við komið. Hefur nefndin þar sérstaklega haft í huga að ótvírætt verði að dráttur söluskattsskila milli mánaða innan ársins geti varðað slíkum refsingum auk venjulegs álags. Þá eru huglæg skilyrði refsiábyrgðar færð til samræmis við samsvarandi ákvæði tekjuskattslaga“ o. s. frv.

Í þessu felst, ef ég skil þetta rétt, að ætlunin er að beita þeim viðurlögum, sem áður voru í lögum, með óðrum hætti eftir að þetta frv. yrði orðið að lögum.

Ég fagna því, að hæstv. ráðh. hefur alla vega skilning á því, að ef hann setur ákvæði í reglugerð um þessa nýskipan á staðgreiðsluviðskiptum — að skylda menn til þess að hafa, ef ég hef skilið hann rétt, sérstaklega gerðar sjóðvélar sem verður þá að fá staðfest af skattyfirvöldum að þau samþykki — þá hefur þetta náttúrlega í för með sér allverulegan kostnað fyrir þá aðila sem eru að innheimta söluskattinn. Og ég held að það komi mjög mikið á móti því, að menn geti haft söluskattinn í sumum tilvikum kannske í mánuð í veltunni, ef þeir lána, eins og ég rakti áðan, andvirði vöru eða þjónustu til lengri tíma en sem nemur fresti til að skila söluskattinum. Það er algengt að um slík viðskipti sé að ræða, og ég veit um mörg dæmi þess, að fyrirtæki hafa þurft að greiða söluskatt af kröfu sem þau hafa aldrei fengið, ekki bara kröfu sem hefur ekki verið greidd fyrr en einum, tveimur eða þremur mánuðum eftir að söluskatti átti að vera skilað, heldur sem þau bara tapa algerlega. Fyrirtækin hafa þurft að greiða ríkinu söluskatt af slíkum kröfum. Ég held að það sé ríkissjóði í hag, dæmið sem hæstv. ráðh. var að rekja hér, og jafnvel þótt menn megi hafa hluta af söluskattinum í veltunni einhvern stuttan tíma tapi menn verulegum fjárhæðum á þessum viðskiptum við ríkissjóð.