02.03.1982
Sameinað þing: 59. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2754 í B-deild Alþingistíðinda. (2360)

199. mál, efling innlends iðnaðar

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Sem einn af flm. þessarar till. langar mig til með örfáum orðum að taka undir með 1. flm. og fara fáeinum orðum um till.

Þessi till. fjallar um eflingu innlends iðnaðar og aukna markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu.

Í grg. fara flm. nokkrum orðum um helstu atriði sem þeir telja að til þurfi að koma til þess að markmiðum þessarar till. megi ná. Það er alveg ljóst að mikil nauðsyn er að búa iðnaðinum í landinu þau starfsskilyrði að hann geti blómgast. Ég legg í þessu sambandi alla áherslu á grundvöllinn sjálfan sem iðnaðurinn á að starfa við. Aðgerðir ríkisvaldsins verða fyrst og fremst að snúa að rannsóknum, e.t.v. hugmyndasöfnun og margvíslegri aðstoð á annan hátt, en iðnaðinn getum við aldrei eflt í þessi landi nema grundvöllurinn, sem hann á að starfa við, sé réttur.

Flm. leggja áherslu á nokkur atriði. Þar er í fyrsta lagi talað um niðurfellingu ýmissa opinberra gjalda til lækkunar á kostnaði. Það er auðvitað alveg ljóst, að innlendur iðnaður greiðir ýmis gjöld fram yfir aðra grunnatvinnuvegi þessarar þjóðar. Meðan svo er verður gengisskráningin iðnaðinum óhagstæð, jafnframt því sem innlendur iðnaður greiðir ýmis gjöld sem samkeppnisiðnaður við hann í öðrum löndum greiðir ekki. Með efnahagsaðgerðum ríkisstj. nýverið var stigið eitt skref með lækkun launaskatts um 1% á iðnaði. Það er í rauninni bara fyrsta skref og þar þurfa fleiri að koma til. Ríkisstj. fjallar nú um tillögu varðandi lækkun á aðstöðugjaldi á iðnaði, og ég geri mér vonir um að samstaða náist fljótlega um aðgerðir í því máli.

Það er auðvitað alveg ljóst, að fátt er hættulegra fyrir okkar í mörgum tilvikum veika iðnað en röng gengisskráning. Í því sambandi verður alveg sérstaklega að vara við að millifærslur til sjávarútvegsins með ýmsu móti, til verðjöfnunarsjóða og með öðru móti, valda því, að gengisskráningin skekkist gagnvart iðnaðinum og kippir rekstrargrundvellinum undan honum.

Hér er sérstaklega minnst á orkuverð. Það hlýtur að koma mjög til skoðunar að okkar innlendi iðnaður hafi sambærilegt orkuverð og önnur fyrirtæki og ekki síst samkeppnisiðnaður okkar erlendis. Það er alveg út í hött að við leggjum gjöld á iðnað okkar sem ekki tíðkast með öðrum löndum, á sama tíma og við ættumst til að iðnaðurinn taki við fólksfjölguninni á vinnumarkaðinum og verði ein aðalgrunnatvinnugreinin í landi okkar.

Eitt mál, sem ekki verður komist hjá að nefna sérstaklega og 1. flm. fór nokkrum orðum um, er áhrif þeirra styrktar- og stuðningsaðgerða sem gripið hefur verið til í ýmsum samkeppnislöndum okkar. Ég vil segja það, að raunalegt er að þurfa enn einu sinni að standa að tillögum og gera enn einu sinni tillögu um að sérstök athugun verði gerð á áhrifum styrktar- og stuðningsaðgerða við iðnað í helstu viðskiptalöndum okkar. Þessi mál hafa verið svo mikið til umræðu hér á þingi og í þjóðfélagi okkar að þar verður auðvitað að grípa á með föstum og öruggum tökum. Það er enginn vafi á að ýmis samkeppnislönd okkar ekki hvað síst Norðurlöndin, gripu eftir olíukreppuna 1973–1974 til margvíslegra styrktaraðgerða við sinn iðnað. Við erum í fríverslunarbandalagi við þessi lönd mörg og leggjum ekki tolla eða aðflutningsgjöld á þær vörur sem þau flytja inn í þessu sambandi. Fríverslun er ágætt mál og okkur nauðsynleg, en það er alveg útilokað fyrir okkur að láta okkar veika iðnað keppa við ríkisstyrktan iðnað í öðrum löndum ofan á aðrar aðstæður sem eru hjá okkur.

Um þetta á ekki að þurfa að fara mörgum orðum. Þarna þarf að taka til hendinni. Ég hef ekki getað séð annað en að margar þessara stuðningsaðgerða liggi glettilega ljósar fyrir. Ég hef margsinnis sagt í ræðum á þingi að það er auðveldur aðgangur að fjölmörgum handbókum sem gefnar eru út í þessum löndum um hvernig iðnaðurinn er styrktur þar. Þarna verður að grípa inn í. Í þessu sambandi hef ég hvað eftir annað gert það að umræðuefni að sennilega sé fljótvirkasta leiðin að grípa til jöfnunartolla þegar sannað er að um styrktaraðgerðir er að ræða.

Það er enginn vafi á að ýmsar reglur um gjaldeyrisviðskipti eru iðnaðinum óhagstæðar og þar þarf leiðréttinga við. Mér er kunnugt um að að því er unnið. Aðflutningsgjöld á ýmsum vélum og tækjum þarf að fella niður og stíga fleiri skref þar en þegar hafa verið stigin. Jafnframt er mjög mikilvægt í ýmsum iðngreinum að komið verði markvisst á gæðamati á innflutta vöru. Mér segir svo hugur um að a.m.k. í sumum iðngreinum séu fluttar hingað inn vörur sem standast ekki strangt gæðamat í samkeppnislöndum okkar. En jafnframt er alveg ljóst að þau lönd, sem kannske hvað mestan helgisvip hafa á sér í fríverslunarsamstarfi við okkur, hafa strangt gæðamat hjá sér og nota það gæðamat sem hömlur eða þröskulda gegn innflutningi. Þar er þetta gæðamat oft kallað „non-tariff barrier“, og við rekum okkur á að íslensk iðnfyrirtæki, sem vilja flytja út, þurfa að ganga í gegnum slíkt gæðamat erlendis og getur kostað marga mánuði að bíða eftir afgreiðslu í slíkum stofnunum, jafnframt því sem gæðamat í þeim skilningi er auðvitað mikil neytendavernd í landi okkar.

Ég vil taka undir með 1. flm., að það er enginn vafi á að fjölmargt af því, sem við Íslendingar flytjum inn, getum við framleitt hér. Það er enginn vafi á að fjölmargt af því yrði áhugavert að framleiða ef aðstæður væru bættar, ef grunnurinn, sem iðnaðurinn starfar við, og þá á ég við ýmsa skatta og álagningu opinberra gjalda og önnur atriði sem hér eru talin upp, — ef þessi atriði eru í lögum.

Ég hef verið talsmaður þess, að við gáum mjög vel að okkur í þessum málum. Það er enginn vafi á, að við verðum að efla iðnaðinn í þessu landi, og það er enginn vafi á, að iðnaðurinn verður í auknum mæli að taka við því fólki sem kemur á vinnumarkaðinn. Það er heldur enginn vafi á, að okkur stafar nokkur hætta af því mikla atvinnuleysi sem er nú í nágrannalöndum okkar. Það þarf ekki mikið að bera út af í okkar tiltölulega veika efnahagslífi svo að sú holskefla berist ekki hingað til okkar og það verði erfiðara að koma henni af en fá hana yfir sig. Til að hindra það verða Íslendingar nú þegar að grípa í taumana og byrja alveg markvisst á að fella gjöld af iðnaðinum og búa hann undir einmitt slík átök, þannig að hann geti orðið sú undirstaða sem við ætlum honum í þessu landi. Við verðum að styrkja iðnaðinn með því að fella niður markvisst af honum gjöld til að búa okkur undir að það atvinnuleysisástand, sem er í nánast öllum löndum í kringum okkur, berist ekki til okkar, heldur verði framleiðsluiðnaður efldur í þessu landi.

Þess vegna er okkur nauðsyn að hafa hér öfluga iðnkynningu sem oftast. Það er alveg nauðsyn, og ég vil taka undir með 1. flm. um að hvetja Íslendinga til að kaupa innlendar vörur. Íslendingar vilja gjarnan sjálfir hafa nóg að gera. Þeir vilja hafa næga atvinnu. Þeir vilja líka hafa mikið kaup. En þeir hugsa allt of lítið um að styðja sjálfir við atvinnugreinar sínar með því að kaupa innlendu framleiðsluna.

Að lokum aðeins þetta: Við erum í fríverslunarbandalögum, það er alveg rétt, og það þarf ekki á neinn hátt, að mínu viti, að rekast á við uppbyggingu og eflingu iðnaðar í þessu landi. Þar gildir fyrst og fremst að við sköpum iðnaðinum þann rekstrargrundvöll að hann sé ekki síðri en sá grundvöllur sem þessir atvinnuvegir búa við í öðrum löndum, jafnframt því að við höfum vakandi auga með að okkar veiki iðnaður sé ekki í beinni samkeppni við ríkisstyrktan iðnað frá öðrum löndum.