03.03.1982
Efri deild: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2820 í B-deild Alþingistíðinda. (2373)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Frsm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Frv. til l. um Sinfóníuhljómsveit Íslands var meðal fyrstu mála þessa þings. Strax og frv. hafði verið vísað til nefndar fyrr í vetur voru haldnir sameiginlegir fundir menntamálanefnda beggja deilda til að kanna viðhorf ýmissa aðila sem bæði nú og á undanförnum árum hafa látið málefni Sinfóníuhljómsveitarinnar sérstaklega til sín taka. Á okkar fund komu framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar, þjóðleikhússtjóri, útvarpsstjóri og framkvæmdastjóri útvarps og fulltrúar starfsfólks hljómsveitarinnar. Í greinargerðum þessara aðila og öðrum upplýsingum, sem nefndirnar fengu, kom fram að löngum hefur það sett svip sinn á starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Íslands að fjárhagsgrundvöllur og þar með starfsgrundvöllur hennar hefur verið frekar ótryggur.

Sinfóníuhljómsveitin er tvímælalaust meðal merkustu menningarstofnana í okkar þjóðfélagi. Ásamt Þjóðleikhúsinu hefur hún verið burðarásinn í þróun listgreina hér á landi á undanförnum áratugum hvað snertir opinbera starfsemi. Ég held að allir þeir, sem til þekkja, séu sammála um að án Sinfóníuhljómsveitar Íslands og fyrirrennara hennar byggjum við ekki við svo glæsilegt tónlistarlíf á Íslandi sem raun ber vitni. Og það er e.t.v. mest um vert, að án þessarar starfsemi hefðu varla tugir — jafnvel hundruð íslenskra ungmenna lagt stund á æðri tónlist með svo góðum árangri að sumir í þeirra hópi eru nú taldir meðal fremstu flytjenda í sinni grein ef litið er til nágrannalanda og jafnvel þótt litið væri víðar.

Íslendingum hefur tekist fyrir tilstuðlan Sinfóníuhljómsveitarinnar og fyrirrennara hennar að eignast fjölmenna sveit ungs tónlistarfólks sem er nú þegar orðin burðarásinn í fjölþættu menningarlífi í okkar landi. Það kemur bæði fram í starfsemi hljómsveitarinnar sjálfrar, en ekki síður í starfsemi Þjóðleikhússins, í starfsemi hinnar nýju íslensku óperu og í starfsemi hins íslenska ballettflokks. Öll þessi starfsemi hvílir með einum eða öðrum hætti á því mikla starfi sem unnið hefur verið á vegum Sinfóníuhljómsveitarinnar á undanförnum árum og áratugum.

Það er einnig mat flestra sem til þekkja, að hin nánu tengsl Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar hafi á undanförnum áratugum átt verulegan þátt í að kynna íslensku þjóðinni hinar fjölþættu tónbókmenntir Vesturlanda og stuðla að því, að almenningur í landinu öðlaðist djúpan og varanlegan skilning á þeim dýrmæta menningarfjársjóði sem tónbókmenntir Vesturlanda eru. Það er að vísu rétt, að margar þjóðir í öðrum heimshlutum eiga sér aldagamla og dýrmæta tónlistarhefð sem litt er kunn hér á landi, eins og er í öðrum löndum okkur skyldum. En varla verður sú krafa gerð til Sinfóníuhljómsveitarinnar né annarra flytjenda tónlistar hér á landi að þeir kynni okkur þessar tónbókmenntir. Hef ég þess vegna orðað lýsingu mína hér á þann veg, að hún sé bundin við tónbókmenntir Vesturlanda.

Það hefur áður verið gerð tilraun til að setja lög um Sinfóníuhljómsveit Íslands og reyndar fleiri en ein. Þær tilraunir báru ekki tilskilinn árangur, svo að þessi mikilvæga menningarstofnun, einn af hornsteinum nútímamenningar á Íslandi, hefur starfað hér árum saman án þess að nokkur lagabókstafur væri til um starfsemi hennar. Hún hefur fyrst og fremst byggst á góðum skilningi og ákveðnum venjum sem skapast hafa hjá forsvarsmönnum Ríkisútvarpsins og stjórnendum ríkisfjármála og hjá Reykjavíkurborg á undanförnum árum og áratugum. Það er vissulega ánægjuefni, að aðilar í landi okkar geti komið sér saman um svo mikilvægan þátt í menningu okkar án þess að lagabókstafur sé til um það samstarf. Oft og tíðum hættir okkur Íslendingum til þess að telja að lagasetningin ein sé nægileg trygging til að festa í sessi ákveðna starfsemi á tilteknum sviðum. Sinfóníuhljómsveitin hefur hins vegar sýnt það, að ef til er nægilegur vilji hjá viðkomandi aðilum er hægt að þróa hér öfluga og blómlega starfsemi í landinu án þess að lagagrundvöllur sé fyrir hendi. Hitt eru, held ég, allir sammála um, sem kynnst hafa rekstri og starfsemi hljómsveitarinnar á undanförnum árum og áratugum, að nauðsynlegt er að ákveðinn lagarammi sé til um starfsemi hljómsveitarinnar og ákveðið sé með lögum hvernig fjárhagsleg skipting og stjórnunarleg ábyrgð á starfsemi hljómsveitarinnar sé.

Það hefur komið fram, bæði hér á Alþingi og annars staðar, að menn hafa mismunandi skoðanir á því, hvernig eigi að deila rekstrarkostnaði hljómsveitarinnar milli aðila. Sumir hafa talið æskilegt að Ríkisútvarpið færi alfarið út úr þessari mynd, aðrir bent á að nauðsynlegt væri að Þjóðleikhúsið kæmi hér inn, enn aðrir vakið athygli á að æskilegt væri að fleiri sveitarfélög en Reykjavíkurborg kæmu inn í þessa mynd, enn aðrir bent að að æskilegt væri að ríkissjóður færi einn alfarið með fjárhagsábyrgðina. Og þannig er hægt að telja ýmsar fleiri hugmyndir og ábendingar sem fram hafa komið um þetta efni.

Sú niðurstaða, sem í þessu frv. er, er byggð á langvarandi umræðum og samningum sem farið hafa fram milli aðila, sem tengjast þessum rekstri, og innan þeirra nefnda, sem falið hefur verið að sem ja frv. um þetta efni. Það var skoðun meiri hl. nefndarmanna, að ekki væri ráðlegt að fara að breyta hér á Alþingi þessari skiptingu þar eð slíkt kynni að raska mjög þeim samstarfsgrundvelli sem þróast hefur í kringum hljómsveitina.

Ég sagði meiri hl. n., því að eins og fram kemur í sérstökum brtt. hafa tveir nm. lagt til að einn af þessum aðilum, bæjarsjóður Seltjarnarness, verði numinn brott úr 3. gr. frv. Ástæðan fyrir því, að bæjarsjóður Seltjarnarness er þarna með, er sú, að leitað var til ýmissa sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að þau tækju þátt í rekstrarkostnaðinum og aðeins eitt sveitarfélag, Seltjarnarnes, varð við þessari beiðni. Vegna búsetu minnar á Seltjarnarnesi er mér kunnugt um að forráðamenn bæjarfélagsins og margir bæjarbúar eru mjög stoltir af því, að Seltjarnarnes skuli með þessum hætti taka þátt í kostnaði við að starfrækja þessa menningarstofnun og hafa gert það með glöðum huga. Vissulega væri æskilegt að fleiri kæmu inn í þá mynd, en meiri hl. n. er algerlega andvígur því, að á þessu stigi verði bæjarsjóður Seltjarnarness numinn brott úr þessari mynd með einfaldri brtt.

Vissulega má orða starf og tilgang Sinfóníuhljómsveitar Íslands á ýmsan hátt. Það orðalag, sem er í 2. gr. þessa frv., er stutt og hnitmiðað. Tveir nm. hafa lagt til brtt. sem er mun ítarlegri. Í sjálfu sér sé ég ekkert á móti því, ef einstakir deildarmenn kjósa, að það orðalag væri samþykkt. Ég held að það sé ekki höfuðatriði í sjálfu sér, en ég get hins vegar ekki fundið nein sterk efnisatriði gegn því, að það orðalag sé samþykkt. Hins vegar gegnir öðru máli um aðrar brtt. sem fluttar eru af þessum tveim nm. og rétt er að ég ræði aðeins þótt talsmaður þeirra eigi eftir að gera grein fyrir þeim.

Sú stjórnskipan, sem verið hefur á Sinfóníuhljómsveitinni og lagt er til hér að haldi sér í grófum dráttum, er byggð á því, að í fyrsta lagi skuli stjórn fyrirtækisins fjalla um rekstur hljómsveitarinnar, fjárhag hennar og aðra þá þætti sem tengjast almennum rekstrargrundvelli hljómsveitarinnar. Í öðru lagi á framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar að sinna daglegum framkvæmdaatriðum varðandi reksturinn. Á undanförnum áratugum hafa ýmsir ágætir menn gegnt þessum störfum. Sumir þeirra hafa verið sérmenntaðir í tónlist eða ákveðnum sviðum tónlistar. Aðrir hafa hins vegar verið áhugamenn á því sviði, en fyrst og fremst haft til að bera ákveðna stjórnunar- og rekstrarhæfni. Ég tel að í eðli málsins sé engin höfuðnauðsyn að framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar hafi til að bera ákveðna sérmenntun á sviði tónlistar. Aðalatriðið sé að hann hafi þá almennu stjórnunarhæfni sem þarf til að starfrækja stofnun af þessu tagi. Ég segi þetta vegna þess að hin faglega hlið starfseminnar tengist fyrst og fremst hinum tveimur stjórnunaraðilum sem ég á eftir að geta um. Sá þriðji í þeirri röð sem ég hef hér verið að telja upp, er hljómsveitarstjórinn eða hljómsveitarstjórarnir bæði aðalhljómsveitarstjóri og fastur hljómsveitarstjóri, og í fjórða lagi er verkefnavalsnefnd.

Farið hafa fram ítarlegar umræður um það, með hvaða hætti ætti að skipa þessum stjórnunarþáttum hljómsveitarinnar. Ég held að sú braut sé rétt, sem hér er lögð til, að fela sérstakri verkefnavalsnefnd, sem væri skipuð tónmenntuðum mönnum og mönnum með mikla þekkingu og reynslu á sviði tónlistar, og hljómsveitarstjóranum þann þátt starfseminnar sem snýr að verkefnaflutningnum sjálfum, en fela hins vegar stjórn, sem skipuð væri fulltrúum rekstraraðilanna, fjmrn., Ríkisútvarps og Reykjavíkurborgar, ásamt framkvæmdastjóranum, rekstrarhliðina sjálfa. Til að starfrækja svo umfangsmikla stofnun og efla hag hennar, einkum og sér í lagi ef farið væri lengra á þá braut að skipuleggja hljómleikaferðir um landið eða hljómleikaferðir til útlanda, er það geysimikið verk að annast allan undirbúning slíkra hljómleikaferða því held ég að það sé rétt stefna, sem hér er valin í frv., að greina á milli stjórnar hljómsveitarinnar og framkvæmdastjórans og svo hins vegar hljómsveitarstjóranna og verkefnavalsnefndar. Ég held að sú leið, sem farin er í brtt., að leggja verkefnavalsnefndina niður og fela þessi verkefni verkefnavalsnefndar og stjórnarinnar, eins og þau eru í frv., einni stofnun, svokölluðu hljómsveitarráði, sé ekki vænleg til árangurs.

Herra forseti. Það mætti hafa langt mál um Sinfóníuhljómsveit Íslands, bæði frv. sjálft, sögu hljómsveitarinnar og þær brtt. sem hér hafa verið fluttar. Ég held að aðalatriðið sé þó að hv. Alþingi beri gæfu til að afgreiða nú fyrir þinglok frv. til l. um Sinfóníuhljómsveit Íslands og afgreiði það í stórum dráttum í þeim búningi að bæði starfsfólk hljómsveitarinnar og þeir aðilar, sem mesta ábyrgð hafa borið á rekstrinum á undanförnum áratugum, geti vel við unað. Reynslan hefur sýnt okkur að listræn starfsemi af þessu tagi getur verið viðkvæmt viðfangsefni. Við skulum gæta okkar að gera ekki hér á Alþingi brtt. sem e.t.v. gætu sett úr skorðum anda og eðli þeirrar starfsemi sem vel hefur þróast hjá þeim stóra hópi manna sem í dag starfrækir Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þess vegna tel ég að sú leið, sem hæstv. menntmrh. valdi með flutningi þessa frv. og er niðurstaðan af ítarlegri vinnu sem fram hefur farið á vegum rn. og þeirra aðila sem að hljómsveitinni hafa staðið, sé vænlegust í þessum efnum.

Ég get hins vegar skilið að hægt er að finna ýmis og margvísleg rök fyrir öðrum tillögum. Eðli málsins er á þann veg, að erfitt er að kveða alfarið upp úr með að það eigi að vera nákvæmlega á þann veg sem í frv. er, en ekki eins og lagt er til í þessum brtt. eða á annan veg sem kom fram í meðferð nefndarinnar. En kjarni málsins er hins vegar sá, eins og ég sagði áðan, að nauðsynlegt er að lög verði sett um Sinfóníuhljómsveit Íslands og Alþingi hafi þau lög þannig úr garði gert að allir aðilar geti vel við unað. Ég er þess vegna andvígur öðrum brtt., sem hér eru sérstaklega fluttar, en 1. brtt. Þessar brtt. voru kynntar efnislega í nefndinni og meiri hl. n. tók sömu afstöðu. Þetta frv., sem hér er til umr., er ekki flokkspólitískt frv. þannig að hér er ekki um að ræða flokkspólitískan ágreining, að því er ég tel, heldur mismunandi mat einstakra þm. á því, hvað rétt sé að gera í þessum efnum.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, geta þess, að eins og hv. þm. vita hefur á undanförnum dögum verið haldin vegleg afmælishátíð Félags ísl. hljómlistarmanna. Það er hálfrar aldar gamalt um þessar mundir og þessa afmælis hefur verið minnst með veglegum hætti. Það væri viðeigandi afmælisgjöf til íslenskrar tónlistar, til íslenskrar tónmenntar, til íslenskrar menningar, að Alþingi afgreiddi lög um Sinfóníuhljómsveit Íslands á sama vorinu og íslenskir hljómlistarmenn minnast hálfrar aldar afmælis síns félags.