03.03.1982
Efri deild: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2828 í B-deild Alþingistíðinda. (2375)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. 1. umr. um frv. til l. um Sinfóníuhljómsveit Íslands lauk 9. nóv. s.l. Við þá umr. kom fram að hæstv. menntmrh. taldi að vart væri við því að búast að frv. væri fullkomið þegar það var lagt fram, en við nefndarstörf yrði bætt úr þeim ágöllum sem kynnu að vera á frv. Hv. menntmn. Ed. hefur nú haft frv. til meðferðar í nær fjóra mánuði og á öllum þessum tíma hefur meiri hl. n. ekki fundið eitt einasta atriði, sem betur mætti fara, og leggur til að frv. verði samþykkt að öllu óbreytt. Tveir hv. nm. hafa komist að annarri niðurstöðu og flytja nokkrar brtt., en skoðun beggja nefndarhluta er þó sú, að óbreytt skuli standa það ákvæði frv., að 65 stöðugildi skuli vera lágmarkstala fastráðinna hljóðfæraleikara.

Varðandi brtt. minni hl. get ég tekið fram að ég er þeim fylgjandi nema að því er varðar tvö atriði. Ég er andvígur fyrri hluta 2. brtt., þ.e. að niður falli ákvæði frv. um aðild bæjarsjóðs Seltjarnarness. Það ákvæði í frv. byggist á yfirlýstum vilja fulltrúa Seltjarnarnesbæjar um þá þátttöku sem gert er ráð fyrir í frv. Ég veit ekki til, að sú afstaða hafi breyst, og tel því ekki ástæðu til að hagga ákvæðum frv. að þessu leyti. Ég er því einnig andvígur 7. brtt. minni hl., en hún er flutt einungis til samræmis við fyrri hluta 2. brtt.

Í öðru lagi er ég andvígur síðustu setningunni í 1. málslið 3. brtt. minni hl. menntmn., þar sem sett er fram sem skilyrði að formaður hljómsveitarráðs sé menntaður tónlistarmaður. Varðandi þetta atriði er ég sammála því sem segir í grg. frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Auðvitað er það gott ef formaður stjórnar Sinfóníuhljómsveitarinnar hefur staðgóða tónlistarmenntun, en hann þarf ekki síður að hafa menntun og þekkingu í aðrar áttir og einkanlega að því er lýtur að fjárumsýslu og almennum rekstri.“

Þetta get ég tekið undir. Mun áreiðanlega ekki af veita ef ná á því markmiði sem minni hl. menntmn. setur fram í niðurlagi 2. brtt. sinnar, að kappkosta skuli að sem mest af útgjöldum hljómsveitarinnar fáist greitt af tekjum hennar af hljómleikahaldi.

Að öðru leyti en því er varðar þessi tvö atriði í brtt. minni hl. get ég samþykkt tillögur hans. Mér þykir þó fremur óljóst orðalag í upphafi 5. brtt., þar sem segir að hljómsveitarráð ráði hljómsveitarstjóra til tveggja ára í senn. Ég vildi hafa á hreinu hvort hér er átt við einn hljómsveitarstjóra, tvo eða fleiri.

Ástæðan til þess, að ég segi nokkur orð um afgreiðslu þessa máls, er þó ekki afstaða mín til þeirra brtt. sem fram hafa komið. Það er í rauninni óþarfi að vera að tíunda það hér í ræðustól hvernig ég hef í hug að greiða atkv. Afstaða mín eins og annarra kemur í ljós við atkvgr. og er hálfgerð tímasóun að vera að tíunda það fyrir fram.

Tilefnið var á hinn bóginn það, að við 1. umr. um þetta mál vakti ég athygli á að hvergi í frv., í grg. þess, né í þeim ræðum, sem ég hafði hlýtt á, kom fram hver kostnaðarauki það yrði fyrir ríkissjóð ef frv. yrði samþykkt. Það kemur reyndar hvergi fram í frv. eða grg. þess, hvort í þeirri lágmarkstölu fastráðinna hljómsveitarmanna, sem ráða á til Sinfóníuhljómsveitarinnar samkv. frv., þ.e. 65 manns, felst fjölgun eða fækkun frá því sem nú er. Ég þykist hins vegar vita, að þar sé um fjölgun að ræða frá heimiluðum stöðum nú, og er svo sem ekki andvígur því, að hljómsveitina skipi eigi færri fastráðnir hljómsveitarmenn en þeir, sem best þekkja til, telja lágmark þess að hljómsveitin nái máli og geti gegnt hlutverki sínu svo að viðunandi sé. En þegar frv. var rætt við 1. umr. taldi ég naumast til of mikils mælst, að upplýst væri hversu mikinn kostnað samþykkt þess hefði í för með sér fyrir ríkissjóð umfram þau útgjöld sem ríkið hefur nú af Sinfóníuhljómsveitinni, og vitnaði til lagaskyldu þess efnis, að mat skuli lagt á kostnaðarauka sem frv. kunna að hafa í för með sér fyrir ríkissjóð. Hæstv. menntmrh. tók þessari ósk vel og sagði hinn 9. nóv. s.l., með leyfi hæstv. forseta:

„Sú aths., sem hér hefur komið fram og segja má að sé hvað veigamest, er það sem hv. 4. þm. Reykn. nefndi, að eðlilegra hefði verið að leggja fram ásamt þessu frv. skýra kostnaðaráætlun um rekstur hljómsveitarinnar og þá þann aukakostnað sem kynni að verða af rekstri hennar, miðað við að þetta frv. verði að lögum. Ég skal fúslega viðurkenna að þessi greinargerð liggur ekki fyrir og ég er ekki við því búinn nú að svara því nákvæmlega, hvernig þetta mundi fara. Ég vil hvorki játa né neita í því efni að þetta kunni að hafa kostnaðarauka í för með sér. En hitt skal ég taka fúslega til greina, að beita mér fyrir að slík kostnaðaráætlun verði gerð á næstunni og hún verði lögð fyrir menntmn. þegar málið kemur þar til sérstakrar meðferðar.“

Og allra síðustu orð hæstv. ráðh. við lok 1. umr. þessa máls voru eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„En það skulu verða mín síðustu orð nú að vænta þess, að þetta mál verði áfram rætt í hv. deild og í þeirri þingnefnd sem það fær til athugunar. Það skal ekkert skorta á að nefndin fái þær upplýsingar sem fyrir hendi eru í því efni og sjálfsagt er að leggja fram, eins og það hvort ekki sé hægt að gera kostnaðaráætlun eitthvað fram í tímann eða fyrir næsta ár sem segi til um það, hver kostnaður verður við rekstur hljómsveitarinnar með þessu nýja fyrirkomulagi og hvort þar er um einhverja verulega aukningu að ræða af ríkisfé.“

Nú er þetta frv. komið fram til 2. umr. eftir fjögurra mánaða athugun í nefnd. Þar var málið afgreitt án þess að lagðar væru fram nokkrar upplýsingar varðandi þau atriði sem ég spurði um og heitið var.

Ég hef áður sagt að óskir um upplýsingar um hugsanlegan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð þýði engan veginn að ég sé andvígur samþykkt frv., en þm. eiga að vita hvað þeir eru að samþykkja í þessum efnum, og mér finnst að þm., sem spyr að þessu efni, eigi rétt á svari. Ég hef að vísu áður fengið sömu reynslu af slíkum fyrirspurnum. Á sínum tíma spurði ég um kostnað af breytingum sem gerðar voru á lögum um Þjóðleikhús og fékk fögur fyrirheit um upplýsingar og svör sem komu ekki.

Nú stendur skýrt í svokölluðum Ólafslögum, að mat skuli lagt á kostnaðarauka, sem frv. kunna að hafa í för með sér fyrir ríkissjóð, og slíkt mat skuli lagt á áður en ákvarðanir eru teknar, enda sé því skilað til þingnefnda á tilskildum tíma. Þó að það virðist ekki hvarfla að stjórnvöldum að fara að þessum lögum af sjálfsdáðum er það lágmarkskrafa, að þegar beinlínis er beðið um slíkar upplýsingar varðandi stjfrv. fáist einhver svör, a.m.k. þegar gefist hafa fjórir mánuðir til að afla þeirra. En svona hef ég spurt úr ræðustól á hv. Alþingi ár eftir ár án nokkurs árangurs. Svo eru sumir hissa á að ég og aðrir, eins og t.d. hæstv. forseti Sþ., skuli ekki gera tíðreistara í ræðustól en raun ber vitni.

Menn þurfa ekki að sitja á Alþingi í tvo áratugi til þess að komast að raun um að vilji þm. vita eitthvað um þingmál, eða ég tali nú ekki um að ráða einhverju um lyktir þess, er ræðustóllinn einhver ólíklegasti vettvangurinn til að ná einhverju fram í þá veru. Þar eru þingflokksfundir og nefndarfundir, að ógleymdum samræðum í gluggakistum og á öðrum tiltækum stöðum, sá vettvangur sem dugir best. Menn geta náttúrlega ekki verið nema í fáum þingnefndum, síst ef þær eru tímafrekar, en ég er reynslunni ríkari um hversu ræðustóllinn dugir til að ná jafnvel til þeirrar nefndar sem formaður míns þingflokks stýrir. Ég held að þegar metinn er árangur og gagn af verulegum hluta þeirra ræðuhalda, sem fram fara hér á hv. Alþingi, megi komast að raun um að í ótrúlega mörgum tilvikum væri eins vænlegt að hengja rólu hér upp í loftið og lofa mönnum að róla sér þar í staðinn. Það væri meira að segja hægt að spara tíma með því að hafa t.d. tvær í hvorri deild því að aðeins einn kemst fyrir í ræðustólnum.

Ég hef spurt úr ræðustól áður og ég hef spurt nú með litlum árangri. En ég beini því til hæstv. ráðherra, hvort þeim finnist ekki að það mætti fara að huga að því að beita þeim ákvæðum Ólafslaga, sem ég hef minnst á og eru eitt það skásta í lögunum, fyrst nú er búið að beita hinum hæpnari ákvæðum lengi.

Ég held að ég endi þessa ræðu, sem auðvitað er tilgangslaus eins og þær eru æðimargar, sérstaklega ef þær snúast um það að einhverju aðhaldi sé beitt í fjármálum, með því að benda hv. þdm. á að lesa í grg. þess frv., sem hér er verið að fjalla um, aths. með 8. gr. þess. Hugmyndirnar, sem þar koma fram um þær kröfur sem gera eigi til fjárhagsstjórnar stofnana, skýra það best, hvers vegna hvergi kemur yfirleitt fram í grg. frv. hvort samþykkt þess hafi í för með sér útgjaldaauka fyrir ríkissjóð og þá hve mikinn. Í þessari aths. er fjallað um það vandamál, hvernig bregðast skuli við ef stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar verði ljóst einhvern tíma á starfsárinu að áætlanir hennar komi ekki til með að standast, eins og þar segir. Hvað á stjórnin þá að gera? Kannske að draga saman seglin, draga úr útgjöldum eða þá að hækka aðgangseyrinn? Ónei, lausnin er mjög skýr og skorinorð. Þá, eins og segir orðrétt í grg., með leyfi hæstv. forseta, „ber henni að gera rekstraraðilum sínum aðvart og óska eftir aukafjárveitingu“. Það er eina lausnin. Ég ætla að vona að þótt Alþingi afgreiði frv. með eða án breytinga verði ekki þannig litið á að þingið hafi með því lagt blessun sína yfir þessa stefnumörkun um rekstur hljómsveitarinnar.

Ég beini því svo til hæstv. forseta deildarinnar, að hann meti hvort hann vilji leika hæstv. menntmrh. svo að gera hann ómerkan orða sinna með því að afgreiða frv. frá deildinni án þess að þær upplýsingar verði lagðar fram sem hæstv. ráðh. lofaði, eða hvort hann velur þann kostinn að hvor fái sitt, ég upplýsingarnar og hæstv. ráðh. færi á að halda orð sín. — En í samræmi við það sem ég sagði áðan um að ég væri andvígur því ákvæði í 3. brtt. minni hl. menntmn., að formaður hljómsveitarráðs skuli vera menntaður tónlistarmaður, legg ég til, að það skilyrði verði fellt niður, og flyt skriflega brtt. þess efnis við brtt. minni hl. n. og afhendi hana hér með hæstv. forseta til fyrirgreiðslu.