28.10.1981
Neðri deild: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Brátt er nú liðinn einn mánuður frá því að fiskverð átti að taka gildi. Þriðjungur gildistíma almenns fiskverðs, sem átti að liggja fyrir 1. oki. s. l., er því liðinn. Í heilan mánuð hafa íslenskir sjómenn róið í hreinni óvissu og ekki aðeins nú, heldur er þetta að verða föst regla. Þetta er að sjálfsögðu ekki viðunandi ástand vegna þess að hið almenna fiskverð ákveður, eins og allir vita, almenn launakjör sjómannastéttarinnar. Það er ekki viðunandi, að menn þurfi á þriggja mánaða fresti að vinna vikum saman án þess að vita hvað þeir hafa í kaup. Eðlilega hafa sjómenn orðið mjög óánægðir með þetta ástand.

Ég vil leyfa mér að skýra frá því, að á fundi stýrimanna- og skipstjórafélagsins Bylgjunnar á Ísafirði, sem haldinn var í gær, var samþykkt að ísfirskir skipstjórar og stýrimenn muni ekki halda til róðra eftir áramót ef fiskverð liggi þá ekki fyrir á réttum tíma. Sjálfsagt munu fleiri sjómenn og skipstjórnarmenn taka sömu afstöðu og skipstjórarnir á vestfirsku skipunum hafa þarna tekið.

Í Morgunblaðinu í morgun er skýrt frá því, að hæstv. sjútvrh. hafi fengið oddamanni það verkefni að fá fram 5% fiskverðshækkun fyrir sjómenn skömmu eftir að allt annað launafólk í landinu hefur fengið tæplega 9% launahækkun. Í því blaði er jafnframt skýrt frá því, að hæstv. sjútvrh. hafi heitið fiskkaupendum 5% gengisfellingu í kjölfarið ef þeir féllust á að samþykkja þessa niðurstöðu oddamanns. Yrði það þá í þriðja skiptið á þessu ári sem hæstv. ríkisstj. fellir gengið og er meðalgengi erlendra gjaldmiðla þó orðið 43% hærra á tímabilinu jan.-sept. í ár en það var á sama tímabili í fyrra. Svo mikil gengisfellingarríkisstj. situr nú við völd í landinu þó að hún láti annað í veðri vaka.

Ég vil aðeins af þessu gefna tilefni spyrjast fyrir um það hjá hæstv. sjútvrh., hvort þær fregnir, sem Morgunblaðið flytur í morgun af þessum málum, eigi við rök að styðjast.

Herra forseti. Ég vil enn fremur vekja athygli í örstuttu máli á því, hversu alvarlegar horfur eru nú í sjávarútvegi. Hæstv. sjútvrh. hefur heimilað flutning til landsins á hverju nýju fiskiskipinu á fætur öðru þrátt fyrir hávær mótmæli sjómanna og skipstjórnarmanna, því að hvert slíki nýtt skip rýrir stórkostlega afkomuhorfur þeirra sem fyrir eru. Þá liggur fyrir að hætta er á að síldveiði stöðvist innan eins eða tveggja sólarhringa. Og í morgun fengum við uggvænlegar fréttir af stærð loðnustofnsins sem — ef marka má blaðafréttir — er nú svo til horfinn. Það mun að sjálfsögðu ekki aðeins hafa áhrif á loðnuveiðarnar heldur á almenna fiskgengd við Ísland á komandi vetrarmánuðum. Ég leyfi mér því að fullyrða, hæstv. forseti, að afkomu sjómanna sé nú stefnt í hrein óefni.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en ítreka spurningu mína við hæstv. sjútvrh.: Er það rétt hermt hjá Morgunblaðinu í morgun, að oddamanni hafi verið falið af honum og ríkisstj. að ná samkomulagi um 5% fiskverðshækkun skömmu eftir að almennt launafólk hefur fengið 9 I launahækkun og í því sambandi hafi sjútvrh. gefið fiskkaupendum vilyrði um að í kjól