03.03.1982
Neðri deild: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2837 í B-deild Alþingistíðinda. (2384)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Mér þótti nú vænt um þessa síðustu skýringu á því, af hverju ráðh. er svona margfaldur. Ég óttaðist satt að segja eftir málflutningi hans stundum að Alþb. treysti honum kannske betur en framsóknarmönnunum. Það hefði mér þótt nýtt um minn gamla vin, ef svo væri fyrir honum komið, en mér þykir vænt um að hann skuli bera af sér þær sakir. Það hefði mér þótt heldur illt eins og á stendur, ef Alþb. hefði fremur kosið að fela honum að fara með sín ráðherraembætti en ráðh. Framsfl. Ég veit a.m.k. að í eina tíð var upplag hæstv. landbrh. með þeim hætti að honum hefði þótt lítill heiður að slíkur trausti.

Ég vil annars aðeins segja það, að þetta mál kemur nokkuð á óvart, ekki aðeins hv. 3. þm. Vestf., heldur virðist ýmsum stuðningsmönnum ríkisstj., jafnvel úr sama kjördæmi og hæstv. landbrh. og hæstv. fjmrh. raunar einnig, koma þetta jafnmikið á óvart vegna þess að ekki var haft samráð við þá um þetta mál. Ég sé hins vegar vegna blaðafregna og ýmissa ummæla, sem hér hafa komið fram, ástæðu til að spyrja hæstv. landbrh. hvort ekki megi við því búast, að hverri þorra- eða góugjöf, sem rennur til heykögglaverksmiðju í Skagafirði, muni fylgja slíkt hið sama frá ríkisstj. til heykögglaverksmiðju í Saltvík, eða hvort þessi framlög eigi að binda við eitt kjördæmi aðeins, eins og t.d. framlögin til flugvallarins á Sauðárkróki forðum. Ég geri mér grein fyrir að ráðh. úr þessu kjördæmi hafa oft verið frekir til fjárins fram hjá fjárlögum. Það sagði einn góður maður við mig, að það væri nú orðið helvíti hart þegar þrír aðilar væru orðnir í ríkisstj. og Framsfl. væri orðinn skástur í siðferðinu, eins og virðist núna. Það þykir sumum skrítið. En maður er alltaf að læra og verður reynslunni ríkari á þessum síðustu árum. Ég sé að Stefáni Valgeirssyni þykir vænt um að ég skyldi hafa tekið eftir þessu, að það skyldi þó einu sinni koma fyrir að einhver væri verri en Framsfl. þegar um það er að ræða að hygla smávegis. En ég vil spyrja hæstv. landbrh.: Er þess ekki að vænta, að einhverjir smjördropar kunni að drjúpa þarna austur í Saltvík og við megum vænta þess hins sama frá ríkissjóði til heykögglaverksmiðjunnar þar og nú hefur runnið til heykögglaverksmiðjunnar í Skagafirði?