03.03.1982
Neðri deild: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2838 í B-deild Alþingistíðinda. (2386)

Umræður utan dagskrár

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti Ég skal ekki þreyta kappræður við hv. 3. þm. Vestf. um þetta efni lengur. Hér stangast auðvitað á staðhæfingar. Ég held því fram, að þeir ráðh., sem fara með þau ráðuneyti sem eignaraðild ríkisins að þessu fyrirtæki heyrir undir, hafi fulla heimild til að ráðstafa fjárlagafé á þann hátt sem hér hefur verið skýrt. Ég ætla ekki að orðlengja það frekar.

Hér var hins vegar rætt um það, bæði af hv. þm. Halldóri Blöndal og eins af hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, að við fjmrh. værum að hygla, eins og sagt var, tilteknu fyrirtæki í okkar kjördæmi. Þetta er auðvitað mesta fjarstæða. Ég greindi frá því í upphafi máls míns hér í svarræðu, að í landinu væru starfandi fimm graskögglaverksmiðjur. Fjórar af þessum fimm verksmiðjum hafa alfarið verið byggðar upp fyrir ríkisfé og eru alfarið í eigu ríkissjóðs. Ef við ætluðum að hygla einhverju fyrirtæki í okkar kjördæmi mundum við krefjast þess, að ríkissjóður legði einnig að fullu fram fé til að byggja upp grænfóðurverksmiðjur bæði í Hólminum í Skagafirði og í Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu. Þetta höfum við ekki gert, heldur höfum við unnið að því að hvetja heimamenn til að leggja sjálfir fram fé, taka þátt í stofnun hlutafélaga um þessi fyrirtæki til þess að spara ríkisfé, spara útgjöld ríkisins og til þess að koma á því rekstrarformi að heimamenn tækju sjálfir ekki einungis þátt í kostnaði við að koma fyrirtækjunum upp, heldur tækju einnig þátt í ábyrgð á rekstri þeirra.

Ég kalla þetta ekki að hygla okkar eigin kjördæmi. Ég kalla þetta annað. Ég kalla þetta það, að við ætlumst til meiri ábyrgðar og meiri fjárframlaga úr heimahéruðum í okkar kjördæmi en gert hefur verið annars staðar. Þess vegna er rangt og alger öfugmæli og útúrsnúningur að halda því fram, að hér sé um mál að ræða þar sem verið sé að hygla okkar heimabyggðum.

Ég vil svo gjarnan láta þess getið, að fyrirgreiðsla og fjárframlög ríkisins til graskögglaverksmiðjunnar í Vallhólmi og til graskögglaverksmiðjunnar í Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu hafa fylgst að. Þessi fyrirtæki eru mjög sambærileg. Þau eru, eins og fyrr er sagt, ákveðin af hálfu þáv. fjmrh. og landbrh. 1972. Þeim hefur litið þokað

áfram á því tímabili sem síðan er liðið. Það er mál til komið að láta ekki það land, sem þarna liggur, vera lengur sundurflakandi, að láta ekki þessi mál liggja svo ár frá ári áfram. Við viljum vinna að því, að heimamenn eigi þátt í uppbyggingu þeirra og taki á sig að hluta ábyrgð á rekstri þeirra, en við viljum þá um leið að unnt sé af hálfu ríkisins að greiða svo fyrir framgangi þeirra að þau geti orðið staðreynd. Ég vænti þess, að það verði áfram sambærileg fjárframlög og fyrirgreiðsla til þeirra tveggja fyrirtækja sem hér eiga hlut að máli. Um það er auðvitað ekkert hægt að segja, vegna þess að það kunna að verða teknar aðrar ákvarðanir á síðari tímum. En a.m.k. er það er svo varðandi fjárframlög þessa árs að þau eru gersamlega sambærileg til þessara tveggja fyrirtækja. Ég vænti þess, að ef okkar núv. fjmrh. nýtur við verði einnig unnt fyrir graskögglaverksmiðjuna í Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu að kosta af ríkisfé þann rafstreng, sem þar kann að þurfa, og spennistöð allt að 500 kw., svo sem ákvörðun hefur verið tekin um varðandi graskögglaverksmiðjuna í Hólminum. En auðvitað veit enginn hvað verður ef okkar, þessara tveggja ráðh., nýtur ekki við hvað þetta snertir.