03.03.1982
Neðri deild: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2839 í B-deild Alþingistíðinda. (2387)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég átta mig að vísu ekki alveg á því, hvernig hæstv. landbrh. reiknar fjárlagadæmið. En látum það vera. Mér finnst hv. 3. þm. Vestf. hafa sitthvað til síns máls í þeim efnum. En undir hitt vil ég taka með hæstv. landbrh., að það er mjög æskilegt ef hægt er að örva það að menn vilji leggja sparnað sinn í atvinnurekstur, t.d. með því að leggja fé sitt í heykögglaverksmiðju í Hólminum eða Saltvík. Yfirleitt tel ég það af því góða ef um það gæti tekist samkomulag að breyta skattalögum í það horf að almenningur sjái sér hag í því að kaupa hlutabréf í verksmiðjum eins og t.d. í heykögglaverksmiðjunni. Ég veit að hæstv. landbrh. man að ekki stendur á flokksbræðrum hans að styðja hann í þeirri viðleitni. Skulum við með glöðu geði gera allt það sem í okkar valdi stendur til að hafa áhrif á samverkamenn hans nú til þess að slíkur sparnaður megi í skattalegu tilliti sitja við sama borð og annar sparnaður í landinu. Þetta er gamalt hugsjónamál okkar beggja, og mér þykir skemmtilegt að heyra hann tala um það í þessum anda hér. Auðvitað er næsta skref að reyna að fylgja þessu eftir með þingmáli og athuga hvort ekki megi láta á það reyna, hvort fyrir því sé meiri hluti í deildinni og hér á Alþingi, að rétt sé að gera breytingar á skattalögum til að örva það að fólk leggi sparnað í atvinnurekstur.

En það er annað í þessu máli sem mér finnst líka athyglisvert. Ég er út af fyrir sig sammála um að ríkissjóður skili einhverju af því sem hann hefur tekið frá atvinnurekstrinum í of hárri skattlagningu. Mér þykir heldur verra ef því verður skilað með handahófskenndum hætti og þannig að einstakir menn geti látið líta svo út sem þeir séu að gefa eitthvað. Mér finnst það óviðkunnanlegt. En ég er sammála því, að ríkissjóður skuldi atvinnuvegunum fé vegna óheilbrigðrar skattheimtu á liðnum árum. Ég get ekki fellt mig við að ríkissjóður greiði raflögn og tengingu við eitt atvinnufyrirtæki, en ekki við önnur. Ef réttlætanlegt er að ríkissjóður greiði þvílíkan kostnað við heykögglaverksmiðjur, er þá ekki líka réttlætanlegt að ríkissjóður greiði þvílíkan kostnað við annan atvinnurekstur hjá öðrum hlutafélögum þegar svo stendur á?

Ég veit ekki hvenær ráðh. komu sér saman um þetta, hvort það var í jólakökukaffi uppi í stjórnarráði eða einhvers staðar annars staðar, að verja ríkisfé með þessum hætti. En það verður auðvitað að vera eitthvert lag á því, hvernig einstakir ráðh. fara með almannafé og hvernig þeir beina því í atvinnureksturinn. Þess vegna er ég þakklátur Dagblaðinu og Vísi. — Mér finnst þó fallegra að segja dagblaðinu Vísi en Dagblaðinu og Vísi. Mér finnst að mætti sleppa „Dagblaði“ framan af og hafa Vísi einan. Hann var miklu betra blað en Dagblaðið alla tíð hvort sem er. Þess vegna er ég þakklátur og fagna því, að minn gamli samherji skuli nú vera ritstjóri þarna með Jónasi, því hann hefur holl og góð áhrif á blaðið, og tel að það sé komið úr hans deild að þetta mál var tekið upp í þessu síðdegisblaði. — Ég fagna þeirri umfjöllun sem málið hefur fengið og vænti þess, að það megi vekja einstaka ráðh. og ríkisstj. til umhugsunar um hvort ekki megi skila atvinnurekstrinum meira fé en þarna er gert og draga svolítið úr skattheimtunni.