28.10.1981
Neðri deild: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eins og ég skýrði hv. fyrirspyrjanda frá í gærkvöld, þegar hann hafði samband við mig, geri ég ráð fyrir að fiskverð fáist nú í vikunni. Ég geri mér satt að segja vonir um að sá fundur, sem er að hefjast nú, verði síðasti fundur um ákvörðun botnfiskverðs. Ég sagði honum það líka að ég teldi ekki eðlilegt eða reyndar til að greiða fyrir framgangi málsins að menn færu að deila hér um ýmis atriði sem eru til umr. á milli aðila að yfirnefnd. Að sjálfsögðu er það yfirnefnd sem ákveður þetta fiskverð og raunar enginn annar. Það er hún sem verður að komast að meirihlutaniðurstöðu.

Ég get tekið undir það með hv. fyrirspyrjanda, að það hefur dregist of lengi að ná samkomulagi um fiskverð. Ég vil hins vegar fullvissa hann um að það er ekki sök ríkisstj., a. m. k. ekki hennar einnar, langt frá því, því að aðilar að yfirnefnd hafa — reyndar fleiri en einn — beðið um frest við ákvörðun á fiskverði núna og hefur oddamaður orðið við því. Það er heldur ekkert einsdæmi að dregist hafi að ákveða fiskverð fram yfir tilskilinn tíma. Engu að síður tek ég undir það með hv. þm., að vitanlega væri stórum æskilegra að unnt væri að ákvarða fiskverð um þau mánaðamót sem að er stefnt hverju sinni. Þyrfti sá háttur að komast á.

Út af fréttum Morgunblaðsins vil ég segja hv. þm. að það er alrangt að lofað hafi verið gengisfellingu. Það er ekki fótur fyrir því. Hitt er alveg ljóst og vita allir, að það er verið að leita ýmissa leiða til að bæta afkomu vinnslunnar. T. d. samþykkti bankaráð Seðlabankans í gær að endurgreiða gengisuppfærslu bankans frá gengisfellingunni 26. ágúst og fyrir þinginu liggur brtt. við brbl. sem mundi heimila bankanum að greiða þá skuld sem er í frystideild Verðjöfnunarsjóðs. Ég vek einnig athygli á því, að bankaráð Seðlabankans samþykkti fyrr að breyta afurðalánum, sem eru í dollurum, í þann gjaldmiðil sem er skilað. Þar er um að ræða verulega endurgreiðslu til útflutningsatvinnuveganna, um það bil 23–24 millj. til frystingarinnar. Einnig vil ég vekja athygli á því sem hér var rætt fyrir nokkru, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna lagði fram tillögur og ábendingar um enn frekari lækkun á fjármagnskostnaði — við skulum segja útflutningsatvinnuveganna eða atvinnuveganna almennt. Allt hefur þetta verið rætt við Seðlabankann og er í athugun.

Ég hef áður lýst þeirri sannfæringu minni, að enn megi draga úr fjármagnskostnaði útflutningsatvinnuveganna svo að ekki þurfi að mæta erfiðleikum þeirra í verðbólgunni að öllu leyti með gengisbreytingu. Ég hygg að hv. þm. skilji það mætavel, að í 40% verðbólgu verður ætíð að breyta gengi annað slagið. Það er einlæg von mín, að ekki þurfi að gera það á næstunni. En rekstrargrundvöll atvinnuveganna verður að tryggja og því er verið að kanna allar leiðir til þess.