03.03.1982
Neðri deild: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2841 í B-deild Alþingistíðinda. (2390)

93. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Frsm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Félmn. hefur haft til meðferðar frv. til l. um atvinnuréttindi útlendinga, 93. mál Nd., þskj. 96. Nefndin sendi frv. til umsagnar nokkurra aðila og svör bárust frá dómsmrn., Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands.

Eins og hv. þdm. er kunnugt var frv. þetta til meðferðar á síðasta þingi og hafði verið samþ. við 2. umr. hér í hv. deild með þeim breytingum sem félmn. deildarinnar lagði til. Nefndin hafði lagt mikla vinnu í að samræma umsagnir og jafna ágreining um upphaflega frv., m.a. milli dómsmrn. og félmrn.

Þetta frv. á þskj. 96 er tiltölulega litið breytt miðað við brtt. er samþ. voru frá félmn. á síðasta þingi. Þó hafa fleiri ábendingar dómsmrn. verið teknar til greina við endurflutning frv.

Félmn. var sammála um að draga nokkuð úr skriffinnsku og margföldu opinberu eftirliti með framkvæmd þessara mála miðað við það sem frv. gerir ráð fyrir, einfalda framkvæmdina án þess að draga úr gildi hennar að því er varðar að tryggja rétt launþeganna. Á þskj. 350 leggur n. sameiginlega fram nokkrar brtt. sem miða að þessari einföldun, enn fremur orðalagsbreytingar svo og að nokkru leyti efnisbreytingar sem ég mun leitast við að skýra nánar.

Á þskj. 350 gerir nefndin brtt. við 2. gr. frv. Þar er talað um „að flytja til landsins“, það sé óheimilt, og leggjum við til að breyta þessari grein þannig:

„Óheimilt er hverjum manni, félagi eða stofnun, sem rekur atvinnu eða starfrækir fyrirtæki, hverju nafni sem það nefnist, að taka útlendinga í þjónustu sína gegn kaupgreiðslu í peningum eða hlunnindum, hvort heldur er um langan tíma eða skamman, eða hlutast til um að útlendingar flytjist til landsins í því skyni, án leyfis félmrh.“

Hér er fyrst og fremst að ræða orðalagsbreytingu, en það riðlar ekki að öðru leyti því sem greinin stefnir að. Við 3. gr. gerir nefndin brtt. við síðustu málsgr., en í henni segir í frv.: „Atvinnuleyfi er jafnan bundið því skilyrði að útlendingur hafi leyfi til að dveljast hér á landi samkv. þeim lögum nr. 45/1965, um eftirlit með útlendingum.“

Brtt. nefndarinnar er þannig: „Óheimilt er að veita atvinnuleyfi útlendingi sem hefur ekki leyfi til dvalar hér á landi samkv. lögum nr. 45/1965, um eftirlit með útlendingum, eða hefur verið gert að fara af landi brott samkv. þeim lögum.“

Þetta er sama breytingin, sem nefndin tekur upp hér, og samþ. var við 2. umr. málsins þegar frv. var til meðferðar síðasta þingi. Þetta er einnig samróma því sem kom fram í umsögn dómsmrn.

4. gr. er allmikið breytt, eins og kemur fram, en í 4. gr. frv. er um talsvert mikið eftirlit að ræða eða umsagnir. Nefndin taldi, að slíkt væri óþarft, og vildi einfalda það frekar og gera aðgengilegra í meðferð, en eins og kemur fram í 4. gr. er gert ráð fyrir miklum upplýsingum:

„Með umsókn um atvinnuleyfi skulu vera upplýsingar um vinnustaðinn, tegund vinnu, aðila kjarasamnings og áætlaða lengd daglegs vinnutíma á ráðningartímanum.

Í umsókn skal enn fremur færa rök fyrir nauðsyn þess að nota erlent starfsfólk.“

Áður en atvinnuleyfi er gefið á að rannsaka leyfið á vinnumálaskrifstofu félmrn. Síðan á að leita til Alþýðusambandsins, Farmanna- og fiskimannasambandsins, Vinnuveitendasambandsins, Vinnumálasambandsins, Stéttarsambands bænda, BSRB og BHM o.s.frv., eins og stendur í 4. gr. frv.

Nefndin hefur orðið algjörlega sammála um að leggja til að 4. gr. orðist þannig:

„Með umsókn um atvinnuleyfi skulu vera upplýsingar um tegund vinnu, aðila viðkomandi kjarasamnings og áætlaða lengd daglegs vinnutíma á ráðningartímanum. Í umsókn skal enn fremur færa rök fyrir nauðsyn þess að ráða erlent starfsfólk.

Áður en atvinnuleyfi er veitt rannsakar vinnumálaskrifstofa félmrn. sjálfstætt atvinnuástand á viðkomandi stað, séu slíkar upplýsingar ekki þegar fyrir hendi. Leitað skal umsagnar útlendingaeftirlitsins áður en atvinnuleyfi er veitt.

Vinnumálaskrifstofa félmrn. skal árlega leita álits vinnumarkaðarins um almenna stefnumörkun varðandi ráðningu erlends starfsfólks, sbr. 53. og 54. gr. laga nr. 13/1979 og reglugerð samkv. þeim lögum.“

Það er sem sagt verið að gera málið einfaldara og afmarka frekar skyldu vinnumálaskrifstofu félmrn. um að hún hefur þetta hlutverk fyrir og þarf ekki að rækja þessa skyldu í hvert skipti sem um atvinnuleyfi er beðið.

Í 5. gr. frv. stendur: „Vinnumálaskrifstofa félmrn. útbýr og dreifir skriflegum upplýsingum til sendiráða Íslands, til opinberra vinnumiðlana erlendis.“ Nefndin leggur til að í þessari mgr. falli brott orðin „til opinberra vinnumiðlana erlendis“ — það sé óþarft, það sé nóg að upplýsingar séu hjá sendiráðum Íslands og öðrum sem þess óska sérstaklega.

Í 3. tölul. 9. gr. í frv. stendur: „umsækjandi hafi óflekkað mannorð“. Þetta var fellt niður í brtt. félmn. á síðasta þingi, og einnig hefur verið talið frá hendi dómsmrn. óþarft að hafa þetta ákvæði í lögum. Þess vegna höfum við í félmn. lagt til að þessi liður, 3. liður, verði felldur niður: „umsækjandi hafi óflekkað mannorð“, en ný mgr. komi í staðinn, sem verði 3. mgr. og orðist þannig: „Heimilt er að synja manni um leyfi, ef ákvæði 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga eiga við um hagi hans.“ — Þetta er í samræmi við reglur, bæði milliríkjareglur og almennar reglur, um sakhæfni manna og á að vera nægjanlegt að mati þeirra manna sem við verðum að telja að hafi þarna nokkra reynslu og þekkingu.

Við 12. gr. eru nokkrar brtt. Það eru í fyrsta lagi orðalagsbreytingar. Við leggjum til að síðari málsliður 1. mgr. orðist þannig: „Hafi aðili hlutast til um að útlendingur, sem hefur verið synjað um atvinnuleyfi, flytjist til landsins til að taka hann í þjónustu sína, ber þeim aðila að sjá um brottflutning slíks erlends starfsmanns, innan þess tíma sem ráðh. tiltekur, ríkissjóði að kostnaðarlausu.“ Þetta er fyrst og fremst orðalagsbreyting, en meiningin er sú sama og er í núverandi 12. gr.

Síðan kemur 2. mgr. sem er umorðuð. Í frv. stendur: „Heimilt er ráðh. að láta stöðva með lögbanni þær framkvæmdir, er nota skyldi útlendinga til“ o.s.frv. Nefndin leggur til að þessi mgr. verði orðuð þannig: „Heimilt er ráðh. að láta stöðva með lögbanni þær framkvæmdir, er útlendingar starfa við án leyfis, þar til þeir eru farnir út landi eða hættir störfum og tryggt þykir að þeir verði farnir innan ákveðins tíma.“

Þá er hér til viðbótar brtt. við 3. mgr. 12. gr. Í frv. segir: „Þegar umsókn um atvinnuleyfi er afgreidd ber jafnframt að tilkynna hinum erlendu starfsmönnum leyfisveitingar eða synjanir, er þá varða“ Samkv. brtt. bætist við: „og enn fremur útlendingaeftirlitinu“.

Eins og hv. þdm. vita er hlutverk útlendingaeftirlitsins í þessu máli mjög mikilvægt og þess vegna eðlilegt að lagt sé til að það fylgist vel með framgangi málsins.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir brtt., en í nál. á þskj. 349, segir félmn.:

„Nefndin hefur tekið frv. til umfjöllunar á fundum sínum, borið saman við umsagnir og nál. nefndarinnar á síðasta þingi, en þá varð frv. ekki útrætt.

Nefndin varð sammála um að leggja til að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem hún flytur á sérstöku þskj. Einstakir nm. áskíla sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. við frv.“

Undir þetta nál. skrifa allir nm. í félmn. Það er algjört samkomulag um það álit sem hér hefur verið lagt fram.