04.03.1982
Sameinað þing: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2854 í B-deild Alþingistíðinda. (2402)

38. mál, fangelsismál

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. 1. flm. hefur flutt hér yfirgripsmikla ræðu svo að það er efnislega fáu við að bæta. Ég er sannfærður um að surtarbrandslögin á Vestfjörðum verða nýtt. Hvort það er orðið arðbært á þessari stundu er erfitt að fullyrða, en margt bendir til að svo sé. Ég tel að það séu fyrst og fremst þrjú atriði sem bendi mjög ákveðið til að svo sé. Olíuverð hefur stórhækkað frá þeim tíma að námugreftinum var hætt. Tæknin við að brenna þessu efni er allt önnur í dag en hún var. Jafnframt má segja að við búum við raforkukerfi, sem hefur mjög misjafna framleiðslugetu eftir árstíma. Þegar mest er þörf á raforku til upphitunar íbúðarhúsnæðis er minnst rafmagnsframleiðsla í landinu. Þess vegna hljóta kyndistöðvar, sem nýta vissan tíma ársins aðra orku en rafmagn til upphitunar, að eiga mikinn rétt á sér.

Ég hef átt því láni að fagna að eiga fyrir kunningja námumann á Vestfjörðum, einn af þeim örfáu sem eyddu í það hluta af sinni starfsævi, að vísu ekki löngum hluta, að vinna við námugröft. Hann hefur alltaf bætt einu atriði við þegar rætt hefur verið um námugröftinn sem var í Súgandafirði. Það atriði er á þessa leið: Surtarbrandslögin eru í gegnum fjallið og ef haldið yrði áfram námugrefti á þessum stað er ekki að vita nema þetta sé jafnframt skynsamlegasta leiðin á milli byggðarlaganna. Og hann hefur bætt við: Fyrst surtarbrandslögin eru öðrum megin við Súgandafjörð, þá eru þau hinum megin við hann líka. Það þýðir að þau ná yfir í Hnífsdal.

Ég kem þessu hér á framfæri vegna þess að mér finnst að þegar ákvarðanir verða teknar um það, hvar skuli hefja surtarbrandsvinnslu, — þær ákvarðanir verða teknar einhvern tíma, það er öruggt, — þá séu það einnig svona atriði, sem beri að hafa í huga, og nálægðin við aðalkaupendur, ef surtarbrandurinn yrði notaður sem eldsneyti í kyndistöðvar Orkubús Vestfjarða.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð fleiri. Ég vænti þess, að Alþingi Íslendinga liti á þetta mál með fullum skilningi.