04.03.1982
Sameinað þing: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2858 í B-deild Alþingistíðinda. (2405)

224. mál, byggðaþróun í Árneshreppi

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér hefur verið flutt ítarleg framsöguræða og ekki þörf á að bæta við mörgum efnisatriðum. Ég vil byrja á að lýsa því yfir, að ég fagna því að þm. Vestf. skuli allir standa saman að þessum tillöguflutningi. Þeir eru kannske þekktari fyrir það að staðaldri í sölum þingsins að elda grátt silfur sín á milli.

Þessi þáltill. er flutt að beiðni hreppsnefndar Árneshrepps. Okkur hefur bæði verið fluttur sá boðskapur skriflega og einnig kom á okkar fund á liðnu hausti oddviti Árneshrepps, Gunnsteinn Gíslason, og flutti þetta mál af sinni hógværð og festu.

Ég held að það verði einnig að líta á stöðu landbúnaðarins þegar afstaða er tekin til þessarar till. Búið var að gera áætlun um uppbyggingu í Árneshreppi, en kvótakerfi og markaðsörðugleikar í landbúnaði gera það að verkum, að hún nýtist ekki byggðinni sem skyldi. Má því segja að ástæðan fyrir nauðsyn þessarar aðgerðar sé tvíþætt. Í annan stað er alveg fráleitt að gera ráð fyrir að á þessum stað sé hægt í náinni framtíð að þjónusta Ríkisskip á þann veg að varan sé sett niður í bringingarbát. Það er sama meðferðin og við þm. eða frambjóðendur á Vestfjörðum sumir hverjir fengum þegar við sóttum þá heim fyrir seinustu kosningar og máttum því af eigin raun gera okkur glögga grein fyrir því, hvernig ástandið er. Ég sé að menn kima við, og það er kannske gott að viss húmor sé til, en öllu gamni fylgir nokkur alvara.

Hin ástæðan fyrir því, að það er nauðsyn að byggja þessa höfn, er sú að með því móti er hægt að auka atvinnutekjur í sveitarfélaginu verulega án þess að um meiri framleiðslu á landbúnaðarvörum sé að ræða.

Að lokum vil ég alveg sérstaklega taka undir það sem 1. þm. Vestf. sagði um þær eyðibyggðir sem nú eru á Vestfjörðum. Þá var sagt að menn hefðu farið of seint af stað að leysa málið. Ég vona að það hvarfli ekki að neinum, sem á Alþingi situr, að nú sé farið of snemma af stað.