28.10.1981
Neðri deild: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég tel að fram hafi komið hjá hæstv. sjútvrh. því sem næst afdráttarlaus yfirlýsing um það, að gengisbreyting muni ekki fylgja í kjölfar ákvörðunar fiskverðs. Er út af fyrir sig gott að hæstv. ráðh. skuli taka alfarið af skarið um það. Hæstv. ríkisstj. hefur á þessu ári þegar fellt gengið tvívegis. Eins og ég sagði í máli mínu áðan upplýsir Þjóðhagsstofnun þm. um að meðalgengi erlends gjaldeyris sé á tímabilinu jan.-sept. 43% hærra en það var á sama tíma í fyrra. Meðalgengi erlends gjaldmiðils hefur á einu ári hækkað um 43%. Slík hefur gengisfellingaráráttan verið hjá hæstv. ríkisstj. Ég fagna því, að það skuli koma fram yfirlýsing frá hæstv. sjútvrh. um að þess sé ekki að vænta, að þriðja gengisfelling á 10 mánuðum dynji yfir okkur alveg á næstunni.

Hæstv. ráðh. virðist m. ö. o. vera sammála formanni þingflokks Alþb., sem sagði úr þessum ræðustól í gær að það væri engin ástæða til að hafa áhyggjur af afkomu fyrirtækja í sjávarútvegi, þau stæðu sig svo vel að þau gætu hvorki meira né minna en flutt inn dýra togara og fiskiskip án þess að þurfa á lánsfjárfyrirgreiðslu að halda. Hæstv. sjútvrh. virðist vera sammála formanni þingflokks Alþb. að þessu leyti. Ég fagna því út af fyrir sig að það skuli nú liggja ljóst fyrir, að gengisbreyting verður ekki gerð í kjölfar þeirrar fiskverðsákvörðunar sem tekin verður.

Hitt vil ég taka fram, að það er ekki viðunandi fyrir launastétt í landinu eins og sjómenn að þurfa á þriggja mánaða fresti að starfa um margra vikna skeið án þess að hafa hugmynd um hvaða kaup þeir beri úr býtum. Þetta þurfa sjómenn að gera og hafa þurft að gera á þriggja mánaða fresti nú um nokkuð langt skeið. Nú eru þeir búnir að vinna í heilan mánuð án þess að hafa hugmynd um hvað þeim er ætlað að bera úr býtum, vegna þess að fiskverð liggur ekki enn fyrir. Eins og ég sagði hafa skipstjórar á norðanverðum Vestfjörðum tekið þá ákvörðun að láta ekki bjóða sér slíkt frekar og munu ekki halda til róðra ef fiskverð liggur ekki fyrir á réttum tíma um n. k. áramót.

Hæstv. sjútvrh. svaraði því engu hvort það séu réttar fréttir hjá Morgunblaðinu, sem það er með í morgun, að hann hafi falið oddamanni í yfirnefnd fiskverðs að beita sér fyrir aðeins 5% fiskverðshækkun á sama tíma og allir aðrir launþegar hafa fengið 9% launabætur frá og með 1. sept. eða rétt tæplega 9%. Ég vil í þessu sambandi biðja menn að íhuga orð formanns Sjómannasambands Íslands, sem hann hefur við Dagblaðið í dag. Dagblaðið birtir viðtal við formanninn á baksíðu sinni. Þar varar hann mjög alvarlega við því, ef það er tilgangur ríkisstj. að ákveða nú að sjómenn fái aðeins hálfa þá launahækkun sem aðrar stéttir hafa fengið. Formaður Sjómannasambandsins lýsir því yfir, að séu þessar fréttir réttar megi búast við að sjómenn taki til sinna ráða.

Ég vil einnig vara mjög við þeim atvinnuhorfum sem nú eru fram undan fyrir sjómannastéttina. Síldveiðar eru að stöðvast. Það hafa komið mjög uggvænlegar fréttir varðandi loðnuna. Þær fréttir munu ekki aðeins hafa áhrif á loðnuveiðina sjálfa, eins og kom fram hjá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni áðan, heldur einnig á fiskigöngur við Ísland í vetur. Eins og menn vita hefur þorskfiskurinn elt loðnuna og lifir á henni, svo að menn geta rétt ímyndað sér hvað getur gerst við strendur landsins ef loðnan er nú horfin eða um það bil að hverfa. Ég vil vara menn við því ástandi, sem hér er að skapast, og harma mjög að hæstv. sjútvrh. skuli ekki geta gefið frekari svör um þau verkefni sem hann hefur falið oddamanni í yfirnefnd um fiskverð að annast. Harma ég það enn frekar þegar hæstv. ráðh. lýsir því yfir hér, að hann eigi von á að þessi ákvörðun verði tilkynnt hér í dag. Út af fyrir sig ætti hæstv. ráðh. því ekkert að vera að vanbúnaði að geta skýrt frá því, hvaða erindi hann hefur fengið oddamanni sínum í yfirnefndinni.