08.03.1982
Efri deild: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2869 í B-deild Alþingistíðinda. (2419)

220. mál, fóðurverksmiðjur

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Lagaákvæði um grænfóðurverksmiðjur voru fyrst samþ. af Alþingi með lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum, nr. 45/1971. Þessi lagaákvæði voru frumsmíð á þeim tíma og hafa staðið óbreytt síðan þrátt fyrir að reynsla hafi sýnt að þörf væri á að setja um þetta efni fyllri ákvæði.

Á þeim tíma, sem síðan hefur liðið, hefur verið starfað eftir þessum lagaákvæðum að nokkru. M.a. var þegar eftir að lögin höfðu verið afgreidd skipuð nefnd á grundvelli þeirra til að gera áætlun um stofnun og starfrækslu nýrra grænfóðurverksmiðja í landinu. Þessi áætlun var síðan staðfest af þeim aðilum sem hlut áttu að máli: í fyrsta lagi landnámsstjórn og Búnaðarfélagi Íslands og síðar af þáv. landbrh. á árinu 1972. Nú eru starfandi fimm grænfóðurverksmiðjur í landinu, en í frv. því, sem hér liggur fyrir, er lagt til að grænfóðurverksmiðjur beri heitið fóðurverksmiðjur.

Fjórar af þessum fimm verksmiðjum eru í eigu ríkisins og starfa tvær þeirra á Rangárvöllum, þ.e. í Gunnarsholti og á Stórólfsvelli, en aðrar að Flatey á Mýrum og í Saurbæ í Dalasýslu. Enn fremur er rekin ein slík verksmiðja í einkaeign í Brautarholti á Kjalarnesi. Elst þessara verksmiðja er verksmiðjan á Stórólfsvelli, sem hóf starfrækslu á árinu 1961, en framleiðsla verksmiðjunnar það ár var aðeins 230 tonn. Aðrar verksmiðjur hófu starfsemi sem hér segir: verksmiðjan í Gunnarsholti hóf starfsemi 1964, Brautarholtsverksmiðjan ári síðar eða árið 1965, Fóðuriðjan í Saurbæ í Dölum á árinu 1974 og Grænfóðurverksmiðjan í Flatey 1975. Þegar sú áætlun var gerð á grundvelli núverandi lagaákvæða, sem ég gat um í upphafi máls míns, var ákvarðað að stofna til þriggja nýrra grænfóðurverksmiðja, samkvæmt ákvörðun þáv. landbrh. Var hin fyrsta þeirra ákveðin í Flatey á Mýrum og hóf hún störf eins og áður sagði 1975, — en enn fremur var ákveðið að reistar yrðu grænfóðurverksmiðjur í Hólminum í Skagafirði og Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu. Þegar þessi áætlun var gerð var í undirbúningi stofnun grænfóðurverksmiðjunnar í Saurbæ í Dölum á vegum einkaaðila, en ríkið yfirtók þá verksmiðju skömmu síðar og hefur hún starfað á vegum ríkisins alla tíð frá því að hún hóf starfrækslu. Þær verksmiðjur, sem ákveðið var að skyldu reistar í samræmi við þessa áætlun, aðrar en Flateyjarverksmiðjan, þ.e. verksmiðjurnar tvær á Norðurlandi, hafa verið í undirbúningi allan þann tíma sem síðan hefur liðið og hefur sá undirbúningur verið nokkuð slitróttur og legið niðri sum árin, en nú er unnið að undirbúningi þeirra með meiri krafti en áður.

Með frv. þessu, sem undirbúið er af starfsmönnum landbrn. og fjmrn. og með aðild landnámsstjóra, er gert ráð fyrir að sett verði sérstök lög um fóðurverksmiðjur og horfið frá því að kalla þessar verksmiðjur grænfóðurverksmiðjur eða graskögglaverksmiðjur, eins og áður hefur verið gert. Lagafrv., sem hér liggur nú fyrir til umr., felur í sér rammalöggjöf um þetta efni sem er nokkuð rúm, og er gert ráð fyrir að sett verði reglugerð til að kveða nánar á um ýmis þau ákvæði sem í frv. felast.

Frv. felur í sér, að gefin er heimild til þess að ríkissjóður eigi aðild að stofnun hlutafélaga um stofnun og rekstur fóðurverksmiðja. Það felur í sér heimildir til að selja þær verksmiðjur, sem nú eru í ríkiseign, hlutafélögum, félagssamtökum eða jafnvel einstaklingum. Frv, felur í sér að í raun er ekki gert ráð fyrir að stofna fleiri fóðurverksmiðjur alfarið á vegum ríkisins en þegar hefur verið gert. Og frv. felur í sér breytingar á stjórnunarskipulagi þeirra verksmiðja, sem nú starfa á vegum ríkisins, þannig að um málefni þeirra fjalli ein stjórn í stað þess að nú hefur hver verksmiðja stjórn fyrir sig. Um þessi atriði vildi ég fara örfáum orðum.

Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að færð verði í lög ákvæði sem veita heimild til þess að ríkissjóður eigi aðild að stofnun hlutafélaga um þennan rekstur. Það hefur sýnt sig, eins og ég hef þegar rakið, að undirbúningur þeirra verksmiðja, sem áætlað var 1972 að reisa á Norðurlandi, hefur gengið ákaflega hægt. Smám saman hefur vaxið vilji fyrir því og opnast möguleikar til þess að heimaaðilar leggi fram fjármagn til stofnunar slíkum fyrirtækjum og taki þá um leið á sig að hluta ábyrgð á þessum rekstri. Ég tel að það sé út af fyrir sig hyggileg stefna að fyrirtæki, sem ekki eru stærri í sniðum en hér um ræðir, séu að hluta á ábyrgð heimaaðila og þeir hafi verulegra hagsmuna að gæta í sambandi við rekstur þeirra. Til þess að það geti orðið er nauðsynlegt að fella í lög ákvæði sem heimila ríkissjóði að taka þátt í uppbyggingu slíkra fyrirtækja.

Þá er gert ráð fyrir að heimildir séu til að selja þau fyrirtæki sem nú eru í eigu ríkisins. Í samræmi við það, sem gert er ráð fyrir að sé framtíðarstefna í þessum málum samkvæmt frv., er eðlilegt að það feli jafnframt í sér heimild til breytinga á eignarfyrirkomulagi þeirra verksmiðja sem nú eru starfandi. Ég vil láta það koma fram, að í raun og veru eru þetta þau atriði þessa máls sem brýnast er og nauðsynlegast að fá lagaákvæði um að þessu sinni, vegna þess að undirbúningur hlutafélaga er þannig bæði varðandi verksmiðju í Hólminum í Skagafirði og í Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu og enn fremur er á undirbúningsstigi slíkt fyrirtæki í Borgarfirði, að af frekara áframhaldi á þeim undirbúningi getur tæpast orðið af hálfu ríkisins nema fá heimild til slíks í lögum. Það er því orðið ákaflega brýnt að slík lagaákvæði séu sett. Það eitt gerir það að verkum, að mjög nauðsynlegt er að frv. af þessu tagi fái afgreiðslu á yfirstandandi Alþingi.

Hér skal ekki farið mörgum fleiri orðum um form á þessu frv. Ég vil aðeins segja það, að megintilgangur uppbyggingar fyrirtækja á þessu sviði er auðvitað að nýta innlend gæði til fóðuröflunar í auknum mæli, að færa inn í landið í auknum mæli fóðurframleiðslu. Við getum sagt að hér sé um að ræða kjarnfóðurframleiðslu úr innlendum hráefnum. Verksmiðjur þær, sem hér er um að ræða, eru í frv. kallaðar fóðurverksmiðjur m.a. með tilliti til þess, að reiknað er með að þær verði reknar í því skyni að framleiða ekki einvörðungu fóður úr grasi og grænfóðri, heldur einnig að í það fóður verði blandað öðrum efnum sem falla til hér innanlands. Þar á ég ekki hvað síst við margs konar sláturúrgang sem ella nýtist lítið eða ekki. Er þegar nokkur reynsla af því að nýta sláturúrgang til vinnslu á fóðri. Þegar er einnig reynsla fyrir því að nýta mör og lýsi og lítils háttar af fisk- og hvalmeltu til fóðurframleiðslu og íblöndunar við annað fóður. Þessi mál eru að vísu tiltölulega skammt á veg komin í rekstri fóðuriðnaðar hjá okkur Íslendingum, en athuganir fara þó fram á því, á hvern hátt þessum atriðum verði best fyrir komið. M.a. er starfandi stjórnskipuð nefnd til að athuga möguleika á að framleiða hér í landinu refafóður eða loðdýrafóður, fiskafóður og gæludýrafóður, en þessi fóðurefni eru að verulegum hluta flutt inn í landið eins og nú standa sakir. Er í rauninni ástæða til að við freistum þess til hins ýtrasta að nýta þau hráefni, sem falla til í landinu sjálfu, til að framleiða þetta fóður. Er ekki að efa að við getum ráðið við þá tækni sem til þess þarf, og víst er að við eigum góð hráefni. Með tilliti til þess. að e.t.v. gæti þessi rekstur farið saman að verulegu leyti, eru þessar verksmiðjur hér kallaðar fóðurverksmiðjur. Er raunar þegar nokkur reynsla fyrir því, að íblöndun hráefna bæði frá landbúnaðarafurðum og sjávarafurðum í grasmjöl hentar til framleiðslu á slíkum fóðurkögglum.

Það verður ekki hægt að vík ja sér undan því, að rekstur á slíkum verksmiðjum verður auðvitað að taka tillit til markaðar og markaður í landinu sjálfu fyrir þessa framleiðslu hlýtur vitaskuld að mestu leyti að ráðast af verði, en einnig verður að taka fullt tillit til gæða framleiðslunnar. Hér er um annan og veigamikinn þátt þessa máls að ræða, sem ekki er tekið á í þessu frv., en hlýtur þó að verða að taka til athugunar í framhaldi af því eða samhliða því að aukning yrði á fóðurframleiðslu af þessu tagi.

Eins og nú standa sakir hefur framleiðsla graskögglaverksmiðjanna orðið að hámarki á árinu 1980 tæp 13 þús. tonn, en var á síðasta ári tæp 10 þús. tonn. Á sama tíma hefur það gerst, að innflutningur á fóðri til landsins hefur minnkað verulega frá því sem hann var mestur, en hann var mestur á árinu 1979, eða tæplega 85 þús. tonn. Á árinu 1981 var innflutt fóður á hinn bóginn 60 400 tonn og hafði því minnkað um meira en 14. Ég tel að það séu öll skilyrði til þess, að við ættum að geta framleitt meira af þessari nauðsynlegu rekstrarvöru landbúnaðarins í landinu sjálfu, og ekki þarf að draga í efa að gæði framleiðslunnar gætu orðið mikil. Við ættum að geta framleitt a.m.k. helming af þeirri fóðurvöru, sem notuð er, og sennilega miklu meira. Á hinn bóginn þarf að gefa því gaum, að verðsamanburður verði ekki með þeim hætti að hann kyrki þessa framleiðslu, ekki síst á meðan fyrirtækin bera verulegan fjármagnskostnað, sem væri mestur rétt eftir að nýjar verksmiðjur hafa tekið til starfa. Þessi þáttur málsins, eins og ég sagði, er mjög veigamikill og geri ég ráð fyrir að setja þurfi sérstök lög áður en langir tímar líða um fóðurverslun og fóðurframleiðslu, jafnvel innflutning á fóðurvörum til landsins, en það mál er það skammt á veg komið í undirbúningi að ég geri ekki ráð fyrir að slíkt frv. verði lagt fram á þessu þingi. Það þarf mikinn undirbúning. Margir hagsmunaaðilar eiga hlut að máli, Er nauðsynlegt að vinna mikið undirbúningsstarf til að freista þess að ná samkomulagi um slíki stórmál.

Ég tel að þau mál, sem hér er fjallað um, séu ákaflega mikilvæg fyrir íslenskan landbúnað og raunar fyrir þjóðarbúið í heild. Það er ekki einungis á þessu sviði sem þau sannindi gilda að okkur Íslendingum beri að byggja atvinnulíf okkar upp með þeim hætti að nýta sem allra best þau hráefni, sem við eigum í landinu sjálfu, og byggja atvinnuvegi okkar þannig upp að þeir séu í ríkara mæli en hingað til óháðir flutningum á slíkum rekstrarvörum hingað til landsins erlendis frá með þeim sveiflum og þeirri óvissu sem er um viðskipti við önnur lönd í mörgum slíkum tilvikum. Á engu sviði er nærtækara að efla íslenskt atvinnulíf ef einmitt að vinna að því að auka framleiðslu úr innlendum hráefnum til hagsbóta fyrir atvinnuvegina.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjalla um þetta frv. í lengra máli. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.