28.10.1981
Neðri deild: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þá gagnrýni, sem hér hefur komið fram hjá hv. þm., varðandi þá ákvörðun sem nú hefur verið beðið eftir langtímum saman, ákvörðunina um fiskverð. En ég vil ganga enn lengra og ítreka og aftur ítreka þá spurningu sem hv. fyrirspyrjandi utan dagskrár, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, var að enda við að beina til hæstv. sjútvrh. Hún er þessi: Er hann að beita sér fyrir að samkomutag takist um fiskverð með fiskkaupendum og oddamanni sem venjulega hefur farið að vilja ríkisstj. innan þessarar yfirnefndar? Er hann að beita sér fyrir því, að sjómenn eigi aðeins að fá 5% fiskverðshækkun?

Það er ekki mjög langt síðan ég hlustaði á hæstv. ráðh., að vísu var þar mikill glasaglaumur, hvar hann sagði þau orð, og reyndar hefur hann endurtekið þau, að ekki væri hægt að ráða við verðbólguna með því að lemja á sjómönnum. Þetta voru hans óbreyttu orð, sem hann sagði þá og hefur endurtekið með litlum breytingum eftir það. Þetta er auðvitað alveg hárrétt. Það liggur fyrir og því hefur ekki verið mótmælt, að frá því að sú vinstri stjórn, sem nú situr að völdum og hefur setið með litlum breytingum frá 1978, tók við hefur hlutfallið á milli launataxta verkamanna og sjómanna rýrnað um 20% sjómönnum í óhag. Þegar við höfum þetta í huga og það á að halda áfram að vega í þennan sama knérunn er von að við spyrjum, og það er eðlilegt að fleiri sjómannafélög fylgi í kjölfar þeirra Vestfirðinganna, sem hafa lýst þessu yfir: Við munum ekki hefja róðra um áramótin öðruvísi en að fiskverð liggi þá fyrir.

En það er enn eitt, sem er kannske miklu alvarlegra, að í nýframlögðum kröfum Alþýðusambands Íslands hefur komið fram að langstærsta og sterkasta sambandið innan Alþýðusambandsins, Verkamannasamband Íslands, hefur lagt að því drög að samningsréttur verði tekinn af öðrum aðilum í þessu landi, öðrum samböndum, þar á meðal Sjómannasambandinu. Hvernig fer ef sjómannafélögin ætla að sækja eitthvað af þeim 20%, sem þeirra hlutur hefur rýrnað um miðað við verkamann, og fara fram úr þeirri meðaltalshækkun sem verkamenn gera kröfu til? Hótunin liggur fyrir, að verkamenn muni þá segja upp aftur og mótmæla með öllum ráðum að nokkur fari fram úr þeim. Þetta gildir að sjálfsögðu samkv. orðanna hljóðan jafnt um sjómenn sem aðra. Mér finnst að þetta ætti líka að koma hér fram, og væri ekkert að því að hv. þm., ef hann væri hér við, form. Verkamannasambandsins, segði okkur eitthvað um hvort þetta sé virkilega það sem að sé stefnt.

Það er alveg hárrétt, sem kom hér fram hjá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni áðan, að í raun og veru hefur engin verðlækkun orðið á loðnuafurðum. Það hefur hins vegar orðið nokkur verðlækkun vegna þeirrar gengistilfærslu sem hefur orðið. Þegar upp er staðið er myndin sú, að ríkisstjórn Íslands hefur tekið það góða út úr hækkun dollars í stjórnartíð Reagans, en ríkisstj. hefur hins vegar ekki haft þrek í sér til þess að horfast í augu við vandamálin sem hafa skapast á mörkuðum Vestur-Evrópu.

Ég veit að það verður fylgst mjög náið með þessu nú hjá íslenskri sjómannastétt, hjá hagsmunasamtökum sjómanna, þó að fulltrúi þeirra einn hafi hlaupið á sig í sambandi við ákvörðun um loðnuverð. Eins og þegar er farið að berast frá flotanum til hans og annarra forustumanna í sjómannasamtökunum mun verða horft mjög gaumgæfilega eftir því og hlustað á hvað fram fer næstu daga í sambandi við ákvörðun fiskverðs, og ég er viss um að það verða fleiri sem munu fylgja í kjölfar þeirra á Ísafirði sem gerðu sína samþykki í gær eða fyrradag um að hefja ekki róðra um næstu áramót öðruvísi en fiskverð liggi þá fyrir.