28.10.1981
Neðri deild: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti.

Vegna spurningar hv. 1. þm. Vestf. um loðnumælingar nú vil ég upplýsa eftirfarandi:

Það er rétt, að niðurstöður af rannsókn fiskifræðinga nú í október eru ákaflega alvarlegar. Niðurstaða þeirra er sú af mælingum, að loðnustofninn, sem þeir mældu, sé um 144 þús. lestir, en þeir mældu í fyrra á sama tíma hátt í 700 þús. lestir, eða 677 þús. lestir. Ef þetta er rétt boðar það náttúrlega ekkert annað en hrun loðnustofnsins. Hins vegar koma þessar niðurstöður mjög illa saman við spá þeirra frá því í vor. Loðnuveiðar í ár voru að öllu leyti byggðar á tillögum þeirra í vor, m. a. sá kvóti sem ákveðinn var fyrir íslensk veiðiskip. Sömuleiðis ber þessu illa saman við upplýsingar sem fengust af Jan Mayen-miðunum og birtar voru í norskum blöðum, — niðurstöður norsks rannsóknarskips sem þar skoðaði loðnustofninn í júlí og ágústmánuði og taldi hann vera allstóran. Þess ber jafnframt að geta í þessu sambandi, að þessar mælingar fara fram við ísröndina og að þarna er nýr ís yfir töluvert miklu svæði. Fiskifræðingar hafa sjálfir sagt að vel megi vera að loðnan sé undir ísnum. Ég vil geta þess, að ég átti í gær fund með einum 10 loðnuskipstjórum, en svo vildi til að þeir voru staddir hér í bænum, mjög fróðlegan fund, og þeir hafa vakið athygli á því, að iðulega hefur við slíkar aðstæður lítil sem engin loðna mælst, en hún síðar komið fram, jafnvel vikum seinna. Svo var t. d. 1979 þegar mjög var leitað að loðnu á nálægt öllu svæðinu af allt að 50 loðnubátum og fannst engin fyrr en töluvert seinna að hún kom undan ísnum norðvestur af Vestfjörðum. Ég vil því alls ekki útiloka að svo geti farið enn.

Ég vil jafnframt geta þess, að stjórn Hafrannsóknastofnunar og ráðgjafarnefnd voru á fundum í morgun um þetta mál. Ég hef ekki fengið tillögur stofnunarinnar. Mér þykir því ekki rétt að segja fyrir fram hver niðurstaðan af þessu verður. En ég vil taka undir það með hv. þm., að það er gífurlegum erfiðleikum háð á þessari stundu að stöðva loðnuveiðar því að sumir bátar hafa nánast lokið við að veiða upp í sinn kvóta og aðrir varla hafið veiðarnar. Afli er góður núna og samkv. því ættu þessir bátar að þurrka upp þessi 140 þús. tonn á 7–8 dögum. Ég held að það trúi því ekki nokkur maður að það geti gerst. En þessi mál verða ákveðin í nánu samráði við Hafrannsóknastofnun og við loðnuveiðimenn og L. Í. Ú., og mun það að sjálfsögðu verða gert á næstu dögum.

Við annað, sem hér hefur komið fram, hef ég litlu að bæta, en get látið nægja það sem ég sagði áðan. Þó þykir mér rétt, út af því sem hv. þm. Pétur Sigurðsson sagði um kaup og kjör sjómanna, að endurtaka það sem ég hef sagt áður, að ég tel að það kerfi, sem við búum við, hafi runnið sitt skeið, a. m. k. sé það ákaflega erfitt í framkvæmd á verðbólgutímum eins og við eigum við að stríða. Eins veit ég að hv. þm. er ljóst eins og mér og öðrum, að sjómenn búa þar við annað greiðslufyrirkomulag en menn í landi. Þeir búa við hlutaskipti. Ég veit að honum er eins vel kunnugt um það og mér, að samanburður á fiskverði og kauptaxta í landi er ekki einhlítur. Reyndar veit hann einnig að Þjóðhagsstofnun hefur lagt fram við hverja fiskverðsákvörðun samanburð á annars vegar tekjum sjómanna og kauptöxtum í landi. Þessi mál hafa verið til umræðu oft og verið umdeild. M. a. hefur verið um það deilt, hvort vinnuálag hjá sjómönnum hafi aukist verulega með hærri tekjum þeirra eða hvort þessar auknu tekju megi rekja til bættra tækja, meiri afkasta skipa o. s. frv. Þess vegna hef ég ákveðið að setja á fót starfshóp sem kanni hvað vinnuálag er mikið hjá sjómönnum við ýmiss konar veiðar og hvernig það hefur breyst á undanförnum árum. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að fá úr þessu skorið.

Ég vil vekja athygli á því, að Verðlagsráði er samkv. lögum ætlað að ákveða verðlag, eins og þar segir, m. a. á grundvelli markaða og afkomu greinarinnar. Ég hygg að nokkurn veginn orðrétt sé þannig að kveðið í lögunum. Þetta hafa menn sætt sig við, en verr og verr á síðari árum. Krafa sjómanna hefur orðið ríkari um að þeir fái sömu hundraðshlutahækkun og verður í landi. Fyrir mitt leyti skil ég það mætavel. Þá vaknar hins vegar spurningin um hvort menn vilji hverfa frá hlutafyrirkomulaginu og að launafyrirkomulagi því, sem er í landi, eða hvort menn vilji komast niður á einhvern grundvöll til að meta tekjur hinna ýmsu stétta. Vitanlega eru tekjur á sama vinnutíma það sem gildir. Inn í þetta kemur framleiðni fiskveiða í mjög ríkum mæli. Því miður liggja ekki fyrir um framleiðni fiskveiða nægilega öruggar upplýsingar til að unnt sé að byggja þennan samanburð einhlítt á tekjum. En ég hygg að það efist þó enginn um að framleiðni í fiskveiðum hefur aukist alveg gífurlega á s. l. árum.

Hv. þm. sagði að fiskverð hefði hækkað um 20% minna en kauptaxtar í landi. Hann mun þá eiga við frá 1974. Þetta er rétt, en hins vegar hafa tekjur sjómanna að áætlun Þjóðhagsstofnunar aukist um 20% meira frá 1974 en tekjur iðnaðarmanna og 12% meira en tekjur verkamanna. Þetta eru allt saman gamalkunn sannindi, sem menn hafa misjafnlega mikið fyrir satt að vísu og eru umdeild. Þar verður tvímælalaust úr að skera.

Menn hafa einnig minnst hér lítillega á útgerðina, þó ekki mikið. Ég vil upplýsa það hér, sem ég hef lauslega nefnt í umr. í Ed. nýlega, að til að bæta nokkuð afkomu eða réttara sagt stöðu þess hluta flotans, sem verst stendur, og það er fyrst og fremst hluti af smærri togurunum og þeir stærri sem mestan fjármagnskostnað hafa og hafa ekki notið þeirrar millifærslu sem átti sér stað við gengisfellingu eftir gengisfellingu á undanförnum árum, að fjármagn er flutt yfir í Stofnfjársjóð fiskiskipa og notað þar til að greiða niður erlendar skuldir, þá mun ég beita mér fyrir því, að ríkisframlag til fiskveiðasjóðs verði lagt í Stofnfjársjóð fiskiskipa í þessum tilgangi og þá ráðstafað eftir þeim reglum sem áður giltu. Ég vil geta þess hér, að þetta hefur verið rætt í stjórn Fiskveiðasjóðs og fengið þar mjög jákvæðar undirtektir, enda er það sannfæring mín, að eitthvað slíkt sé nauðsynlegt ef þessi nýrri skip eiga ekki fljótlega að lenda hjá Fiskveiðasjóði, Byggðasjóði eða öðrum skuldheimtumönnum.

Ég skal ekki ræða hér um loðnuverðið út af fyrir sig. Það er rétt, að í íslenskum krónum er hækkun á loðnuverði. Hins vegar lækkaði mjölverðið á próteineininguna úr um það bil 9 dollurum niður í 7 dollara, en það er vitanlega miklu meiri lækkun í dollurum en t. d. á síldinni, sem lækkaði um um það bil 6%. Dæmið í sambandi við loðnuna var því miklu verra en í sambandi við síldina. Það vantaði um þriðjung upp á að verksmiðjurnar fengju mætt vinnslukostnaði með um 450 kr. hráefnisverði. Mér þykja satt að segja furðuleg þau ummæli, sem komu fram hjá hv. þm. Pétri Sigurðssyni, að fulltrúum sjómanna hafi orðið þarna á mistök. Ég verð að viðurkenna að ég sé ekki aðra leið í þessu en að báðir aðilar reyni að mætast og leysa slík erfið dæmi. Mér finnst satt að segja að það sé sjómönnum mjög til hróss, vinnslunni reyndar líka, en ekki síður sjómönnum, sem samþykktu það, að samþykkja verðlækkun á hráefninu í þessari erfiðu stöðu. Það er alveg sama hvað menn segja hér um gengisfellingar. Ég hef engan mann heyrt leggja til að gengið yrði fellt til að mæta slíkum erfiðleikum loðnubræðslnanna eða vinnslunnar. Það hefur aldrei verið nefnt, enda hefði gengisfallið orðið svo gífurlegt að jafnvel hatrömmustu gengisfellingarpostular taka sér ekki slíkar tölur í munn.